A A A
  • 1990 - Karen Lind Richardsdóttir
08.03.2018 - 17:40 | Arna Lára Jónsdóttir

Dýrafjörđur á tímamótum

Þingeyri hefur verið boðin þátttaka verkefninu Brothættar byggðir á vegum Byggðastofnunar að beiðni Ísafjarðarbæjar. Forsendur fyrir þátttöku í verkefninu er m.a. skökk aldursdreifing,  viðvarandi fólksfækkun og einhæft atvinnulíf.  Markmið Brothættra byggða er að fá fram skoðanir íbúanna á framtíðarmöguleikum byggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra. 

Árið 1998 bjuggu 371 íbúi á Þingeyri en árið 2017 voru íbúarnir orðnir 263.  Á tímabilinu hafa  dunið yfir nokkur áföll í fiskvinnslunni með tilheyrandi atvinnuóöryggi fyrir íbúa. Á sama tíma hefur opinber þjónusta sem og þjónusta einkaaðila dregist saman. Það var mat okkar í bæjarstjórninni að við yrðum að leita leiða til að bregðast við því ástandi sem upp er komið.


Tækifæri í augsýn

Þó að hagtölurnar á Þingeyri sýni dökka mynd, eins og staðan er í dag, þá er full ástæða til bjartsýni. Lykilatriðið er að styrkja íbúana og samfélagið og höfum við ýmis verkfæri til þess, þ.m.t. verkefni eins og Brothættar byggðir og Blábankann.

Árið 2020 opna Dýrafjarðargöng sem verður algjör bylting fyrir samfélög á Vestfjörðum og ekki síst fyrir Dýrafjörð sem verður miðja Vestfjarða. En hvernig ætlum við að nýta okkur þessa nýju stöðu? Ég er sannfærð um að göngunum muni fylgja mikil tækifæri fyrir Þingeyri til að ná vopnum sínum á nýjan leik, með aukinni ferðaþjónustu, menningu og stórefldri fiskeldisstarfsemi. Þess má líka geta að ljósleiðaratenging Dýrafjarðar, með Snerpu í fararbroddi, heldur áfram en þær framkvæmdir munu skipta samfélagið gríðarlega miklu máli.


Blábankinn – nýsköpun í þjónustu

Blábankinn er heiti á samfélagmiðstöð sem opnuð var á Þingeyri í september sl., en um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára í nýsköpun í opinberri þjónustu til að takast á við breytingar í smærri samfélögum.  Verkefnið er sprottið úr þeirri stöðu sem myndaðist á Þingeyri haustið 2015 þegar að Landsbanki Íslands lokaði útibúi sínu en önnur þjónusta í byggðarlaginu hafði einnig dregist saman samhliða því að íbúum hafði fækkað. Atvinnulífið á Þingeyri er frekar einhæft og mikil þörf fyrir að skapa ný atvinnutækifæri með breyttum tilverugrundvelli byggðarlagsins.


Fjölbreytt starfsemi

Markmið Blábankans er að skapa vettvang  þar sem hægt er að veita fjölbreytta þjónustu með litlum tilkostnaði. Blábankanum er ætlaður að vera samverustaður og fastur punktur í tilveru íbúa Dýrafjarðar. Þar er vettvangur fyrir ríkisstofnanir, einkaaðilar og sveitarfélagið  til að leggjast saman á árarnar til dæmis með því að þróa nýtingu nútíma tækni til að efla þjónustu í nærsamfélagi. Það er eitt af markmiðum Blábankans að stuðla að samheldni meðal íbúa og skapa rými þar sem fólk getur komið saman, rætt og þróað nýjar hugmyndir.

Í Blábankanum hefur verið komið upp vinnuaðstöðu fyrir frumkvöðla, fyrirtæki og aðra sem þurfa skrifstofuaðstöðu til lengri eða skemmri tíma auk þess sem hægt er að leigja fundaraðstöðu.

Í Blábankanum má nálgast þjónustu Ísafjarðarbæjar, Landsbankans, Verk Vest og bókasafns og þar eru reglulega haldnir viðburðir og námskeið.


