A A A
  • 2000 - Dagur Ernir Steinarsson
  • 2000 - Birna Filippía Steinarsdóttir

„Sigurinn er alltaf sætastur“

Laufey Björk Sigmundsdóttir ásamt sambýlismanni sínum, Emil Gunnarssyni.
Laufey Björk Sigmundsdóttir ásamt sambýlismanni sínum, Emil Gunnarssyni.
« 1 af 2 »
Dýrfirðingurinn Laufey Björk Sigmundsdóttir var nýverið valin blakkona ársins 2009 af Blaksambandi Íslands ásamt því að vera valin blakkona ársins í Kópavogsbæ, en Laufey hefur spilað með HK frá árinu 2005. HK urðu þrefaldir meistarar í blaki í ár, unnu deildar- , bikar- og Íslandsmeistaratitilinn og Laufey var meðal stigahæstu leikmanna liðsins í vor. Hún var einnig í A landsliði kvenna í strandblaki sem keppti á Smáþjóðaleikunum á Kýpur í sumar. Liðið hafnaði í 5. sæti; unnu Andorra, töpuðu naumlega fyrir Liechtenstein og voru hársbreidd frá því að komast í undanúrslit.

 

Laufey hefur spilað blak í 10 ár. Hún fór á fyrstu æfingu með KA 16 ára gömul þar sem hún stundaði nám í Menntaskólanum á Akureyri; „Ég ætlaði að æfa fótbolta en Birna, mágkona mín, var að æfa blak á þessum tíma og dró mig á æfingu". Laufey spilaði blak með KA í 6 ár en flutti þá í Kópavoginn og hóf æfingar með HK.

 

Árið 2004 prófaði Laufey fyrst að spila strandblak en þá var hún í Lýðháskóla í Danmörku; „Þetta er hvort tveggja jafn skemmtilegt, stemmningin er aðeins öðruvísi í strandblakinu þar sem aðeins tveir eru í liði. Það er ekki þessi barátta um að vera á vellinum". Það var samt ekki fyrr en síðasta vor að hún fór að æfa strandblak að ráði - fyrir Smáþjóðaleikana á Kýpur: „Það er engin inniaðstaða á Íslandi í strandblakinu og þess vegna er erfitt að æfa strandblak á veturna. En það þarf að æfa kerfi, uppspil, hopp og hlaup í sandinum svo við [Lilja Jónsdóttir, félagi hennar í strandblakinu] vorum komnar út í byrjun apríl. Það var hryllilega kalt". Þær héldu æfingum áfram yfir sumarið og urðu bæði stiga- og Íslandsmeistarar í strandblaki 2009, annað árið í röð.

 

Það hefur verið mikil aukning í strandblaki síðustu ár og má nefna að 11 strandblaksvellir eru komnir upp víðs vegar um landið. Einn þeirra er á Þingeyri og sá fær góða dóma hjá Laufey: „Völlurinn heima er með einu flottustu og bestu aðstöðuna á landinu, með þennan fína sand úr Önundarfirði".

 

En hvað skyldi þurfa til að vera góð/ur í blaki?
„Blak er tæknileg íþrótt. Það þarf að þjálfa upp góða grunntækni en maður getur aldrei neitt án þess að hafa sterkan haus líka, þetta er svo mikil sálfræðiíþrótt. Það gengur til dæmis ekki að vera reiður í blaki, það er ekki nóg að bara slá boltann. Það þarf líka að stunda þetta vel, mæta á hverja æfingu og árangurinn verður eftir því. Ég æfi til dæmis blak 5 sinnum í viku og lyfti að auki þrisvar í viku, það skiptir miklu að vera í góðu formi". Skemmtilegast við blakið segir Laufey að sé að vera í góðu liði, fá góðar varnir og sterkar sóknir. Það sé skemmtilegast að spila á móti erfiðustu liðunum því þá þurfi hún að leggja allt sitt í leikinn. Hún gefur ekki upp hverjir séu erfiðustu andstæðingarnir, það sé breytilegt frá ári til árs. „En sigurinn er alltaf sætastur", segir hún.

 

Laufey hefur minnkað þátttöku sína með HK í bili þar sem hún á von á sínu fyrsta barni í apríl. Sambýlismaður hennar er Emil Gunnarsson en hann spilar blak með Stjörnunni í Garðabæ. Emil varð einnig Íslandsmeistari í strandblaki á árinu ásamt Karli Sigurðssyni úr HK. Laufey segir að það sé óhætt að segja að það sé mikið rætt um blak á hennar heimili: „Birna, mágkona mín, æfir ennþá blak með KA og svo er Dýrleif Hanna, yngri systir mín, farin að æfa með þeim líka". Núna þjálfar Laufey 3. flokk karla og kvenna í blaki hjá HK og segir markmiðið vera að ná góðum árangri í þjálfuninni. „Vonandi get ég bara byrjað sem fyrst aftur í blakinu", segir Laufey.

 

Fyrir ættfróða lesendur Þingeyrarvefins má geta þess að Laufey er dóttir Sigmundar F. Þórðarsonar og Þorbjargar Gunnarsdóttur.

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30