A A A
  • 1953 - Matti Svenna
  • 1969 - Jónína Hrönn Símonardóttir
28.06.2012 - 10:46 | JÓH

Gistinóttum fjölgar á Hótel Sandafelli

Mæðgurnar Hrafnhildur og Jóhanna á Hótelinu.
Mæðgurnar Hrafnhildur og Jóhanna á Hótelinu.
« 1 af 2 »
Mæðgurnar Jóhanna Gunnarsdóttir og Hrafnhildur Skúladóttir standa vaktina á Hótel Sandafelli í sumar. Þar hefur verið nóg að gera síðastliðnar vikur enda fleiri gestir sem hafa dvalið á hótelinu í ár en á sama tíma í fyrra. Að sögn Hrafnhildar eru erlendir ferðamenn í meiri hluta. „Við erum að fá fleiri og stærri hópa sem dvelja lengur í senn. Við getum ekki verið annað en ánægðar með það". Á Hótel Sandafelli verður vegleg dagskrá um Dýrafjarðardaga. Þar verður til dæmis opnuð listsýning á myndum Hrafngerðar Elíasardóttur, sem unnar eru úr leir, og Fjöruperlum Kristínar Helgadóttur á föstudaginn, og stendur sú sýning yfir alla helgina. Þá verður boðið upp á grillhlaðborð á fimmtudagskvöldið þar sem lambakjöt, fiskur og kjúklingur er meðal rétta á boðstólnum. Einnig verður boðið upp á sjávarréttasúpu og léttar veigar á ytri bryggjunni á föstudagskvöldið við glymjandi djasstónlist og eru gestir eindregið hvattir til að mæta vel klæddir. Þess utan er morgunverðarhlaðborð alla daga frá kl. 08:30 - 09:30....
Meira
Dýrfirðingar ættu að geta hlustað á Bylgjuna í útvarpinu frá og með deginum í dag.
Dýrfirðingar ættu að geta hlustað á Bylgjuna í útvarpinu frá og með deginum í dag.
Í dag, fimmtudaginn 28.júní, mun Vodafone færa sjónvarpssendi Digital Ísland fyrir Þingeyri í Dýrafirði upp á Sandafell. Hætt verður að nota núverandi sendistað sem er staðsettur að Höfðaodda. Markmiðið með aðgerðunum er að bæta enn frekar
sjónvarpsútsendingar á svæðinu. Sjónvarpsmerki frá nýjum sendi á Sandafelli mun í flestum tilvikum vera nægilega sterkt til að óþarfi sé fyrir íbúa að snúa loftnetum sínum eftir breytingarnar. Ef einhverjir verða varir við að gæði sjónvarps-útsendingar minnki eftir fimmtudaginn er þeim bent á að snúa sjónvarpsloftneti sínu upp að Sandafelli. Ekki þarf að breyta stillingum myndlykla vegna þessa. Jafnframt mun Vodafone setja sendi fyrir Bylgjuna upp á Sandafelli. Hann mun þjóna Þingeyri og nágrenni og verður Bylgjan send út á tíðninni 91,7 MHz. Bylgjusendir verður að auki settur upp á Bíldudal á næstu dögum og verður tíðnin þar 95,3 MHz.
27.06.2012 - 23:03 | JÓH

Sláttur hafinn

Sighvatur Þórarinsson, bóndi á Höfða.
Sighvatur Þórarinsson, bóndi á Höfða.
« 1 af 2 »
Heyskapur er hafinn í Dýrafirði en Sighvatur Þórarinsson, bóndi á Höfða, hóf slátt á Næfranesi í dag. Að sögn Sighvats er ágætis spretta þar sem rekja er í jarðvegi. Það hefur verið einstaklega gott veður í Dýrafirði það sem af er sumri þó svo að lítið hafi rignt. Meðfylgjandi myndir voru teknar í Dýrafirðinum í dag.
27.06.2012 - 20:18 | JÓH

Zumba dans annað kvöld!