Öflugt samstarf

Blábankinn er fyrirmyndar dæmi um hvernig hið opinbera og einkaaðilar geta unnið saman að sameiginlegum hagsmunum.  Bakhjarlar Blábankans eru Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Landsbanki Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ísafjarðarbær, Simbahöllin, Vestinvest, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Snerpa, Arctic fish, Pricewaterhouse Coopers og Pálmar Kristmundsson.


Góð byrjun

Blábankinn hefur farið mjög vel af stað og er ástæða til bjartsýni hvað varðar áframhaldandi þróun starfseminnar. Vel tókst vel með ráðningu tveggja starfsmanna en Arnar Sigurðsson og Arnhildur Lilý Karlsdóttir tóku til starfa í fyrra sumar og segja má þau hafi þegar sett mark sitt á starfsemina.  Á fyrstu  mánuðunum hafa verið haldnir fjölda margir viðburðir s.s. fundir, námskeið og kynningar í Blábankanum eða á hans vegum.

27 einstaklingar hafa nýtt sér vinnuaðstöðu í Blábankanum til lengri eða skemmri tíma, og verða a.m.k. tvö nýsköpunarverkefni með starfsstöð að hluta á næstu mánuðum í Blábankanum.


Blábankahraðallinn

Eitt af þeim spennandi verkefnum sem eru í gangi í Blábankanum er Blábankahraðallinn sem er vettvangur fyrir sprotafyrirtæki, frumkvöðla, listafólk og skapandi einstaklinga sem eru með hugmynd eða verkefni sem þeir vilja vinna og þróa frekar. Þetta er boð um að koma og dveljast á Þingeyri í allt að þrjár vikur í maí og fá tækifæri til að vinna að eigin hugmynd í skapandi umhverfi með aðstoð sérfræðinga eftir atvikum. Alls sóttu 14 verkefni um að fá taka þátt í Blábankahraðlinum sem verður að teljast góður árangur.

Íbúaþing framundan

Helgina 10. – 11. mars er íbúum á Þingeyri, og öðrum sem hafa tengsl við staðinn, boðið til íbúaþings í félagsheimilinu undir merkjum Brothættra byggða. Það eru Byggðastofnun, Ísafjarðarbær, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Vestfjarðastofa og síðast en ekki síst íbúar sem bjóða til þingsins en fulltrúar þessara aðila skipa verkefnisstjórn. Þær hugmyndir og ábendingar sem koma fram á íbúaþinginu ásamt stöðugreiningu verða efniviður fyrir verkefnisáætlun með framtíðarsýn og markmiðum fyrir byggðaþróunarverkefni á Þingeyri, sem staðið getur í allt að fjögur ár.  Raddir íbúa og frumkvæði skipta miklu máli í þeirri vinnu sem nú er framundan.  

Blábankinn, Brothættar byggðir og bættar samgöngur munu verða vegvísir til bjartari tíma í Dýrafirði. Þetta eru þau verkfæri sem við getum notað til að ýta undir fjölbreytni starfa og fleiri tækifæri.

Sjáumst í félagsheimilinu á Þingeyri laugardaginn 10.mars kl. 11.

 

Arna Lára Jónsdóttir

Formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og oddviti Í-lista

07.03.2018 - 15:11 | Ţingeyrarakademían

Ályktun frá Ţingeyrarakademíunni

Ellilífeyrisþegar sem lepja dauðann úr skel fái afturvirka leiðréttingu strax!


Milli 1700 til 2000 eldri borgarar hafa ekkert nema einfaldan lífeyri frá Tryggingastofnun til að lifa á segir Mogginn og ekki lýgur hann. Í blaðinu segir í viðtali við 73 ára konu, sem byrjaði að vinna í fiski 13 ára gömul og hefur unnið í 60 ár:   


„Minn réttur er 225 þúsund, því ég er á vergangi og bý hjá syni mínum, þannig að ég fæ ekki neina heimilisuppbót. Það er svo tekinn 38% skattur af þessu þannig að ég fæ útborgaðar tæpar 175 þúsund krónur á mánuði.“     Ofan á það leggjast svo greiðslur frá lífeyrissjóði, 55 þúsund og eru því heildargreiðslur til hennar 230 þúsund krónur.

