A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
Vegagerðin auglýsir væntanlega kynningarfundi fyrir almenning þar sem kynntar verða  niðurstöður á frummatsskýrslu fyrir Vestfjarðarveg um Dynjandisheiði og Bíldudalsveg. Fundirnir verða haldnir á morgun, 4. febrúar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði kl. 17:00, og á sama tíma þann 5. febrúar í Baldurshaga á Bíldudal.

Vegagerðin hefur lagt fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum ofangreindrar framkvæmdar en um er að ræða samtals 70 km langa vegagerð. Segir í frétt Vegagerðarinnar að markmið framkvæmdarinnar sé að bæta samgöngur milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða en Dýrafjarðargöng munu ekki nýtast að fullu fyrr en lagður hefur verið heilsársvegur um Dynjandisheiði með tengingu til Bíldudals.


Kynning á frummatsskýrslu fer nú fram og er aðgengileg hjá Bókasafni Bílddælinga, Bókasafninu Ísafirði, Skipulagsstofnun og í Þjóðarbókhlöðunni en hún er einnig aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar www.skipulag.is og á vef Vegagerðarinnar: www.vegagerdin.is. Athugasemdafrestur er til og með 17. febrúar 2020 en allir hafa jafnan aðgang að því að senda inn athugasemdir. Skal þeim skila til Skipulagsstofnunnar eða með tölvupósti á skipulag@skupulag.is. 

 





« 1 af 3 »

Sem fyrr var unnið við uppsetningu á einangrunarklæðingu til vatnsvarna í göngunum ásamt því að haldið var áfram að sprautusteypa yfir klæðingarnar.

 

Steypuvinna við fyrsta neyðarrýmið er langt komin og fyrsta steypa komin í öðru neyðarrými en í heildina eru neyðarrýmin fimm talsins. Búið er að steypa tvo tengibrunna fyrir 132 kV jarðstreng Landsnets og uppsláttur hafin á þriðja tengibrunninum en í heildina eru tengibrunnarnir fimm.

 

Byrjað var að keyra neðra burðarlag í veginn í göngunum og haldið áfram með fyllingar undir neðra burðarlag. Byrjað var að grafa og sanda í skurði fyrir ídráttarrörum sem eru fyrir stýristrengi og lágspennu í hægri vegöxl. Vinna við rafmagn hófst í tæknirýmum.

 

Á meðfylgjandi myndum má sjá neyðarrýmin tvo sem eru í smíðum og mót fyrir tengibrunn. 

Í yfirlýsingu á vef Ísafjarðarbæjar kemur fram að meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri hafa komist að samkomulagi um starfslok Guðmundar og lætur hann af störfum nú þegar. Ástæða starfsloka er ólík sýn á verkefni á vettvangi sveitarfélagsins. Telja aðilar það sveitarfélaginu fyrir bestu að leiðir skilji.

Það mun skýrast á allra næstu dögum hvernig ráðningu á næsta bæjarstjóra verður hagað. Þangað til mun bæjarritari, sem er staðgengill bæjarstjóra, gegna starfinu. Meirihlutinn f.h. bæjarstjórnar, óskar Guðmundi velfarnaðar og þakkar honum fyrir samstarfið.

Guðmundur vill koma á framfæri einlægum þökkum til íbúa Ísafjarðarbæjar fyrir frábærar viðtökur og ánægjulegt samstarf. Hann segir það heiður að hafa fengið tækifæri til að vinna að mikilvægum hagsmunamálum Vestfirðinga með kraftmiklu starfsfólki sveitarfélagsins. Það eru spennandi og krefjandi verkefni framundan í Ísafjarðarbæ og rík ástæða til að horfa björtum augum til framtíðar.

 

Þingeyrarakademían sendir Guðmundi Vestfirðingi og drengjum hans kærar kveðjur og þakklæti fyrir Evrópumótið. Það hefur verið þjóðinni kærkomið að fylgjast með dáðadrengjunum þessa daga þegar ýmislegt hefur gengið á afturfótunum uppi á Íslandi. Þó herfjötur hafi fallið á þá í síðustu leikjunum breytir það engu. Það hefur skeð áður í Íslandssögunni.

Það ætlaðist enginn til að Vilhjálmur Einarsson kæmi heim með silfurpening frá Melbourne 1956. Samt gerðist það. En Vilhjálmur var hógvær og lítillátur. Margir reiknuðu með að strákarnir okkar kæmu heim með farseðil til Tokyo. Það gerðist ekki en breytir engu í raun. Þeir þurfa ekki að fyrirverða sig fyrir neitt. Að taka þátt í drengilegum leik er aðalatriðið en ekki verðlaunapeningar, þó góðir séu. Strákarnir fá bara verðlaun seinna! 

 
24.01.2020 - 13:20 | Vestfirðingafélagið

Úr fórum Vestfirska forlagsins: Mýrahreppur

Af því að veðrið er nú svona frekar örðugt þessar vikurnar, er vel viðeigandi að reyna að halda uppi húmornum. Á það nú reyndar við í hvaða veðri sem er, en skjaldan eins og nú. 


Snillingurinn Þórarinn á Höfða og stærðfræðin


Það var hérna á árunum þegar héraðsskóli var starfræktur á Núpi í Mýrahreppi í Dýrafirði. Þá bar svo við einn góðan veðurdag á snjóþungum vetri, að Þórarinn Sighvatsson, bóndi á Höfða, átti leið út að Núpi að heimsækja Þóru dóttur sína, núverandi prestsfrú í Kópavogi. 

   Guðmundur Steinþórsson, bóndi í Lambadal og næsti nágranni Þórarins, sagði frá því í pottinum á Þingeyri um daginn, að Þórarinn hafi hitt að máli Valdimar Gíslason á Mýrum, kennara að Núpi, við þetta tækifæri.