Það verður gleði og glaumur í Félagsheimilinu annað kvöld. Mynd: Helga Magg
Það verður gleði og glaumur í Félagsheimilinu annað kvöld. Mynd: Helga Magg
Upphitun fyrir Dýrafjarðardaga verður í Félagsheimilinu annað kvöld en þá ætlar Hildur Sólveig, löggiltur Zumba danskennari, að sýna gestum hátíðarinnar réttu taktana fyrir helgina. Zumba er dans með geggjaðri suður-amerískri tónlist sem fær alla til að brosa og skemmta sér. Það geta allir dansað Zumba enda danssporin sáraeinföld og aðalmálið er að dilla sér í takt við tónlistina. Dansinn byrjar kl. 20:30 og eru gestir hvattir til að mæta í þægilegum og litríkum fötum, í íþróttaskóm og með góða skapið! Þeir sem vilja geta tekið vatnsbrúsa með sér en það verður einnig í boði í Félagsheimilinu. Mætum öll og höfum gaman saman!


Séð yfir Dýrafjörð frá Bessastöðum. Haukadalur til vinstri handan fjarðarns.
.
Einstöksýning í Haukadal í Dýrafirði 27. júní - 12. júlí 2012
.
Gíslastaðir í Haukadal Dýrafirði verða með Einstakasýningu fjórða árið í röð. Að þessu sinni verður sýningin helguð vestfirska einfaranaum Sigurlaugu Jónasdóttur frá Öxney í Breiðafirði. Sýnd verða verk eftir listakonun einnig verða til sýnis hátt í 80 myndir eftir aðra vestfirska einfara í myndlistinni, listahjónanna Gunnars Guðmundssonar og Guðmundu Jónu Jónsdóttur frá Hofi í Dýrafirði. Ekki er þó allt talið því finna má önnur einleikin verk á sýningunni eftir þá Stórval og sjálfan Sölva Helgason. Loks er uppi sýning um Einleiki á Íslandi þar sem fjallað er um einleikjalistina síðustu hundrað árin eða svo.

Einstök sýning verður formlega opnuð miðvikudaginn 27. júní 2012 kl. 13:00 á Gíslastöðum í Haukadal og mun sýningin standa til og með fimmtudeginum 12. júlí. Aðgangur að sýningunni er ókeypis og öllum opin, einsog reyndar hefur verið allt frá upphafi Einstakrar sýningar á Gíslastöðum.
Það er Menningarráð Vestfjarða sem styrkir Einstakasýningu.

Sigurlaug Jónasdóttir málaði minningar af æskuslóðum í Öxney á Breiðafirði og þá aðallega myndir af ýmsu eftirminnilegu úr atvinnulífinu forðum daga. Sigurlaug sagði sjálf í blaðaviðtali 1984: „Mér fannst ég þurfa að sýna ungu fólki í dag hvað fyrri kynslóðir lögðu á sig , bara til þess að halda líftórunni." Fólkinu á myndum Sigurlaugar fellur aldrei verk úr hendi - það leggur fyrir lúðu, tekur lunda, hreinsar dún, hreykir mó, spýtir skinn og vaskar fisk. Sigurlaug er meistaralegur myndsagnamálari, nákvæm, ljóðræn og gamansöm en ríkulegt skopskyn hennar birtist á ólíklegustu stöðum í myndum hennar.
.

26.06.2012 - 23:42 | JÓH

Gulli byggir á Þingeyri

Skjáskot úr þætti kvöldsins á RÚV.
Skjáskot úr þætti kvöldsins á RÚV.
Fyrr í kvöld var þátturinn Gulli byggir sýndur á RÚV, þar sem meðal annars var sýnt frá framkvæmdum sem staðið hafa yfir á Skjólvíkinni á Fjarðargötu síðustu vikur. Húsið er í eigu ungra reykvískra hjóna sem, að eigin sögn, höfðu leitað lengi að húsi við sjávarkamb og heilluðust af Dýrafirðinum. Þrír arkitektar komu að hugmyndavinnu um breytingar á húsnæðinu en Sigmundur F. Þórðarsson á Þingeyri sér um að koma þeim hugmyndum í verk. Eða eins og Gulli orðar það í þættinum, þá ætlar hann að hjóla í málið! Útveggurinn sem snýr að sjónum hefur meðal annars verið fjarlægður og gluggar komnir þar í stað svo útsýnið fái sín best notið....
Meira
26.06.2012 - 12:05 | Tilkynning

Forsetahjónin í Félagsheimilinu

Ólafur og Dorrit samræða um allt land. Mynd: olafurogdorrit.is
Ólafur og Dorrit samræða um allt land. Mynd: olafurogdorrit.is
Stuðningsmenn Ólafs Ragnars Grímssonar halda opinn fund í félagsheimilinu á Þingeyri með Ólafi og Dorrit, miðvikudaginn 27. júní kl. 17:30. Fundurinn er hluti af fundaferð þeirra hjóna um landið og ber yfirskriftina Samræða um allt land. Allir eru velkomnir.

