Frá aðalfundi Búnaðarfélags Auðkúluhrepps: Framhald
Eins og komið hefur fram í fréttum var aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúhrepps haldinn í Mjólkárvirkjun í síðustu viku. Fundurinn samþykkti 6 nokkuð merkar ályktanir í landsmálum sem hafa verið birtar. Hreinn Þórðarson á Auðkúlu var endurkjörinn formaður félagsins til næstu þriggja ára. Í almennum umræðum kom ýmislegt markvert fram, sumt mjög merkilegt og gleðilegt! Skal nú drepið á það helsta.
Gjaldkerinn sló í borðið!
Fjárhagsleg staða búnaðarfélagsins er þokkaleg eftir atvikum. Fyrir nokkrum árum kom fram tillaga um að senda sjóð félagsins til ávöxtunar á Tortola eða Panama. Gjaldkerinn, Hildigunnur Guðmundsdóttir, húsfreyja á Auðkúlu, stóð hart á móti því og sló í borðið. Ekki færi fimmeyringur þangað meðan hún hefði sjóðinn í vasanum. Urðu kallarnir að lúffa og ekki í fyrsta skipti. Við það situr.
Mikið var rætt um málefni vestfirsku sauðkindarinnar
Steinar R. Jónasson í Mjólká sagði að sauðburður byrji hjá sér 8. maí og er það nokkru seinna en var til skamms tíma. Hann upplýsti að það stefndi í búskaparlok hjá sér í haust með sauðfé og þar með yrði engin sauðkind á vetrarfóðrum í Auðkúluhreppi næsta vetur. Þótti mönnum þetta slæm tíðindi. Mun þá bætast við sinuna á Borg og nærliggjandi jörðum, sem er þó nóg fyrir. Mikið var rætt um málefni vestfirsku sauðkindarinnar. Snjólítið hefur verið í Mjólká og ansi vindasamt í janúar og febrúar sem víðar. Tveir ernir hafa verið á kreiki í Borgarfirði í vetur.
Veisla á hverjum degi í mötuneyti Dýrafjarðarganga
Það kom fram hjá Steinari að mjög vel gangi að bora í Dýrafjarðargöngum. Mötuneytið er líka alveg frábært sagði hann. Veisla á hverjum degi! Sagðist ekki hafa kynnst öðru eins á 22 ára ferli sínum í Mjólkárvirkjun.
Stöðvarstjórinn sagði að fundarritarinn yrði að vera beittur í skrifum eins og hann var oft áður. Menn mættu ekki verða of gamlir í þessu. Ritarinn lofaði bót og betrun. Og var nú mikið hlegið, enda lengir hláturinn lífið sem kunnugt er.
Mál afgreidd með rökstuddri dagskrá
Rætt var um sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Ekki er reiknað með framboði af hálfu Búnaðarfélagsins. Fram kom hjá stjórnarformanni, að Ísafjarðarbær hefði styrkt minkaveiðar í hreppnum um 300,000,- kr. Rann það fé beint til Vasks á Bakka, sem er veiðifélag Reynis Bergsveinssonar, minkakappa og minkasíuuppfinningamanns frá Fremri Gufudal. Hefur Reynir náð miklum árangri í Auðkúluhreppi eftir að hann setti þar upp minkasíur sínar í fyrra á vegum Gríms á Eyri.
Formaður reifaði erindi frá Búnaðarsambandi Vestfjarða um lítt starfandi búnaðarfélög á svæðinu, fækkun þeirra og niðurlagningu, kannski með sameiningu við önnur stærri. Var málið rætt og samþykkt að taka undir erindið. Það ætti þó ekki við Búnaðarfélag Auðkúluhrepps. Fyrir liggur nefnilega fundarsamþykkt um að félagið verði aldrei lagt niður hvað sem á gengur!
Annað erindi kom frá Búnaðarsambandi Vestfjarða um sameiningarmál sambandsins og Búnaðarsamtaka Vesturlands. Var málið afgreitt til stjórnar með rökstuddri dagskrá og verður það rætt á næsta fundi.
Minnst fimm-sex fantar fyrir hádegi
Þá var spjallað um kaffidrykkju almennt í tilefni af því að talsvert og jafnvel mikið var drukkið af kaffi á fundinum. Grímur gamli á Eyrinni taldi ekki hollt að drekka mikið kaffi á kvöldin, en á morgnana og um miðjan daginn væri það í lagi. Árni húmoristi á Laugabóli rak nú upp rokur miklar. Sagðist hann drekka minnst fimm-sex fanta fyrir hádegi og annað eins eftir hádegi og langt fram á kvöld og dygði varla til. Rétt er að geta þess, að komin er ný kaffivél í Mjólká.
Menn tóku í nefið og sumir gerðir að aukafélögum
Bændurnir Steini í Fremri-Hjarðardal og Kalli á Bakka í sama dal komu á fundinn sem heiðursgestir. Var smá stubbur hjá þeim í stöðvarhúsi Mjólkárvirkjunar. Kalli er eins og kunnugt er einn aðal hluthafinn í ullarfélaginu Ístex hf. Varð nú glatt á hjalla á fundinum og var þar þó mikil gleði fyrir. Þegar tveir ungir og galvaskir lögregluþjónar frá Patreksfirði bættust við varð allt vitlaust og runnu tvær grímur á stjórn félagsins. Menn tóku þó strax gleði sína aftur því þeir voru ekki í embættiserindum. Nú tóku menn í nefið hjá þeim Kalla og Steina og voru fundarmenn bjartsýnir og broshýrir mjög.
Samþykkt var að gera alla fjóra umrædda menn að aukafélögum í Búnaðarfélagi Auðkúluhrepps, eða þannig. Árgjald kr. 6,000,-. Greiðist fyrir áramót!
Spurningin er náttúrlega hvort ekki eigi að fjölga í búnaðarfélögunum með því að skrá ýmsa góða búaliða sem aukafélaga. Er það heimilt lögum samkvæmt. Þetta gæti orðið mikil lyftistöng fyrir „lítt starfandi“ búnaðafélög, sem voru nefnd hér ofar.
Assa hefur gert sig heimakomna á Laugabóli í vetur
Árni B. Erlingsson, bóndi á Laugabóli, upplýsti að mikið hefði verið um ref hjá sér í vetur. Assa hefur einnig gert sig heimakomna, en minkur ekki verið mikið á ferðinni. Árni sagði að fimm útigöngukindur hefðu sést í Dynjandisvogi um daginn og þrjár út við vitann á Langanesi. Eru þær allar komnar undir manna hendur. Ekkert útigöngufé hefur sést á Hófsárdal inn af Dýrafjarðargöngum og þar í grennd í vetur eins og í fyrra. Þá handsömuðu menn 9 fjár eins og kom fram í fréttum. Héldu menn fyrst að það væru álfakindur, en svo reyndist þó ekki vera þegar menn fóru að handfjatla þær.
Ýmislegt fleira var gert sem ekki var fært til bókar. Fundi slitið.