21.02.2018 - 10:31 | Trausti Jónsson
Vindaspá kl. 11:00 miðvikudaginn 21. febrúar. Frá Veðurstofu Íslands
Gervihnattamynd frá Veðurstofu Íslands
Ekki fer á milli mála að afar kröpp og djúp lægð gengur nú yfir landið með suðaustanstormi eða -roki víða á landinu og jafnvel ofsaveðri vestan til nú fram eftir morgni og er líður að hádegi. Yfir landið allt hafa verið gefnar út gular stormviðvaranir í flokki tvö og þrjú á miðhálendi og á austanverðu landinu, en appelsínugul stormviðvörun í flokki fjögur á vestanverðu landinu.
Trausti Jónsson veðurfræðingur birti gervihnattamynd á
bloggi sínu í gær sem hann fjallar um það sem kallað er
hlýtt og kalt færiband, en hann segir: „myndin sýnir skýjakerfi mjög vaxandi lægðar suðvestur í hafi. Kerfið er nú rétt búið að slíta sig norður úr móðurlægðinni sem er reyndar fyrir sunnan þessa mynd. Það sem við sjáum er mikill hvítur skýjabakki - göndull nánast beint úr suðri. Þetta eru háreist ský sem leggjast upp undir veðrahvörfin - þetta fyrirbrigði er gjarnan kallað hlýtt færiband (hlf á myndinni) - flytur hlýtt og rakt loft úr suðri norður á bóginn en jafnframt upp - og svo í hæðarsveig til austurs (rauð ör).“
“Kalda færibandið (kf á myndinni) er flókið fyrirbrigði - sumir efast reyndar um tilvist þess - eða nafngiftina alla vega. En í því er málum þannig háttað að niðri við jörð er norðanátt, en áköf sunnanátt uppi, - en loftið í henni berst þó hægar til norðurs en kerfið sjálft. - Kerfinu „finnst“ þarna vera mikil norðanátt.“
Hann segir jafnframt að svo virðist sem fyrirbrigði er kallast „þurra rifan“ sé að myndast, en það er nokkuð er fylgir gjarnan lægðum í örum vexti. „Kalt loft vestan við lægðina dreifir úr sér til norðurs og suðurs og dregur þá niður veðrahvörfin - við niðurstreymi þeirra losnar úr læðingi mikill snúningur sem skrúfar þurra loftið enn neðar og að lokum inn í lægðarmiðjuna og eykur mjög á afl hennar. Við bestu skilyrði gerist þetta allt á fáeinum klukkustundum.“ Við þetta afhjúpar lægðin eðli sitt og miðja hennar kemur greinilega fram á myndum en Trausti segir að sjá megi haus lægðarinnar vestan við hvítustu skýin sem jafnframt eru hæstu skýin. Gulbrúna örin bendi á hvar sjávarmálslægðarmiðjan gæti verið.
Á föstudag er síðan aftur von á krappri lægð sem Trausi segir enn hafa möguleika á að verða verri og langvinnri heldur en það sem við höfum verið að fjalla um hér.
Fyrir áhugasama má fylgjast með gangi lægðarinnar á gagnvirku korti
hér.