LISTAMANNASPJALL Í HÖMRUM
Gestavinnustofur ArtsIceland á Ísafirði bjóða til listamannaspjalls í Hömrum í kvöld, 16. ágúst 2017.
Í sumar hafa fjölmargir listamenn dvalið í vinnustofunum sem starfræktar eru á tveimur stöðum í bænum, við Aðalstrætið og á Engi og er óhætt að segja að þeir hafi sett svip sinn á bæinn og mannlífið. Áður en gestir vinnustofanna halda aftur til síns heima eða til móts við frekari ævintýri annarsstaðar bjóða þeir gestum að njóta afraksturs vinnu sinnar á Ísafirði með uppákomu sem þessari.
Það er fjölbreyttur og hæfileikum hlaðinn hópurinn sem kemur fram að þessu sinni. Tónlistarhjónin Ásdís Valdimarsdóttir og Michael Stirling laða fram tóna á strengi sína. Rithöfundurinn, sagnfræðingurinn og skáldið Þórunn Jarla Erlu- og Valdimarsdóttir les upp úr óútkomnum verkum og hollenski tónlistarmaðurinn Lucas Kloosterboer flytur nokkur verka sinna.
Spjallið fer fram á íslensku og ensku. Í lokin verður hægt að spyrja listamennina út í verk þeirra.
Ókeypis er á viðburðinn sem hefst klukkan 20 og er hann öllum opinn.
Meira