A A A
15.03.2018 - 09:45 |

Hljómsveitin Between Mountains kosin Bjartasta vonin

Stúlknahljómsveitin Between Mountains hlaut kosningu sem Bjartasta vonin 2018, en Íslensku tónlistarverðlaunin voru veitt í gær við hátíðlega athöfn í Hörpu.
Verðlaun Björtustu vonarinnar í poppi, rokki og blús voru veitt í samstarfi við Rás 2 sem tilnefndi fimm hljómsveitir og fór kosningin fram á vef Rásar 2. Aðrir tónlistarmenn sem tilnefndir voru til verðlaunanna voru Hatari, Birgir Steinn, Birnir og GDRN auk Between Mountains. 


Hljómsveitina Between Mountains skipa þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir, en þær eru báðar að vestan, frá Suðureyri og Þingeyri. Er þær tóku þátt í Músíktilraunum 2017 og sigruðu var ekki aftur snúið og er frægðarstarna þeirra sannarlega rísandi.  v

Spennandi verður að fylgjast með þeim í framtíðinni og óskar Þingeyrarvefurinn þessum kraftmiklu ungu konum til hamingju með kosninguna. 

14.03.2018 - 11:58 | Háskólasetur Vestfjarđa

Nýtt meistaranám viđ Háskólasetur Vestfjarđa

Ný námsleið á meistarastigi í sjávarbyggðafræðum hefur göngu sína við Háskólasetur Vestfjarða í lok ágúst 2018. Sjávarbyggðafræði er þverfræðilegt nám sem byggir á inntaki og aðferðum félagsfræði, hagfræði, landfræði og skipulagsfræði. Námið er fyrsta sérhæfða námsleiðin í byggðafræði sem boðið er upp á hér á landi og því má segja að um ákveðin tímamót sé að ræða hvað þessa fræðigrein varðar.

Frá árinu 2008 hefur Háskólasetur Vestfjarða starfrækt þverfræðilegt meistaranám í umhverfis- og auðlindastjórnun með áherslu á hafið og ströndina í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Reynslan af Haf- og strandsvæðastjórnunarnáminu hefur verið góð og hafa rúmlega 20 nemendur innritast í það árlega og yfir 100 nemendur útskrifast. Sjávarbyggðafræðin byggir á þessum góða grunni og verður fyrirkomulag námsins með svipuðu sniði. Báðar námsleiðirnar eru alþjóðlegar og kenndar á ensku en áhersla er lögð á að nýta sérstöðu Vestfjarða m.t.t. nálægðar við hafið og strandbyggðirnar. „Með nýju námsleiðinni má segja að Háskólasetrið standi í tvo sterkar fætur í stað eins“, segir Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða. 


Í ljósi þess að námið er fyrsta heila námsleiðin í byggðafræði sem boðið er upp á á Íslandi má segja að sjávarbyggðafræðin sé mikilvægur hluti af byggðastefnu landsins í akademískum skilningi og mun vega þungt við að koma byggðamálum betur á dagskrá sem viðfangsefni á háskólastigi eins og er tilfellið í flestum löndunum í kringum okkur. Þar að auki er námsleið í sjávarbyggðafræðum bein byggðaaðgerð fyrir Vestfirði enda er reiknað með að í kringum 20 nýir námsmenn bætist við árlega. 

 

Í hádeginu föstudaginn 16. mars næstkomandi fer fram kynning á Sjávarbyggðafræði í Vísindaporti Háskólaseturs og þar gefst öllum áhugasömum kostur á að fræðast betur um námsleiðina.

12.03.2018 - 09:53 |

Íbúaţing um helgina

« 1 af 4 »
Íbúaþing var haldið um helgina á Þingeyri og er það fyrsti liður í verkefni Byggðastofnunnar, Brothættar byggðir. Þingeyri er eitt þeirra byggðarlaga sem hefja verkefnið á árinu auk Borgarfjarðar eystri og Árneshrepps á Ströndum. Brothættar byggðir hóf göngu sína árið 2012 sem tilraunaverkefni á Raufarhöfn að frumkvæði Byggðastofnunar en þessi þrjú byggðarlög bætast nú í hóp þeirra sjö byggðarlaga sem fengið hafa inngöngu í verkefnið síðustu ár, en þau eru Bíldudalur, Breiðdalshreppur, Raufarhöfn, Skaftárhreppur, Grímsey, Hrísey og Öxarfjörður.

