A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
15.08.2017 - 19:52 | visir.is,Vestfirska forlagið,Stöð 2,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason

Dynjandisheiði verður betri heilsársvegur en Steingrímsfjarðarheiði

Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði. Ljósm.: STÖÐ 2/EGILL AÐALSTEINSSON.
Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði. Ljósm.: STÖÐ 2/EGILL AÐALSTEINSSON.
« 1 af 2 »

Nýr vegur yfir Dynjandisheiði verður betri en leiðin um Steingrímsfjarðarheiði. Vestfirðingar leggja áherslu á að Dynjandisheiðin fylgi Dýrafjarðargöngum. Fjallað var verkefnið í frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Vegagerðin hefur kynnt drög að matsáætlun vegna nýs vegar yfir heiðina milli Flókalundar og Mjólkárvirkjunar en einnig til Bíldudals.  Vegalengdin er alls um 70 kílómetrar en Dynjandisheiðin er einn lengsti samfelldi ómalbikaði kaflinn sem eftir er á aðalþjóðvegakerfi landsins. Helsta breyting á vegstæði verður við Dynjandisvog. 

 

„Þar verður talsverð breyting á veglínu til þess að fullnægja hönnunarskilyrðum um langhalla vegar þar upp. En að stórum hluta fylgir vegurinn mikið til gamla veginum sem var lagður og opnaður 1959,” segir  Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði. 

Í Vatnsfirði er áformað að færa veginn suður yfir ána Pennu og fjær Flókalundi en þar eru hættuleg gatnamót. 

„Nú er þetta náttúrlega friðland í Vatnsfirði alveg upp á fjallabrúnir þannig að þetta verður dálítið viðkvæmt. Þar er óhjákvæmilegt að þurfi að fara í gegnum kjarrlendi til að rýma fyrir nýjum vegi. 

En á móti kemur að það er auðvelt að plægja upp gamla veginn og planta í hann í staðinn, - skila honum til baka sem skógi. 

Og sama er auðvitað við Dynjanda, sem er friðlýst náttúruvætti. Það er auðvitað viðkvæm öll vegarlagning þar,” segir Guðmundur.

 


Efst á heiðinni verður vegurinn fluttur yfir í snjóléttari holt, beygjur rúnaðar af og dregið úr halla vegarins svo hann fari hvergi yfir sjö prósent. Yfirverkstjórinn telur að þannig fáist góður heilsársvegur yfir Dynjandisheiði. 

„Þar er vorkoman svona kannski mánuði fyrr heldur en á Steingrímsfjarðarheiði. Þannig að ég hef fulla trú á því, með nútíma vegarlagningu, góðum fláum, háum vegi og góðum skeringum, þá sé ekkert mál að hafa þjónustuhæfan veg þarna yfir heiðina,” segir Guðmundur. 

Framkvæmdir eru hafnar við Dýrafjarðargöng en þau eru til lítils gagns nema leiðin sé fær yfir Dynjandisheiði. 

„Það hefur alltaf verið talað um að það sé gert samhliða jarðgöngunum þannig að þegar jarðgöngin verða tilbúin þá verði vegurinn svona að mestu leyti kominn,” segir Steinar Jónasson, stöðvarstjóri Mjólkárvirkjunar.

En fyrst þarf Dynjandisheiði að fá grænt ljós í mats- og skipulagsferli. 

„Þetta er langt ferli. En ef vel tekst til þá á það að geta unnist á kannski 2-3 árum og menn sjái það fyrir sér að um líkt leyti, kannski 2020, þegar við förum að opna Dýrafjarðargöng, þá verði þessi vinna komin í gang. Það er í raun ekkert sem ætti að aftra því í sjálfu sér,” segir Guðmundur, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31