Það var einmitt það! Við leyfum okkur svo að greiða þeim sem ekki vita aura sinna tal afturvirkar launahækkanir upp á fleiri milljónir króna. En aldrei hafa menn heyrt talað um afturvirkar launahækkanir handa þeim sem virkilega þurfa á því að halda. Svo gengur það út yfir allan þjófabálk, að lífeyrir almannatrygginga skuli skerðast við greiðslur úr lífeyrissjóði hjá þeim sem eiga ekki fyrir salti í grautinn.

Þetta finnst Þingeyrarakademíunni fyrir neðan allar hellur.


Akademían gerir það því að tillögu sinni að ellilífeyrisþegar, sem ekkert hafa til að moða úr nema einfaldan ellilífeyri, fái eins og skot tvær milljónir króna og það skattfrjálst úr sameiginlegum sjóði landsmanna, sem afturvirka eingreiðslu.
Flestir þeirra hafa unnið baki brotnu fyrir landið alla sína tíð og eiga þetta inni hjá ríkissjóði. Þó fyrr hefði verið. Þeir sem við kjötkatlana sitja ættu að skilja þetta manna best!

Það þarf engan starfshóp eða nefnd í þetta mál. Þingeyrarakademían krefst aðgerða strax. Vilji er allt sem þarf. Hvar á að taka peningana? Það færi vel á því að þeir væru teknir af arði Landsbankans. Ekkert vesen!

 


Hvað er Þingeyrarakademían?

Þingeyrarakademían er stór hópur manna sem stundar morgunsund og heita pottinn á Þingeyri. Þar eru ýmiskonar innanlands- og heimsvandamál rædd og jafnvel leyst. Þingeyrarakademían kemur til dyranna eins og hún er klædd.

 
05.03.2018 - 14:03 | Vestfirska forlagiđ

Úr sagnabanka Vestfirska forlagsins

Mynd frá www.timarit.is - Togari, sem sýnist af gerđinni 1907-10 og vélbátur af fyrstu gerđ
Mynd frá www.timarit.is - Togari, sem sýnist af gerđinni 1907-10 og vélbátur af fyrstu gerđ

Rétt að slá af?


Fram á miðja tuttugustu öldina ferðuðust Dýrfirðingar jafn mikið á sjó og landi og varla var til sá sveitabær við fjörðinn þar sem ekki var til skekta eða mótorbátur. Flutningur hvers konar kaupstaðarvöru fór að mestu leyti fram á sjó. Allir kunnu að róa og meðferð véla í bátum varð flestum auðveld eftir því sem vélbátar urðu algengari.

Við Bakkasjóinn voru að jafnaði þrír bátar, stundum fjórir. Fyrstur með vél í bát þar var Kristján Jón Benónýsson í Hjarðardal. Hann flutti til Reykjavíkur 1942 og hvarf hans bátur þá úr lendingunni. Nokkrum árum síðar keypti Guðmundur Hermannsson í Hjarðardal lítinn bát af Gísla Gilssyni á Arnarnesi, þegar Gísli hætti búskap og flutti suður. Í þessum bát var lítil Gautavél, líklega eitt og hálft hestafl, og gekk hann dável fyrir þessu vélarafli. Ekki hafði Guðmundur átt við vélar í bátum fyrr, og hafði eflaust fengið snöggsoðna leiðbeiningu frá fyrri eiganda um meðferð vélarinnar.

Nú ræðst Guðmundur til kaupstaðarferðar á bátnum og með honum í för Oddur Jónsson, þá ungur maður í foreldrahúsum á Gili. Þegar bátnum hafði verið ýtt úr vör bað Guðmundur Odd að setja stýrið fyrir, en sjálfur bograði hann yfir vélina og gerði hana klára til gangsetningar. Vélin rauk strax í gang, en Oddur settist við stýrið og tók stefnuna á bryggjuna á Þingeyri.

