28.06.2012 - 10:46 | JÓH
Gistinóttum fjölgar á Hótel Sandafelli
Mæðgurnar Jóhanna Gunnarsdóttir og Hrafnhildur Skúladóttir standa vaktina á Hótel Sandafelli í sumar. Þar hefur verið nóg að gera síðastliðnar vikur enda fleiri gestir sem hafa dvalið á hótelinu í ár en á sama tíma í fyrra. Að sögn Hrafnhildar eru erlendir ferðamenn í meiri hluta. „Við erum að fá fleiri og stærri hópa sem dvelja lengur í senn. Við getum ekki verið annað en ánægðar með það". Á Hótel Sandafelli verður vegleg dagskrá um Dýrafjarðardaga. Þar verður til dæmis opnuð listsýning á myndum Hrafngerðar Elíasardóttur, sem unnar eru úr leir, og Fjöruperlum Kristínar Helgadóttur á föstudaginn, og stendur sú sýning yfir alla helgina. Þá verður boðið upp á grillhlaðborð á fimmtudagskvöldið þar sem lambakjöt, fiskur og kjúklingur er meðal rétta á boðstólnum. Einnig verður boðið upp á sjávarréttasúpu og léttar veigar á ytri bryggjunni á föstudagskvöldið við glymjandi djasstónlist og eru gestir eindregið hvattir til að mæta vel klæddir. Þess utan er morgunverðarhlaðborð alla daga frá kl. 08:30 - 09:30.
Nánari upplýsingar um einstaka dagskrárviðburði er að finna í dagskrá Dýrafjarðardaga og á Facebook síðu Hótel Sandafells.
Nánari upplýsingar um einstaka dagskrárviðburði er að finna í dagskrá Dýrafjarðardaga og á Facebook síðu Hótel Sandafells.