19.04.2018 - 17:35 | Hallgrímur Sveinsson
Vestfirsku malarvegirnir eiga það til að verða ansi holóttir! Ljósm. H. S.
Eftir nokkra klukkutíma var vegurinn eins og flauel!
Það var hérna á mánudagsmorguninn að Miðbæjarkarlinn hafði allt á hornum sér í sundlauginni. Var bara hálf miður sín.
„Er eitthvað að Stjáni minn,“ sagði þá Grímur á Eyrinni.
„Ja, vegurinn út í Haukadal er bara hola, hola hola og hola. Allt upp í 20 sm djúpar. Demparar og annað á síðasta snúning að vanda. Báðir gómar farnir að skrölta og mjaðmaliðirnir líka.“
Jæja.
„Ég skal nefna þetta við hana Guðrúnu mína þegar ég kem heim. Vita hvort hún getur gert eitthvað,“ sagði léttadrengurinn við Miðbæjarsmalann. Og tók hann nú gleði sína aftur.
Nú. Þegar dengsi kom heim og frúin heyrði þetta, fór hún strax í símann og hringdi í Gumba yfirlautinant og reddara. Sagði honum að Miðbæjardrengurinn væri alveg að verða vitlaus. Vegurinn úteftir væri bara ófær.
„Alveg sjáfsagt að skoða þetta, Guðrún mín,“ sagði Gumbi.
Svo var það fljótlega eftir hádegi sama dag, að Haukdællinn var eitthvað að snúast með kindum sínum út á hól. Var að sjóna það út hvað margar yrðu nú tvílembdar og svona. Og hvort hún Grána gamla yrði nú þrílembd að vanda.
Heyrir hann þá einhvern ókennilegan hávaða og hélt það væri eitthvað í vatnslögninni inni í fjárhúsi. Verður svo litið inn á holtið fyrir utan brúna á Haukadalsánni. Sér hann þá ekki hvar kemur stór og mikill skafari með skruðningum yfir brúna og er að skafa veginn eins og krakkarnir sögðu í gamla daga. Bjóst hann ekki við að verða mikið eldri, svo mikið varð honum um. Þarf ekki að orðlengja það, að vegurinn út í Haukadal er nú eins og hefluð fjöl eða flauel bara. Fær Vegagerðin prik og Guðmundur Björgvinsson yfirverkstjóri. „Svona konur ættu bara að fara á þing,“ sagði svo Miðbæjardrengurinn þegar hann mætti í laugina morguninn eftir.
Þessi saga er sönn, nema hvað hún er aðeins færð í stílinn eftir lögmálinu.
Gleðilegt sumar!