Ferðin yfir fjörðinn gekk eins og í sögu og ræddu þeir Guðmundur og Oddur um muninn á því hve miklu léttara væri nú að sitja og hlusta á mótorskellina heldur en að sveitast við árarnar til þess að komast yfir fjörðinn.

Þegar að bryggjunni kom tók Oddur sveig inn fyrir bryggju-hausinn og stefndi á stigann sem var í innri króknum, en Guðmundur beygði sig yfir vélina til þess að minnka ferðina og bakka áður en árekstur yrði. Eitthvað fataðist honum vélgæslan og báturinn hélt ferðinni þar til hann rakst á stigann og rann stefnið upp stigann þar til sjór féll inn um skutinn.

Ekki haggaðist Oddur mikið, en mælti af rósemi þegar báturinn stóð næstum því upp á endann í stiganum:

Væri nú ekki rétt að fara að slá af, Mundi?

Sögn Davíðs H. Kristjánssonar

 
01.03.2018 - 09:38 | Hallgrímur Sveinsson

Ekki verđi seldur fimmeyringur í Landsbankanum!

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir í ViðskiptaMogganum í dag, 1. marz, að nú sé góður tími fyrir ríkið að selja hlut í bankanum. Hann líti gríðarlega vel út fyrir fjárfesta um þessar mundir sé litið á þróun rekstrarins í gegnum síðustu uppgjör og framtíðarsýn. Hún segist helst vilja sjá bankann í dreifðu eignarhaldi. Og er nú full ástæða til að rifja upp ályktun aðalfundar Búnaðarfélags Auðkúluhrepps frá 1. apríl í vor um sölu Landsbankans. Þar segir svo:

„Aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúluhrepps krefst þess af Alþingi og ríkisstjórn að ekki verði seldur fimmeyringur í Landsbankanum. Fundurinn telur að alls ekki megi hleypa erlendum fjárglæframönnum og vogunarsjóðum með krumlurnar í sjóði hans. Það er álit fundarins að Landsbankinn eigi að vera 100% í eigu allra Íslendinga. Viðskiptabanki fyrir venjulegt fólk. Alveg eins og sparisjóðirnir voru. Það þarf að lýsa þessu yfir í eitt skipti fyrir öll fyrir hönd eigendanna. Bankinn á ekki að standa í neinu peningaþvætti.“

23.02.2018 - 12:08 | Vestfirska forlagiđ

Úr sagnabanka Vestfirska forlagsins

Tímaskynið


Viðar Finnsson var lengi á togaranum Guðbjörgu ÍS 46 frá Ísafirði. Viðar var haldinn mikilli bíla- og mótorhjóladellu og eyddi öllum frístundum sínum í að gera við jeppa sína og mótorhjól og var alltaf kolsvartur upp fyrir haus.
Eitt sinn þegar Viðar bjó á Engjaveginum á Ísafirði var hann að rífa sundur jeppavél í bílskúrnum og hafði alveg gleymt sér við það verk. Illa gekk að rífa. Viðar þurfti slaghamar og átti hann ekki til. Hann bankaði því hjá Skúla Skúlasyni trésmið sem var næsti nágranni Viðars sem líklegur var til að eiga slaghamar. Skúli kom til dyra, fáklæddur, úfinn og úrillur. Viðar spurði hvort

hann ætti slaghamar.

-Veistu hvað klukkan er? spurði Skúli.

-Nei, sagði Viðar.

-Hún er að verða þrjú að nóttu, sagði Skúli.

-Hver andskotinn, sagði Viðar. Þá hef ég gleymt kvöldmatnum.

 
21.02.2018 - 10:24 | BLÁBANKINN á Ţingeyri

Lánatorg međ samfélagsleg gildi

Hugsaðu þér ef til væri lánatorg sem væri fullkomlega í eigu viðskiptavina, sem veitti hagstæð lán með lága vexti og þú gætir hæglega verið hluti af þeirri heild og notið hagstæðra kjara. Hljómar það of gott til að vera satt?

