A A A
  • 1970 - Elsa María Thompson
  • 2007 - Lára Björg Björgvinsdóttir
23.03.2018 - 11:36 |

Aldrei fór ég norđur

Páskadagskrá á Þingeyri er nú komin út en þar ber að líta viðburði sem og opnunartíma þjónustuaðila yfir páskahátíðina sem nú gengur brátt í garð. Dagskráin ber að þessu sinni heitið Aldrei fór ég norður og er vísun í hina geysivinsælu hátíð Ísafjarðar, Aldrei fór ég suður sem í ár er haldin í 14. sinn. Í ár verður ýmislegt skemmtilegt í boði fyrir heimamenn jafnt sem aðkomufólk á Þingeyri.

Meðal þess sem í boði verður eru leiksýningar leikdeildar Höfrungs á verki Astridar Lindgren, Ronju ræningjadóttur. Í sundlauginni verða í boði tímar í jóga í vatni og leiddri slökun í vatni með flothettum ásamt því að trúbador mætir á svæðið og syngur fyrir sundlaugargesti. Þingeyrarprestakall býður til lengri eða styttri gangna á föstudaginn langa, helgigöngu og píslagöngu. Á Gíslastöðum verður hægt að sjá Gísla á uppsölum en þar verður einnig hægt að taka átt í sögugöngu um slóðir Gísla sögu Súrssonar. Íþróttafélagið Höfrungur býður að vanda til páskaeggjaleitar á laugardag ásamt öðrum íþróttaviðburðum og margt annað skemmtilegt verður á döfinni. Fyrir frekari upplýsingar um tíma, staðsetningar og verð má sjá mynd sem fylgir frétt. 

21.03.2018 - 10:08 |

Ronja rćningjadóttir á Ţingeyri

Um þessar mundir standa yfir stífar æfingar hjá leikdeild Höfrungs á Þingeyri en verið er að leggja lokahönd á eitt vinsælasta barnaleikrit allra tíma, Ronju ræningjadóttur eftir Astrid Lindgren. Leikstjórn annast Elfar Logi Hannesson líkt og fyrri ár. 

Síðustu ár hefur verið starfandi blómlegt leiklistarlíf hér á Þingeyri en árið 2009 er stofnuð sérstök leikdeild innan íþróttafélagsins Höfrungs. Fyrsta uppfærslan var á frumsömdum leik Dragedukken. Var þar á ferðinni leikur byggður á sögu Þingeyrar er fjallaði um kaupmanninn Andreas M. Steinbach sem á síðkvöldum dundaði sér við að semja tónlist við norska leikverkið Dragedukken. Leikurinn sló í gegn og næstu tvö árin voru frumfluttir tveir sögulegir dýrfirskir leikir, Eikin ættar minnar, 2010, og Höfrungur á leiksviði, 2011. Þá var tekin stutt kúnstpása en leikurinn svo hafinn að nýju með brumandi krafti með uppsetningu á Línu Langsokk, 2014, sem sló öll met. Síðustu tvö ár hafa verið sett á svið leikverk eftir annað vinsælt barnaleikritaskáld, Thorbjörn Egner, Kardemommubæinn og Dýrin í Hálsaskógi. Í ár liggur leiðin aftur til Lindgrenheima, nánar tiltekið í Matthíasarskóg hvar Ronja ræningjadóttir býr. 

Að vanda er leikritið sýnt um páska og eru sýningarnar vel sóttar af bæði heimamönnum sem og aðkomufólki sem sækir tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður á Ísafirði. Leikararnir sem fara með hlutverk hinna ungu vina Ronju og Birkis eru efnileg þó ung séu að árum, en Katrín Júlía Helgadóttir er 8 ára og Ástvaldur Mateusz Kristjánsson er 11 ára. Frumsýnt verður laugardaginn 24. mars í Félagsheimilinu á Þingeyri. Miðaverð er 3.000 kr og miðasölusími: 863-1015.

Sýningartímar eftirfarandi: 

 

Frumsýning laugardaginn 24. mars kl: 13.00.
2. sýning sunnudaginn 25. mars kl: 13.00
3. sýning fimmtudaginn 29. mars kl:13.00
4. sýning fimmtudaginn 29. mars kl:16.00
5. sýning föstudaginn 30.mars kl: 13.00
6. sýning föstudaginn 30. mars kl:16.00

19.03.2018 - 15:53 |

Ţingeyrarprestakall býđur til göngu á föstudaginn langa

Þingeyrarprestakall býður til gönguveislu á föstudaginn langa en um er að ræða annars vegar stutta helgigöngu milli Mýrakirkju og Núpskirkju í Dýrafirði en hins vegar 26 km langa píslagöngu frá Núpi að Þingeyri.

