A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
Blóðbankinn á Íslandi verður 65 ára í ár, en hlutverk hans er að veita örugga blóðbankaþjónustu á landsvísu. Staðbundin blóðsöfnunarátök eru fjarri því að verið eina leið Blóðbankans til að ýta undir blóðgjafir og auka birgðir sínar. Sem hluta af þessari stefnu hefur Blóðbankinn um árabil í samvinnu við Rauða kross Íslands haldið úti Blóðbankabíl. Fyrsti bíllinn var keyptur fyrir tilstilli gjafafés árið 1965 en þá var hlutverk hans að mestu að flytja á milli búnað, frekar en að bíllinn sjálfur væri ætlaður til að taka á móti blóðgjöfum. Bílarnir hafa gengið úr sér og aðrir bílar tekið við en núverandi bíll er frá árinu 2002 og var gjöf frá Rauða kross Íslands.
Bíllinn er sá fullkomnasti hingað til, sannkallaður Blóðbanki á hjólum. Hann er í grunninn sérútbúin Scania langferðabiðfreið, þrettán og hálfur metri að lengd og búinn öllum nauðsynlegum tækjum til blóðtöku. Í bílnum eru samtals fjórir bekkir fyrir blóðgjafa og mögulegt að taka á móti fimmtíu til hundrað blóðgjöfum á dag og jafnvel fleiri í neyðartilvikum. Í bílnum er dálítil kaffiaðstaða fyrir blóðgjafa en hann er auk þess nettengdur og þannig beintengdur tölvukerfi Blóðbankans. Blóðbankabíllinn fékk síðast heilmikla andlitslyftingu sumarið 2013 og skipar stóran sess í reglubundinni starfsemi Blóðbankans.

Blóðgjöf er lífgjöf.
Blóðsöfnun á vegum Blóðbankans verður á Sjúkrahúsinu á Ísafirði 2. hæð. 
Opið verður fyrir blóðgjafir þriðjudaginn 3. apríl frá kl 12:00-18:00 og miðvikudaginn 4. apríl frá kl 08:30-14:00.
Frekari upplýsingar um Blóðbankann má nálgast hér

 

 

23.03.2018 - 11:36 |

Aldrei fór ég norður

« 1 af 3 »
Páskadagskrá á Þingeyri er nú komin út en þar ber að líta viðburði sem og opnunartíma þjónustuaðila yfir páskahátíðina sem nú gengur brátt í garð. Dagskráin ber að þessu sinni heitið Aldrei fór ég norður og er vísun í hina geysivinsælu hátíð Ísafjarðar, Aldrei fór ég suður sem í ár er haldin í 14. sinn. Í ár verður ýmislegt skemmtilegt í boði fyrir heimamenn jafnt sem aðkomufólk á Þingeyri.

Meðal þess sem í boði verður eru leiksýningar leikdeildar Höfrungs á verki Astridar Lindgren, Ronju ræningjadóttur. Í sundlauginni verða í boði tímar í jóga í vatni og leiddri slökun í vatni með flothettum ásamt því að trúbador mætir á svæðið og syngur fyrir sundlaugargesti. Þingeyrarprestakall býður til lengri eða styttri gangna á föstudaginn langa, helgigöngu og píslagöngu. Á Gíslastöðum verður hægt að sjá Gísla á uppsölum en þar verður einnig hægt að taka átt í sögugöngu um slóðir Gísla sögu Súrssonar. Íþróttafélagið Höfrungur býður að vanda til páskaeggjaleitar á laugardag ásamt öðrum íþróttaviðburðum og margt annað skemmtilegt verður á döfinni. Fyrir frekari upplýsingar um tíma, staðsetningar og verð má sjá mynd sem fylgir frétt. 

Um þessar mundir standa yfir stífar æfingar hjá leikdeild Höfrungs á Þingeyri en verið er að leggja lokahönd á eitt vinsælasta barnaleikrit allra tíma, Ronju ræningjadóttur eftir Astrid Lindgren. Leikstjórn annast Elfar Logi Hannesson líkt og fyrri ár. 

Síðustu ár hefur verið starfandi blómlegt leiklistarlíf hér á Þingeyri en árið 2009 er stofnuð sérstök leikdeild innan íþróttafélagsins Höfrungs. Fyrsta uppfærslan var á frumsömdum leik Dragedukken. Var þar á ferðinni leikur byggður á sögu Þingeyrar er fjallaði um kaupmanninn Andreas M. Steinbach sem á síðkvöldum dundaði sér við að semja tónlist við norska leikverkið Dragedukken. Leikurinn sló í gegn og næstu tvö árin voru frumfluttir tveir sögulegir dýrfirskir leikir, Eikin ættar minnar, 2010, og Höfrungur á leiksviði, 2011. Þá var tekin stutt kúnstpása en leikurinn svo hafinn að nýju með brumandi krafti með uppsetningu á Línu Langsokk, 2014, sem sló öll met. Síðustu tvö ár hafa verið sett á svið leikverk eftir annað vinsælt barnaleikritaskáld, Thorbjörn Egner, Kardemommubæinn og Dýrin í Hálsaskógi. Í ár liggur leiðin aftur til Lindgrenheima, nánar tiltekið í Matthíasarskóg hvar Ronja ræningjadóttir býr. 