Hjalti og Hjörvar eru forritarar og frumkvöðlar sem komu í Blábankann fyrir skemmstu til að vinna að tæknilausnum fyrir félagsvædda lánastarfsemi, verkefni sem þeir hafa nú unnið að ásamt tveimur öðrum í rúmt ár. Um er að ræða lánatorg með sterka skýrskotun til samfélagsbanka að erlendri fyrirmynd. Komust þeir bræður í kynni við einn slíkan þegar systir þeirra bjó í Bandaríkjunum og var í viðskiptum við samfélagsbanka (e. Credit Union), einskonar sparisjóð sem er 100% í eigu viðskiptavinanna án aðkomu stofnfjárfesta. Slík stofnun er samfélagslega jákvæð þar sem segja má að fólk eigi í fyrirtækinu sem það er að versla við.

Fyrirkomulag lánakerfisins í verkefni Hjalta og Hjörvars er á jafningjagrundvelli. Notendur lánatorgsins geta sótt um lán og aðrir notendur lánað þeim. Það má líkja því við einskonar hópfjármögunarlán* til einstaklinga. Eigendur Samfélags-lánatorgsins skiptast gróflega í tvo hluta, en stofnendur og starfsmenn annars vegar og notendur hinsvegar. Notendur kjósa tvo stjórnarmenn af fimm og fá 80% af þeim arði sem verður til í félaginu. Gagnsæi er félaginu mikilvægt og verða allar mikilvægar upplýsingar varðandi rekstur, s.s. laun framkvæmdastjór og stjórnar gerðar aðgengilegar.

Lánatorgið er einkahlutafélag með sterkan samvinnuvinkil. Lánveitendur taka ekki tryggingu fyrir láni, en vettvangur sem þessi gengur útá vandað lánshæfnismat. „Lántakendur á Íslandi eru almennt góðir lántakendur. Sé miðað við önnur lönd eru endurgreiðslur lána á Íslandi mjög góðar“ segir Hjalti. Samfélags-lánatorgið mun einbeita sér að því að bjóða millistór lán til nokkurra ára, þ.e. ekki smálán né stærri húsnæðislán. Lánin má t.d. líta á sem hluta af stærri fjármögnun, eða til að fjármagna smærri verkefni, bílakaup eða jafnvel niðurgreiðslu á skammtímaskuldum með háum vöxtum.

Hjalti og Hjörvar sjá fyrir sér að lánatorgið muni geta lækkað vaxtamun til almennings: „Það verður okkar markmið að hafa eins litla yfirbyggingu og hægt er og bjóða uppá góð kjör.“ Einn af kostum lánatorgsins er að það eru í raun notendur þess sem ákvarða vextina, en lánatorgið mun hliðra vöxtum eftir því hvort það er meiri eftirspurn eftir að lána eða fá lánað, það er því ekki eins auðvelt fyrir stóra aðila á markaðnum eins og banka að hækka vexti á almenning þegar svona fyrirtæki er á markaðnum sem veitir þeim aðhald.

Segja má að bakgrunnur Hjalta og Hjörvars sé nokkuð góður til að standa að þessu verkefni en Hjalti hefur áður starfað við áhættustýringu hjá bönkum og lífeyrissjóðum og þekkir því vel starfsumhverfið og flókið regluverk fjármálaheimsins. Hann er menntaður verkfræðingur og hefur að auki reynslu af hugbúnaðargerð. Hjörvar stundar nám í stærðfræði og tölvunarfræði við Háskóla Íslands og hefur sérstakan áhuga á netöryggi og ólíkum útfærslum þess. Hjörvar er einnig jógakennari og hefur ferðast mikið um afskekktari svæði heimsins og kynnst ólíkum menningarheimum. Reynsla þeirra og þekking, ásamt lífsviðhorfum mynda því gott jafnvægi. Bræðurnir starfa að verkefninu af hugsjón, enda þarf ríka samfélagshyggju til að standa að slíku verkefni. „Já ætli það sé ekki ástríða fyrir mannkyninu. Það er kannski von á fjármálamarkaðnum ef þú ert að fá peningana frá öðru fólki.“ segja þeir.