Helgigangan hefst kl. 10:45 með stuttri bænagjörð í Mýrakirkju, en gangan sjálf hefst kl 11:00. Gengið verður frá Mýrakirkju að Núpskirkju og er gönguleiðin um 6 km. og tekur u.þ.b. 1 klst. Gönguleiðin er einstaklega falleg og göngunni lokinni er þátttakendum boðið upp á léttan hádegisverð í Núpsskóla.

Píslagangan fer frá Núpskirkju til Þingeyrar og er gangan líkt og áður sagði um 26 km. Göngustjóri er Ólafur Kristján Skúlason og er áætlaður göngutími er 6 klst. Boðið verður upp á hressingu að göngu lokinni sem og akstur að Núpi til að sækja bíla þátttakenda. Nauðsynlegt er að skrá sig í píslagönguna fyrir kl. 18:00 þann 27. mars. Skráning og frekari upplýsingar eru í síma 869-4993 eða netfangið hildurir@simnet.is.
15.03.2018 - 09:45 |

Hljómsveitin Between Mountains kosin Bjartasta vonin

Stúlknahljómsveitin Between Mountains hlaut kosningu sem Bjartasta vonin 2018, en Íslensku tónlistarverðlaunin voru veitt í gær við hátíðlega athöfn í Hörpu.
Verðlaun Björtustu vonarinnar í poppi, rokki og blús voru veitt í samstarfi við Rás 2 sem tilnefndi fimm hljómsveitir og fór kosningin fram á vef Rásar 2. Aðrir tónlistarmenn sem tilnefndir voru til verðlaunanna voru Hatari, Birgir Steinn, Birnir og GDRN auk Between Mountains. 


Hljómsveitina Between Mountains skipa þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir, en þær eru báðar að vestan, frá Suðureyri og Þingeyri. Er þær tóku þátt í Músíktilraunum 2017 og sigruðu var ekki aftur snúið og er frægðarstarna þeirra sannarlega rísandi.  v

Spennandi verður að fylgjast með þeim í framtíðinni og óskar Þingeyrarvefurinn þessum kraftmiklu ungu konum til hamingju með kosninguna. 

Fleiri fréttir

08.03.2018 - 17:40 | Ađsendar greinar - Arna Lára Jónsdóttir

Dýrafjörđur á tímamótum

Þingeyri hefur verið boðin þátttaka verkefninu Brothættar byggðir á vegum Byggðastofnunar að beiðni Ísafjarðarbæjar. Forsendur fyrir þátttöku í verkefninu er m.a. skökk aldursdreifing,  viðvarandi fólksfækkun og einhæft atvinnulíf.  Markmið Brothættra byggða er að fá fram skoðanir íbúanna á framtíðarmöguleikum byggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra. 

Árið 1998 bjuggu 371 íbúi á Þingeyri en árið 2017 voru íbúarnir orðnir 263.  Á tímabilinu hafa  dunið yfir nokkur áföll í fiskvinnslunni með tilheyrandi atvinnuóöryggi fyrir íbúa. Á sama tíma hefur opinber þjónusta sem og þjónusta einkaaðila dregist saman. Það var mat okkar í bæjarstjórninni að við yrðum að leita leiða til að bregðast við því ástandi sem upp er komið.


Tækifæri í augsýn

Þó að hagtölurnar á Þingeyri sýni dökka mynd, eins og staðan er í dag, þá er full ástæða til bjartsýni. Lykilatriðið er að styrkja íbúana og samfélagið og höfum við ýmis verkfæri til þess, þ.m.t. verkefni eins og Brothættar byggðir og Blábankann.

Árið 2020 opna Dýrafjarðargöng sem verður algjör bylting fyrir samfélög á Vestfjörðum og ekki síst fyrir Dýrafjörð sem verður miðja Vestfjarða. En hvernig ætlum við að nýta okkur þessa nýju stöðu? Ég er sannfærð um að göngunum muni fylgja mikil tækifæri fyrir Þingeyri til að ná vopnum sínum á nýjan leik, með aukinni ferðaþjónustu, menningu og stórefldri fiskeldisstarfsemi. Þess má líka geta að ljósleiðaratenging Dýrafjarðar, með Snerpu í fararbroddi, heldur áfram en þær framkvæmdir munu skipta samfélagið gríðarlega miklu máli.


Blábankinn – nýsköpun í þjónustu

Blábankinn er heiti á samfélagmiðstöð sem opnuð var á Þingeyri í september sl., en um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára í nýsköpun í opinberri þjónustu til að takast á við breytingar í smærri samfélögum.  Verkefnið er sprottið úr þeirri stöðu sem myndaðist á Þingeyri haustið 2015 þegar að Landsbanki Íslands lokaði útibúi sínu en önnur þjónusta í byggðarlaginu hafði einnig dregist saman samhliða því að íbúum hafði fækkað. Atvinnulífið á Þingeyri er frekar einhæft og mikil þörf fyrir að skapa ný atvinnutækifæri með breyttum tilverugrundvelli byggðarlagsins.