Um 60 manns sóttu þingið um helgina en unnið var eftir vinnukerfinu „opið rými“ (open space) þar sem þátttakendur leggja fram hugmyndirnar sem síðan eru ræddar saman í smærri hópum og að lokum fá þátttakendur tækifæri til að velja persónulegar áherslur innan þeirra hugmynda sem liggja fyrir. Sveigjanleg búseta og breyttar aðstæður með tilkomu Dýrafjarðarganga var meðal þess sem var rætt á fundinum en aldursdreifing á Þingeyri er afar ójöfn og ljóst er að skapa verður betri aðstæður fyrir ungt fólk á svæðinu. 

Hugmyndir fundarins verða teknar saman og hafðar að leiðarljósi í áframhaldandi vinnu. Verkefnið hefur fengið yfirskriftina Öll vötn til Dýrafjarðar.


09.03.2018 - 10:30 | ruv.is

Ung kona á Flateyri bloggar um bataferli eftir heilablćđingu

Katrín Björk Guðjónsdóttir er 24 ára Flateyringur sem eftir tvær heilablæðingar og blóðtappa lamaðist að fullu tímabundið og missti m.a. talfærni sína. Í sex vikur vissu aðstandendur Katrínar ekki hvort að blæðingin hefði haft áhrif á huga hennar. „Mér leið eins og ég væri lokuðu inni í kassa og ég gat bara hlustað á alla í kringum mig.“ 


Í tilefni af evrópska talþjálfunardeginum, 6. mars, greindi Katrín frá reynslu sinni og því frelsi sem talþjálfun hefur veitt henni en undanfarin ár hefur Katrín bloggað um bataferli sitt. Heimsókn talmeinafræðings breytti öllu en þá fyrst gat hún sagt ástvinum sínum að hún væri heil með aðstoð stafaspjalds. „Eftir stóru blæðinguna þá gat ég ekki gert neitt. Ég lá í öndunarvél og opnaði bara hægra augað,“ segir Katrín. „En hugsunin mín var heil.“

Fyrst í stað gat hún aðeins tjáð sig með augunum, en nú með vinstri hendi, getur Katrín stafað með spjaldinu.  Hvernig tilfinning var það? „Það var sú besta og mesta frelsisgjöf. Ég bara græt við tilfinninguna, það var svo gaman að segja öllum að hugsun mín hefði verið heil allan tímann.“

Hægt er að horfa á ítarlegra viðtal og umfjöllun í Kastljósi hér.

Fleiri fréttir

08.03.2018 - 17:40 | Ađsendar greinar - Arna Lára Jónsdóttir

Dýrafjörđur á tímamótum

Þingeyri hefur verið boðin þátttaka verkefninu Brothættar byggðir á vegum Byggðastofnunar að beiðni Ísafjarðarbæjar. Forsendur fyrir þátttöku í verkefninu er m.a. skökk aldursdreifing,  viðvarandi fólksfækkun og einhæft atvinnulíf.  Markmið Brothættra byggða er að fá fram skoðanir íbúanna á framtíðarmöguleikum byggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra. 

Árið 1998 bjuggu 371 íbúi á Þingeyri en árið 2017 voru íbúarnir orðnir 263.  Á tímabilinu hafa  dunið yfir nokkur áföll í fiskvinnslunni með tilheyrandi atvinnuóöryggi fyrir íbúa. Á sama tíma hefur opinber þjónusta sem og þjónusta einkaaðila dregist saman. Það var mat okkar í bæjarstjórninni að við yrðum að leita leiða til að bregðast við því ástandi sem upp er komið.


Tækifæri í augsýn

Þó að hagtölurnar á Þingeyri sýni dökka mynd, eins og staðan er í dag, þá er full ástæða til bjartsýni. Lykilatriðið er að styrkja íbúana og samfélagið og höfum við ýmis verkfæri til þess, þ.m.t. verkefni eins og Brothættar byggðir og Blábankann.

Árið 2020 opna Dýrafjarðargöng sem verður algjör bylting fyrir samfélög á Vestfjörðum og ekki síst fyrir Dýrafjörð sem verður miðja Vestfjarða. En hvernig ætlum við að nýta okkur þessa nýju stöðu? Ég er sannfærð um að göngunum muni fylgja mikil tækifæri fyrir Þingeyri til að ná vopnum sínum á nýjan leik, með aukinni ferðaþjónustu, menningu og stórefldri fiskeldisstarfsemi. Þess má líka geta að ljósleiðaratenging Dýrafjarðar, með Snerpu í fararbroddi, heldur áfram en þær framkvæmdir munu skipta samfélagið gríðarlega miklu máli.


Blábankinn – nýsköpun í þjónustu

Blábankinn er heiti á samfélagmiðstöð sem opnuð var á Þingeyri í september sl., en um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára í nýsköpun í opinberri þjónustu til að takast á við breytingar í smærri samfélögum.  Verkefnið er sprottið úr þeirri stöðu sem myndaðist á Þingeyri haustið 2015 þegar að Landsbanki Íslands lokaði útibúi sínu en önnur þjónusta í byggðarlaginu hafði einnig dregist saman samhliða því að íbúum hafði fækkað. Atvinnulífið á Þingeyri er frekar einhæft og mikil þörf fyrir að skapa ný atvinnutækifæri með breyttum tilverugrundvelli byggðarlagsins.