Hallgrímur Sveinsson og Hafliði Magnússon á hlaðinu að Brekku í Dýrafirði sumarið 2009.
.
Ár frá dauða Hafliða Magnússonar þann 25. júní 2011
.
Hafliði Þórður Magnússon, rithöfundur frá Bíldudal, fæddist 16. júlí 1935 í Hergilsey á Breiðafirði. Hann lést 25. júní 2011 á heimili sínu á Selfossi þar sem hann bjó frá 1998. Minningarathöfn fór fram í Laugardælakirkju við Selfoss fimmtudaginn 30. júní 2011. Útför Hafliða Þórðar var frá Bíldudalskirkju 2. júlí 2011

Minningarorð Hallgríms Sveinssonar á Þingeyri í Morgunblaðinu 2. júlí 2011.

Hafliði Magnússon, alþýðulistamaður frá Bíldudal, var einn af þessum hæfileikamönnum sem leynast ótrúlega víða. Hafliði er fyndnasti höfundur landsins, sagði Oddur Björnsson og Hafliði hefur endurvakið smásöguna, skrifaði Erlendur Jónsson. Ekki er amalegt að geta veifað slíkum umsögnum þegar komið er til Lykla-Péturs, enda allt slíkt trúlega niðurskrifað hjá honum.

Undirritaður kynntist Hafliða fyrst árið 1994 þegar hann vann við endurbyggingu burstabæjar Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri. Þar var verklaginn og duglegur maður á ferð við grjóthleðslur og annað sem við átti, enda vanur erfiðisvinnu til sjós og lands frá blautu barnsbeini. Þeir náðu vel saman við bæjarbygginguna, hann og Elís Kjaran, undir stjórn þess eftirminnilega manns, Auðuns H. Einarssonar, enda svipaðir karakterar um margt. Hafliði, hávaxinn og myndarlegur, enda kallaður Evróputröllið af sumum sérfræðingum, bauð af sér góðan þokka, hógvær maður sem þó vildi halda sínu fram þegar við átti, var líkur sumum persónum Íslendingasagna. Þeir félagar höfðu margt í flimtingum þau þrjú sumur sem bærinn var í byggingu, ekki síst ef fallegar konur komu í heimsókn og voru ekki með gaur með sér eins og Hafliði hafði gjarnan á orði af innlifun sinni.

Hafliði gerðist fljótlega eitt af lárviðarskáldum Vestfirska forlagsins og þakkar forlagið honum nú öll þau skrif af hvers konar tagi, smásögur, skáldsögur, ljóð og viðtöl að ógleymdum öllum græskulausu gamansögunum en í þeim var hann sérfræðingur. Bækur hans, Togarasaga með tilbrigðum og Saltstorkin bros, eru undirstöðurit um gömlu togarajaxlana á síðutogurunum. Þar var Hafliði á heimavelli. Og þá var ekki fúlsað við góðu staupi er komið var í höfn. Karakterar þeir sem Hafliði færði til bókar af þeim góðu skipum heyra nú Íslandssögunni til. En persónusköpunin og frásagnarháttur Arnfirðingsins eru rannsóknarefni sem liggur óbætt hjá garði.

Megi Hafliði Magnússon, listamaður alþýðunnar, fá góða heimkomu.


Hallgrímur Sveinsson.
.

Hafliði Magnússon var dugmikill í félagsstarfi fjarbúandi Vestfirðinga. Hér fer hann á kostum í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi við kynningu á ævisögu Jóns Kr. Ólafssonar á Bíldudal sem hann skráði og kom út hjá Vestfirska forlaginu.

F.v.: Steingrímur Stefnisson, frá Flateyri, sitjandi við borðið; Guðrún Jónína Magnúsdóttir, frá Ingjaldssandi, síðan Þingeyringarnir Regína Höskuldsdóttir og Gerður Matthíasdóttir.
.

Eldri færslur
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31