Verkefni Hjalta og Hjörvars er komið vel á veg og mun frumútgáfa þess líta dagsins ljós í sumar 2018. Allt bendir til þess að verkefni sem þetta geti gengið mjög vel hér á landi og ekki er ólíklegt að verkefnið verði prófað til að byrja með í smærra samfélagi en Reykjavík enda segja þeir að smæðin geti tvímælalaust verið kostur. „Credit union/sparisjóður gengur útá samfélagslega pælingu þ.e. samfélagið í kringum þá og samkennd meðal þeirra sem standa að þessu. Fólk vill mögulega frekar borga þangað sem þeir þekkja til en eitthað annað. Það vekur upp samfélagslega og félagsleglega ábyrgð“ segja þeir.

Hjalti og Hjörvar láta vel af dvöl sinni í Blábankanum en þeir vörðu þar sex dögum. „Já það er alltaf gott að skipta um umhverfi. Truflun var lítil og afköstin  góð.“ Þeir hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja og verið ötulir þátttakendur í morgunumræðum í heitapottinum með fastagestum sundlaugarinnar og gerðu sér ferð í Grunnskóla Þingeyrar þar sem þeir kynntu forritun fyrir nemendum þar.

 

*(Hópfjármögnun er þegar einstaklingar leggja í púkk misháar fjárhæðir til fjármögnunar á stökum verkefnum.)

19.02.2018 - 10:51 | Hallgrímur Sveinsson,Guđmundur Ingvarsson,Bjarni Georg Einarsson,Hallgrímur Sveinsson og Hreinn Ţórđarson

Ţrenning sem hvílir ţungt á Vestfirđingum

Sveitarstjórnarkosningar eru í vor. Þá verða margir kallaðir en fáir útvaldir. Ljóst er að þeir útvöldu hér vestra verða að huga að eftirtöldum þremur stórmálum Vestfirðinga sem eru hvarvetna í umræðu. Þau eru nátengd hvert öðru.

1. Vestfirska rafmagnið

Það var kraftaverk að rafvæða Vestfirði fyrir 60 árum. Og koma orkunni nánast á hvert byggt ból. En nú sárvantar Vestfirðinga öruggt og stöðugt rafmagn. Lái þeim hver sem vill. Þetta eilífa basl þeirra að halda rafmagninu inni er löngu orðinn brandari á landsvísu. En þeir eiga að framleiða sitt rafmagn sjálfir. Eru ekkert of góðir til þess. Á Vestfjörðum er hægt að reisa og reka öruggustu vatnsvirkjanir landsins. Sé það gert í góðri sátt við náttúruna er engu spillt.
Frumkvöðlar Hvalárvirkjunar og fleiri virkjana hér vestra, eru ungir Vestfirðingar. Þeir hafa verið aldir upp við að bjarga sér sjálfir líkt og gilt hefur á Vestfjörðum frá upphafi byggðar. Hafa staðið í þessu basli á eigin forsendum og ekki látið deigan síga. Slíkt er alltaf traustvekjandi.


2. Fiskeldið
„Fiskeldi á Vestfjörðum hefur virkað sem kraftaverkalyf á byggðarlög, sem heltekin voru af hrörnunarsjúkdómi. Sá sem hefur vaknað eldsnemma á Bíldudal, fundið driftina í mannlífinu á leið til vinnu, orkuna, hamarshöggin og baráttuna um lausu bílastæðin, skilur hvað fiskeldi hefur fært inn í vestfirskt samfélag, líf, vöxt og menningu.“
Svo skrifar Pétur Markan, sveitarstjóri í Súðavík. Á bak við þennan grípandi texta býr mikil trú á landið og gullkistuna okkar. Sporin hræða að vísu. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og fleiri fóru flatt á fiskeldinu á sinni tíð. Menn fóru allt of geyst. Steingrímur sagði að aðstæður til fiskeldis hér á landi væru ekki verri en annars staðar. Líklega væru þær betri ef eitthvað væri.
Almenn skynsemi segir okkur að við verðum að nýta þá möguleika sem eru í farvatninu. Annað væri glapræði. En við skulum flýta okkur hæfilega. Lærum af reynslunni. Róm var ekki byggð á hverjum degi eins og þar stendur! Sleppum öllum æðibunugangi. Þá mun vel fara. Það eru gömul og sígild sannindi. En spyrja verður: Hvert fer arðurinn af fiskeldinu?