   Spurði hann hvernig stelpunni gengi með námið í skólanum. Lét Valdimar nokkuð vel af því. En það væri þó kannski helst að hún þyrfti að skerpa svolítið á stærðfræðinni. Þórarinn svaraði að bragði:

   
„Ég var hræddur um þetta, Valdimar. Hún hefur svo sjaldan komist inneftir í vetur!“

Þetta stórkostlega svar á skilið að komast í sögubækur. Og ekki síður það, að sá sem einna mest hefur gaman af því er Valdimar Gíslason. Enda hefur hann haldið nafni Þórarins mikið á lofti og telur hann hafa verið snilling, sem hann og var. 

   Tekið skal fram, að sögn þessi er ekki í hinni gagnmerku og sérdeilis vel og skemmtilega skrifuðu bók Aðalsteins Eiríkssonar um sögu Núpsskóla. En sú bók er alveg mekantísk, eins og Bör Börsson myndi sagt hafa!  


 

 

Þó glæpasögur séu margar góðar sem slíkar, er hæpið að láta þær verða aðal lesmál þjóðarinnar. Með tilliti til þess hefur Vestfirska forlagið nú ákveðið að skora glæpasögurnar á Hólm! 


Í vestfirskum sagnaarfi er bæði spenna og dramatík, að ekki sé nú talað um húmorinn. Fólk hugsar oft ekki út í þetta. Það talar um þjóðlegan fróðleik með neikvæðum teiknum og jafnvel lítilsvirðingu. Vill frekar lesa í massavís einhverjar spennu- og glæpasögur sem kallaðar eru. En það er ekki síður spenna í því sem gerðist í raun og veru, eða átti að hafa gerst og stundum miklu meiri. 

Glæpa- og spennusögum er hampað í fjömiðlum árið út og árið inn. Það er auðvitað bara ágætt finnst sjálfsagt mörgum. En væri ekki gott að hafa svolítið meira af öðru efni í bland? Mætti ekki vera meira jafnvægi í þeirri umfjöllun?


Fyrsta framlag Vestfirska forlagsins í glæpasögubardaganum er Hornstrandir og Jökulfirðir, alls 5 bækur sem forlagið gaf út fyrir nokkrum árum. Hornstrandabækurnar eru bæði spennandi og skemmtilegar og það sem meira er: Skilja heilmikið eftir til umhugsunar fyrir lesandann. En glæpasögurnar gleypa menn bara í sig með húð og hári og búið á punktum! 

Svo má nefna allar vestfirsku gamansögurnar undir ýmsum nöfnum. Hinn miðlægi vestfirski gagnagrunnur gamansagna hjá Vestfirska forlaginu er orðinn mjög umfangsmikill, eitthvað milli 30-40 bækur. Forlagið verður með mörg leynivopn í átökunum, til dæmis hinar miklu örlagasögur úr Árneshreppi eftir hann Guðlaug Gíslason frá Steinstúni og nefndu það bara! Það er af nógu að taka hér fyrir vestan í þeim bardögum sem framundan eru, eða þannig!

Glæpasögubardaginn er hafinn!



Líkt og flestum ef ekki öllum er kunnugt um féllu þrjú stór snjóflóð á nágrannabyggðir okkar Flateyri og Suðureyri rétt um miðnætti í gær. Mikil mildi er að snjóflóðin ullu ekki manntjóni en ein unglingsstúlka grófst undir er annað snjóflóðanna sem féllu á Flateyri lenti á heimili hennar með þeim afleiðingum að svefnherbergið fylltist af snjó. Vaskir björgunarsveitarmenn og fundu hana fljótt og örugglega. Móðir stúlkunnar og systkyni komust út af eigin rammleik og hlutu ekki skaða. Stúlkan hefur ásamt fjölskyldu sinni verið flutt með varðskipinu Þór til Ísafjarðar þar sem hún er komin undir læknishendur en hún er ekki alvarlega slösuð. Ljóst er að snjóflóðavarnargarðar hafa varið bæinn fyrir flóðunum en höfnin var ekki í vari og er þar mikið eignatjón, en meirihluti skipa og báta við höfnina slitnuðu frá og sukku. 

Á Suðureyri er ekki mikið eignatjón en snjóflóðið féll niður í sjó sem olli flóðbylgju sem skall á bænum og flætt hefur inn í kjallara sumsstaðar. 

Á stundum sem þessum er gott að finna hversu ríkjandi og einlæg samstaða og náungakærleikur er hér um slóðir og að hvunndagshetjurnar eru margar. Þingeyrarvefurinn sendir hugheilar kveðjur til nágranna okkar og vina í byggðunum hér í kring. 

« 1 af 3 »

Sem fyrr var unnið við uppsetningu á einangrunarklæðingu til vatnsvarna í göngunum ásamt því að haldið var áfram að sprautusteypa yfir klæðingarnar.

 

Uppsteypu á tæknirýmunum í göngunum kláraðist og byrjað var á að steypa í fyrsta neyðarrýminu ásamt því að einn tengibrunnur fyrir 132 kV jarðstreng Landsnets var steyptur.

 

Nokkuð af efni var keyrt í veginn í göngunum. Haldið var áfram með að grafa skurð fyrir ídráttarrörum sem eru fyrir stýristrengi og lágspennu í hægri vegöxl. Jarðvinna kláraðist fyrir tvö neyðarrými en í heildina eru neyðarrýmin fimm.

 

Á meðfylgjandi myndum má sjá uppsteypt tæknirými, steypumót fyrir neyðarrými og uppsetningu á vatnsvörnum. 

Eldri færslur
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31