Að vanda er leikritið sýnt um páska og eru sýningarnar vel sóttar af bæði heimamönnum sem og aðkomufólki sem sækir tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður á Ísafirði. Leikararnir sem fara með hlutverk hinna ungu vina Ronju og Birkis eru efnileg þó ung séu að árum, en Katrín Júlía Helgadóttir er 8 ára og Ástvaldur Mateusz Kristjánsson er 11 ára. Frumsýnt verður laugardaginn 24. mars í Félagsheimilinu á Þingeyri. Miðaverð er 3.000 kr og miðasölusími: 863-1015.

Sýningartímar eftirfarandi: 

 

Frumsýning laugardaginn 24. mars kl: 13.00.
2. sýning sunnudaginn 25. mars kl: 13.00
3. sýning fimmtudaginn 29. mars kl:13.00
4. sýning fimmtudaginn 29. mars kl:16.00
5. sýning föstudaginn 30.mars kl: 13.00
6. sýning föstudaginn 30. mars kl:16.00

Þingeyrarprestakall býður til gönguveislu á föstudaginn langa en um er að ræða annars vegar stutta helgigöngu milli Mýrakirkju og Núpskirkju í Dýrafirði en hins vegar 26 km langa píslagöngu frá Núpi að Þingeyri.

Helgigangan hefst kl. 10:45 með stuttri bænagjörð í Mýrakirkju, en gangan sjálf hefst kl 11:00. Gengið verður frá Mýrakirkju að Núpskirkju og er gönguleiðin um 6 km. og tekur u.þ.b. 1 klst. Gönguleiðin er einstaklega falleg og göngunni lokinni er þátttakendum boðið upp á léttan hádegisverð í Núpsskóla.

Píslagangan fer frá Núpskirkju til Þingeyrar og er gangan líkt og áður sagði um 26 km. Göngustjóri er Ólafur Kristján Skúlason og er áætlaður göngutími er 6 klst. Boðið verður upp á hressingu að göngu lokinni sem og akstur að Núpi til að sækja bíla þátttakenda. Nauðsynlegt er að skrá sig í píslagönguna fyrir kl. 18:00 þann 27. mars. Skráning og frekari upplýsingar eru í síma 869-4993 eða netfangið hildurir@simnet.is.
Stúlknahljómsveitin Between Mountains hlaut kosningu sem Bjartasta vonin 2018, en Íslensku tónlistarverðlaunin voru veitt í gær við hátíðlega athöfn í Hörpu.
Verðlaun Björtustu vonarinnar í poppi, rokki og blús voru veitt í samstarfi við Rás 2 sem tilnefndi fimm hljómsveitir og fór kosningin fram á vef Rásar 2. Aðrir tónlistarmenn sem tilnefndir voru til verðlaunanna voru Hatari, Birgir Steinn, Birnir og GDRN auk Between Mountains. 


Hljómsveitina Between Mountains skipa þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir, en þær eru báðar að vestan, frá Suðureyri og Þingeyri. Er þær tóku þátt í Músíktilraunum 2017 og sigruðu var ekki aftur snúið og er frægðarstarna þeirra sannarlega rísandi.  v

Spennandi verður að fylgjast með þeim í framtíðinni og óskar Þingeyrarvefurinn þessum kraftmiklu ungu konum til hamingju með kosninguna. 

14.03.2018 - 11:58 | Háskólasetur Vestfjarða

Nýtt meistaranám við Háskólasetur Vestfjarða

Ný námsleið á meistarastigi í sjávarbyggðafræðum hefur göngu sína við Háskólasetur Vestfjarða í lok ágúst 2018. Sjávarbyggðafræði er þverfræðilegt nám sem byggir á inntaki og aðferðum félagsfræði, hagfræði, landfræði og skipulagsfræði. Námið er fyrsta sérhæfða námsleiðin í byggðafræði sem boðið er upp á hér á landi og því má segja að um ákveðin tímamót sé að ræða hvað þessa fræðigrein varðar.