Fjölbreytt starfsemi

Markmið Blábankans er að skapa vettvang  þar sem hægt er að veita fjölbreytta þjónustu með litlum tilkostnaði. Blábankanum er ætlaður að vera samverustaður og fastur punktur í tilveru íbúa Dýrafjarðar. Þar er vettvangur fyrir ríkisstofnanir, einkaaðilar og sveitarfélagið  til að leggjast saman á árarnar til dæmis með því að þróa nýtingu nútíma tækni til að efla þjónustu í nærsamfélagi. Það er eitt af markmiðum Blábankans að stuðla að samheldni meðal íbúa og skapa rými þar sem fólk getur komið saman, rætt og þróað nýjar hugmyndir.

Í Blábankanum hefur verið komið upp vinnuaðstöðu fyrir frumkvöðla, fyrirtæki og aðra sem þurfa skrifstofuaðstöðu til lengri eða skemmri tíma auk þess sem hægt er að leigja fundaraðstöðu.

Í Blábankanum má nálgast þjónustu Ísafjarðarbæjar, Landsbankans, Verk Vest og bókasafns og þar eru reglulega haldnir viðburðir og námskeið.


Öflugt samstarf

Blábankinn er fyrirmyndar dæmi um hvernig hið opinbera og einkaaðilar geta unnið saman að sameiginlegum hagsmunum.  Bakhjarlar Blábankans eru Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Landsbanki Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ísafjarðarbær, Simbahöllin, Vestinvest, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Snerpa, Arctic fish, Pricewaterhouse Coopers og Pálmar Kristmundsson.


Góð byrjun

Blábankinn hefur farið mjög vel af stað og er ástæða til bjartsýni hvað varðar áframhaldandi þróun starfseminnar. Vel tókst vel með ráðningu tveggja starfsmanna en Arnar Sigurðsson og Arnhildur Lilý Karlsdóttir tóku til starfa í fyrra sumar og segja má þau hafi þegar sett mark sitt á starfsemina.  Á fyrstu  mánuðunum hafa verið haldnir fjölda margir viðburðir s.s. fundir, námskeið og kynningar í Blábankanum eða á hans vegum.

27 einstaklingar hafa nýtt sér vinnuaðstöðu í Blábankanum til lengri eða skemmri tíma, og verða a.m.k. tvö nýsköpunarverkefni með starfsstöð að hluta á næstu mánuðum í Blábankanum.


Blábankahraðallinn

Eitt af þeim spennandi verkefnum sem eru í gangi í Blábankanum er Blábankahraðallinn sem er vettvangur fyrir sprotafyrirtæki, frumkvöðla, listafólk og skapandi einstaklinga sem eru með hugmynd eða verkefni sem þeir vilja vinna og þróa frekar. Þetta er boð um að koma og dveljast á Þingeyri í allt að þrjár vikur í maí og fá tækifæri til að vinna að eigin hugmynd í skapandi umhverfi með aðstoð sérfræðinga eftir atvikum. Alls sóttu 14 verkefni um að fá taka þátt í Blábankahraðlinum sem verður að teljast góður árangur.

Íbúaþing framundan

Helgina 10. – 11. mars er íbúum á Þingeyri, og öðrum sem hafa tengsl við staðinn, boðið til íbúaþings í félagsheimilinu undir merkjum Brothættra byggða. Það eru Byggðastofnun, Ísafjarðarbær, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Vestfjarðastofa og síðast en ekki síst íbúar sem bjóða til þingsins en fulltrúar þessara aðila skipa verkefnisstjórn. Þær hugmyndir og ábendingar sem koma fram á íbúaþinginu ásamt stöðugreiningu verða efniviður fyrir verkefnisáætlun með framtíðarsýn og markmiðum fyrir byggðaþróunarverkefni á Þingeyri, sem staðið getur í allt að fjögur ár.  Raddir íbúa og frumkvæði skipta miklu máli í þeirri vinnu sem nú er framundan.  

Blábankinn, Brothættar byggðir og bættar samgöngur munu verða vegvísir til bjartari tíma í Dýrafirði. Þetta eru þau verkfæri sem við getum notað til að ýta undir fjölbreytni starfa og fleiri tækifæri.

Sjáumst í félagsheimilinu á Þingeyri laugardaginn 10.mars kl. 11.

 

Arna Lára Jónsdóttir

Formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og oddviti Í-lista

Fleiri greinar


« Mars »
S M Ţ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31