3. Almennilegan veg í Gufudalssveit
Á ótrúlega skömmum tíma lögðu vestfirskir vegagerðamenn vegi svo til að hverjum einasta bæ á Vestfjörðum. Það var torsótt vegagerð. En eyðilögðu þessir brautryðjendur landið? Sumir segja að alls ekki megi leggja veg um Teigsskóg og Hallsteinsnes í

Gufudalshreppi. Þá sé voðinn vís. Þeir góðu menn átta sig ekki á að búið er að leggja vegi vítt og breytt um alla Vestfirði á mjög svo sambærilegum stöðum við þennan margumrædda og góða skóg. Fáir meinbugir þar á. Náttúran alveg söm við sig eftir
því sem séð verður.
Þráteflinu í Gufudalssveit verður að ljúka. Við þurfum þokkalegan heilsársveg í stað moldarveganna sem eftir eru í sveitinni. Ódrjúgsháls og Hjallaháls heyra til liðnum tíma. Stóra spurningin er náttúrlega hvort ekki er hægt að ljúka vegalagningu í Gufudalssveit án þess að fara um Teigsskóg eða bíða í áratugi eftir jarðgöngum. Nokkrir spekingar hafa komið með ábendingar um önnur vegstæði. Þær mætti skoða betur.

Á að setja málið í gerðardóm?
Menn hafa nefnt að taka eigi land eignarnámi undir veginn og jafnvel setja lög. Skoða mætti líka hvort ekki væri heppilegast að Alþingi eða Hæstiréttur skipi gerðardóm hinna bestu manna til að ljúka þessu endalausa þrátefli. Sagan segir okkur að slíkt hafi oft verið gert þegar mál hafa verið komin í óefni, sbr. hvað gerðist á Þingvöllum árið 1000. Ákvarðanir gerðardómsins þyrftu að vera bindandi fyrir alla aðila. Dómurinn fái skamman tíma til að ljúka störfum. Og heimamenn í Reykhólahreppi verði þar í oddaaðstöðu. Það væri tilbreyting í því.

Hallgrímur Sveinsson Guðmundur Ingvarsson Bjarni G. Einarsson

16.02.2018 - 16:34 | Arnhildur Lilý Karlsdóttir

Hugleiđingar um snjó og snjómokstur

Hversdagslegur veruleiki vestfjarða að vetri til: Snjó kyngir niður. Og kyngir niður. Og kyngir niður. Reyndar skilst mér að síðastliðinn vetur hafi verið að mestu snjólaus hér á Þingeyri fram að aðfangadegi en þá hafi snjóað svo mikið að fólk hafi verið innlyksa í fjóra daga á eftir. Verandi svo nýlega aðflutt er þetta snjóflæmi ákveðið nýnæmi fyrir mér. Snjórinn virðist líka öðruvísi hér en fyrir sunnan. Fyrir sunnan snjóar en snjórinn helst varla lengi áður en hann breytist í grátt slabb sem ýmist frystir eða bætir í eftir því hvoru megi við 0°C hitastigið sveiflast. Snjórinn hér á Þingeyri er alls ekki þannig, hann er yndislega hvítur og léttur og kyndir undir gamla gönguskíðadrauma mína frá barnæsku.