Frá árinu 2008 hefur Háskólasetur Vestfjarða starfrækt þverfræðilegt meistaranám í umhverfis- og auðlindastjórnun með áherslu á hafið og ströndina í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Reynslan af Haf- og strandsvæðastjórnunarnáminu hefur verið góð og hafa rúmlega 20 nemendur innritast í það árlega og yfir 100 nemendur útskrifast. Sjávarbyggðafræðin byggir á þessum góða grunni og verður fyrirkomulag námsins með svipuðu sniði. Báðar námsleiðirnar eru alþjóðlegar og kenndar á ensku en áhersla er lögð á að nýta sérstöðu Vestfjarða m.t.t. nálægðar við hafið og strandbyggðirnar. „Með nýju námsleiðinni má segja að Háskólasetrið standi í tvo sterkar fætur í stað eins“, segir Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða. 


Í ljósi þess að námið er fyrsta heila námsleiðin í byggðafræði sem boðið er upp á á Íslandi má segja að sjávarbyggðafræðin sé mikilvægur hluti af byggðastefnu landsins í akademískum skilningi og mun vega þungt við að koma byggðamálum betur á dagskrá sem viðfangsefni á háskólastigi eins og er tilfellið í flestum löndunum í kringum okkur. Þar að auki er námsleið í sjávarbyggðafræðum bein byggðaaðgerð fyrir Vestfirði enda er reiknað með að í kringum 20 nýir námsmenn bætist við árlega. 

 

Í hádeginu föstudaginn 16. mars næstkomandi fer fram kynning á Sjávarbyggðafræði í Vísindaporti Háskólaseturs og þar gefst öllum áhugasömum kostur á að fræðast betur um námsleiðina.

12.03.2018 - 09:53 |

Íbúaþing um helgina

« 1 af 4 »
Íbúaþing var haldið um helgina á Þingeyri og er það fyrsti liður í verkefni Byggðastofnunnar, Brothættar byggðir. Þingeyri er eitt þeirra byggðarlaga sem hefja verkefnið á árinu auk Borgarfjarðar eystri og Árneshrepps á Ströndum. Brothættar byggðir hóf göngu sína árið 2012 sem tilraunaverkefni á Raufarhöfn að frumkvæði Byggðastofnunar en þessi þrjú byggðarlög bætast nú í hóp þeirra sjö byggðarlaga sem fengið hafa inngöngu í verkefnið síðustu ár, en þau eru Bíldudalur, Breiðdalshreppur, Raufarhöfn, Skaftárhreppur, Grímsey, Hrísey og Öxarfjörður.

Um 60 manns sóttu þingið um helgina en unnið var eftir vinnukerfinu „opið rými“ (open space) þar sem þátttakendur leggja fram hugmyndirnar sem síðan eru ræddar saman í smærri hópum og að lokum fá þátttakendur tækifæri til að velja persónulegar áherslur innan þeirra hugmynda sem liggja fyrir. Sveigjanleg búseta og breyttar aðstæður með tilkomu Dýrafjarðarganga var meðal þess sem var rætt á fundinum en aldursdreifing á Þingeyri er afar ójöfn og ljóst er að skapa verður betri aðstæður fyrir ungt fólk á svæðinu. 

Hugmyndir fundarins verða teknar saman og hafðar að leiðarljósi í áframhaldandi vinnu. Verkefnið hefur fengið yfirskriftina Öll vötn til Dýrafjarðar.


Katrín Björk Guðjónsdóttir er 24 ára Flateyringur sem eftir tvær heilablæðingar og blóðtappa lamaðist að fullu tímabundið og missti m.a. talfærni sína. Í sex vikur vissu aðstandendur Katrínar ekki hvort að blæðingin hefði haft áhrif á huga hennar. „Mér leið eins og ég væri lokuðu inni í kassa og ég gat bara hlustað á alla í kringum mig.“ 


Í tilefni af evrópska talþjálfunardeginum, 6. mars, greindi Katrín frá reynslu sinni og því frelsi sem talþjálfun hefur veitt henni en undanfarin ár hefur Katrín bloggað um bataferli sitt. Heimsókn talmeinafræðings breytti öllu en þá fyrst gat hún sagt ástvinum sínum að hún væri heil með aðstoð stafaspjalds. „Eftir stóru blæðinguna þá gat ég ekki gert neitt. Ég lá í öndunarvél og opnaði bara hægra augað,“ segir Katrín. „En hugsunin mín var heil.“

Fyrst í stað gat hún aðeins tjáð sig með augunum, en nú með vinstri hendi, getur Katrín stafað með spjaldinu.  Hvernig tilfinning var það? „Það var sú besta og mesta frelsisgjöf. Ég bara græt við tilfinninguna, það var svo gaman að segja öllum að hugsun mín hefði verið heil allan tímann.“

Hægt er að horfa á ítarlegra viðtal og umfjöllun í Kastljósi hér.

Eldri færslur
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31