Fjölbreytt starfsemi

Markmið Blábankans er að skapa vettvang  þar sem hægt er að veita fjölbreytta þjónustu með litlum tilkostnaði. Blábankanum er ætlaður að vera samverustaður og fastur punktur í tilveru íbúa Dýrafjarðar. Þar er vettvangur fyrir ríkisstofnanir, einkaaðilar og sveitarfélagið  til að leggjast saman á árarnar til dæmis með því að þróa nýtingu nútíma tækni til að efla þjónustu í nærsamfélagi. Það er eitt af markmiðum Blábankans að stuðla að samheldni meðal íbúa og skapa rými þar sem fólk getur komið saman, rætt og þróað nýjar hugmyndir.

Í Blábankanum hefur verið komið upp vinnuaðstöðu fyrir frumkvöðla, fyrirtæki og aðra sem þurfa skrifstofuaðstöðu til lengri eða skemmri tíma auk þess sem hægt er að leigja fundaraðstöðu.

Í Blábankanum má nálgast þjónustu Ísafjarðarbæjar, Landsbankans, Verk Vest og bókasafns og þar eru reglulega haldnir viðburðir og námskeið.


Öflugt samstarf

Blábankinn er fyrirmyndar dæmi um hvernig hið opinbera og einkaaðilar geta unnið saman að sameiginlegum hagsmunum.  Bakhjarlar Blábankans eru Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Landsbanki Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ísafjarðarbær, Simbahöllin, Vestinvest, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Snerpa, Arctic fish, Pricewaterhouse Coopers og Pálmar Kristmundsson.


Góð byrjun

Blábankinn hefur farið mjög vel af stað og er ástæða til bjartsýni hvað varðar áframhaldandi þróun starfseminnar. Vel tókst vel með ráðningu tveggja starfsmanna en Arnar Sigurðsson og Arnhildur Lilý Karlsdóttir tóku til starfa í fyrra sumar og segja má þau hafi þegar sett mark sitt á starfsemina.  Á fyrstu  mánuðunum hafa verið haldnir fjölda margir viðburðir s.s. fundir, námskeið og kynningar í Blábankanum eða á hans vegum.

27 einstaklingar hafa nýtt sér vinnuaðstöðu í Blábankanum til lengri eða skemmri tíma, og verða a.m.k. tvö nýsköpunarverkefni með starfsstöð að hluta á næstu mánuðum í Blábankanum.


Blábankahraðallinn

Eitt af þeim spennandi verkefnum sem eru í gangi í Blábankanum er Blábankahraðallinn sem er vettvangur fyrir sprotafyrirtæki, frumkvöðla, listafólk og skapandi einstaklinga sem eru með hugmynd eða verkefni sem þeir vilja vinna og þróa frekar. Þetta er boð um að koma og dveljast á Þingeyri í allt að þrjár vikur í maí og fá tækifæri til að vinna að eigin hugmynd í skapandi umhverfi með aðstoð sérfræðinga eftir atvikum. Alls sóttu 14 verkefni um að fá taka þátt í Blábankahraðlinum sem verður að teljast góður árangur.

Íbúaþing framundan

Helgina 10. – 11. mars er íbúum á Þingeyri, og öðrum sem hafa tengsl við staðinn, boðið til íbúaþings í félagsheimilinu undir merkjum Brothættra byggða. Það eru Byggðastofnun, Ísafjarðarbær, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Vestfjarðastofa og síðast en ekki síst íbúar sem bjóða til þingsins en fulltrúar þessara aðila skipa verkefnisstjórn. Þær hugmyndir og ábendingar sem koma fram á íbúaþinginu ásamt stöðugreiningu verða efniviður fyrir verkefnisáætlun með framtíðarsýn og markmiðum fyrir byggðaþróunarverkefni á Þingeyri, sem staðið getur í allt að fjögur ár.  Raddir íbúa og frumkvæði skipta miklu máli í þeirri vinnu sem nú er framundan.  

Blábankinn, Brothættar byggðir og bættar samgöngur munu verða vegvísir til bjartari tíma í Dýrafirði. Þetta eru þau verkfæri sem við getum notað til að ýta undir fjölbreytni starfa og fleiri tækifæri.

Sjáumst í félagsheimilinu á Þingeyri laugardaginn 10.mars kl. 11.

 

Arna Lára Jónsdóttir

Formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og oddviti Í-lista

Fleiri greinar


« Mars »
S M Ţ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31