Annað sem ég hef velt fyrir mér er snjómoksturinn, sem eins og gefur að skilja er mikið þarfaþing í svo miklu fannfergi. Hinir ötulu snjómokstursmenn á gröfunum stóru þeysast um allan daginn og færa til snjóinn smátt og smátt þar til göturnar eru svo gott sem auðar, gangstéttar mokaðar líka og öllu þessu magni af snjó snyrtilega komið fyrir á réttum stöðum. En þá velti ég fyrir mér, hvernig maður færir til snjó svo vel sé? Ég geri ráð fyrir að það þurfi ákveðna útsjónasemi við snjómokstur. Þar þýðir lítið að skvetta til höndum og skipuleggja þarf moksturinn svo vel takist til. Hér á Þingeyri hef ég séð að snjónum er ekki bara rutt til hliðar líkt og víða annarsstaðar er gert (ég man vel eftir þrautinni við að koma barnavagni yfir harða snjóhrauka sem fylltu gangstéttina nokkra vetur fyrir utan heimili mitt fyrir sunnan). Snjónum hér á Þingeyri er raunverulega mokað í burtu og hann settur á staði þar sem minnst fer fyrir honum. Hér er mokað vel út í sem flest horn og ég get vel trúað því að útskotin þar sem moka þarf geti orðið allt að því óteljandi.

Ég fyllist aðdáun yfir fimi þessara manna með stóru vinnutækin og fínvinnan sem þeir vinna með hinum grófgerðu vinnutækjum er einstök. Takk fyrir að moka snjóinn svona listlega vel!

12.01.2018 - 22:36 | Hallgrímur Sveinsson

Sundlaugarmenning okkar fyrr og nú

Í Ţingeyrarakademíunni eru mál krufin til mergjar.
Í Ţingeyrarakademíunni eru mál krufin til mergjar.

Dr. Eiríkur Bergmann segir í Smartland á mbl.is að sundlaugarmenning okkar Íslendinga sé framlag okkar til siðmenningar. Sjálfur fer hann helst daglega í sund og saknar Vesturbæjarlaugarinnar mest þegar hann er erlendis, utan vina og ættingja. Eiríkur segir sundlaugarferðir allra meina bót og samfélagið þar oft mjög sérstakt.      Þetta eru orð að sönnu. Spurningin er bara hvort læknar eigi ekki hreinlega að gefa mönnum rezept á sundlaugarferðir til að lækna ýmsa kvilla sem hrjá  okkur í dag, bæði andlega og líkamlega.


Í Þingeyrarakademíunni eru mál krufin til mergjar

...
Meira
06.11.2017 - 06:53 | Vestfirska forlagiđ,Sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson.

Kafli úr bókinni -Allt ţetta fólk Ţormóđsslysiđ 18. febrúar 1943-

Ţormóđur leggur upp í sína örlagaríku för frá Bíldudal. Teikning: Jóhann Jónsson.
Ţormóđur leggur upp í sína örlagaríku för frá Bíldudal. Teikning: Jóhann Jónsson.

Ótíðindin


Á Bíldudal fréttist ekkert af ferðum Þormóðs. Á fimmtudaginn var símalínunni vestur lokað. Þá voru liðnir fjórir dagar frá því skipið hélt frá Bíldudal. Menn vissu af viðkomu á Patreksfirði og þá hefði skipið átt að vera komið til Reykjavíkur á miðvikudagsnóttina. Á fimmtudag er ýmis kvittur á kreiki. Valdimar Bjarnason í Sælundi er sagður hafa getað hlustað á bátabylgjuna í útvarpi sínu sem þó var ekki algengt og heyrt samskipti við Þormóð og af þeim ráðið að skipið hafi lent í sjávarháska. Enginn veit þó neitt með vissu en ótta hefur sett að öllum.


Það er ekki fyrr en á föstudeginum að sr. Jón Kr. Ísfeld þá sóknarprestur á Hrafnseyri kemur með báti yfir fjörð að það rennur upp fyrir fólki að ástvinir þeirra, einhverra að minnsta kosti, hefðu farist með Þormóði.


Páll Hannesson (sonur Sigríðar og Hannesar Stephensen) fékk það verkefni að hlutast til um að ótíðindin bærust með settum hætti. Hann hringdi í sr. Jón og tók á móti honum. Hann hafði þá útvegað honum fylgdarmann, Ásmund Jónasson, hinn afa minn, sem öllum var kunnugur. Þennan dag fékk sr. Jón á honum  mikið traust eins og fleiri.

...
Meira
Fyrri síđa
1
234567202122Nćsta síđa
Síđa 1 af 22
Eldri fćrslur
« Mars »
S M Ţ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31