A A A
  • 1966 - Kristján Gunnar Bjarnason
  • 1966 - Óskar Gunnarsson
23.01.2019 - 14:39 | Hallgrímur Sveinsson

Ályktun frá Þingeyrarakademíunni

Þingeyrarakademían
Þingeyrarakademían
« 1 af 2 »

Höfuðstöðvar Landsbankans ættu að vera þar sem þær eru!

 

Rétt fyrir aldamótin 1900 reisti Landsbankinn sér glæsihýsi á norðvesturhorni Austurstrætis og Pósthússtrætis og hafa höfuðstöðvarnar verið þar síðan. Landsbankahúsið þótti "fyllilega á borð við slíkar byggingar í stórborgum" eins og sagt var. En nú á að fara að byggja nýjar höfuðstöðvar banka allra landsmanna. Áætlaður kostnaður 9 milljarðar. Raunkostnaður að viðbættri Pí-reglunni sennilega 15-20 milljarðar ef að líkum lætur. 

   Og auðvitað á þessi glæsibygging að vera í miðbæ Reykjavíkur ofan á allt annað sem þangað er búið að troða af steinsteypu, járni og gleri. Nokkra metra frá gamla, fallega Landsbankanum með sögu sína. Og bílakjallarar þar undir sem munu líklega fyllast af sjó í fyllingu tímans. Er eitthvert vit í þessu?

   Þingeyrar akademían bendir á, að Englandsbanki, Bank of England, er í eldgamalli virðulegri byggingu með sögu, í fjármálahverfinu í London. Engum heilvita manni dettur í hug að flytja höfuðstöðvar þess banka. Sama er að segja um margar slíkar stofnanir vítt og breytt um heiminn. Og til hvers nýjar höfuðstöðvar þegar allt bankakerfið er að verða rafrænt? Það skiptir engu máli hvar tölvurnar eru staðsettar. Er þetta kannski bara eitt snobberíið? 

Og meðal annarra orða: Er ekki nóg af lausum herbergjum í Seðlabankanum sem Landsbankinn okkar getur fengið lánuð ef nauðsyn krefur? 

 

Íþróttahúsið á Hálogalandi í Rvk. Hér stóð vagga handboltans á Íslandi frá stríðslokum 1945 til 1970 er húsið var rifið. Ljósm. Frambókin.
Íþróttahúsið á Hálogalandi í Rvk. Hér stóð vagga handboltans á Íslandi frá stríðslokum 1945 til 1970 er húsið var rifið. Ljósm. Frambókin.

Í dagsins önn:


Strákarnir okkar eru mikil himnasending fyrir hina sundurþykku íslensku þjóð. Mitt í öllu þjóðarrifrildinu koma þeir oft eins og himnasending og á það reyndar við um stelpurnar okkar líka að sjálfsögðu.

   Sjáiði til dæmis handboltann núna. Þarna sameinast stór hluti Íslendinga fyrir framan sjónvarpsskjáinn. Hinn hlutinn lætur sér fátt um finnast og er ekkert nema gott um það að segja. En að vísu gengur oft á ýmsu hjá þeim sem líma sig við skjáina þegar darraðardansinn gengur yfir klukkutíma í senn. 

  Tökum nú létt dæmi af leiknum við Makedóníu.

   Gvendur smali, Vestfirðingurinn, er nokkuð þungur á brún fyrir leikinn. En ekkert nema sigur kemur til greina og hygg eg að það sé sannmæli. Og Logi okkar með slaufuna fer eins og logi yfir akur í stofunni  á sinn skemmtilega hátt með félögum sínum. Nú er að duga eða drepast! Í fjölmiðlum almennt eru Íslendingar búnir að vinna leikinn fyrirfram að vanda og hinir fjölmiðlafíknu landar taka að sjálfsögðu undir það. Á það ekki síst við um mörg okkar hérna fyrir vestan. 

    Grímur gamli á Eyrinni var svo spenntur í fyrri hálfleik, að hann var langt kominn með að ryðja í sig hverjum einasta mola úr konfektkassa heimilisins. Þá tók frúin í taumana, reif kassann af kallinum og faldi hann á óhultum stað. Áður var hann búinn að kaupa 5  stykki af Conga af stærstu sort í sjoppunni hjá henni Diddu. Lét svo vin sinn Miðbæjarkallinn hafa 2 stykki fyrir leikinn. Þetta var nú bara eins og dropi í hafið hjá þeim félögum. Þegar hasarinn var sem mestur, þoldi Miðbæjardrengurinn ekki við, fór fram í eldhús, tók kústinn og fór að sópa. Það gerði Grímur gamli líka heima hjá sér. Merkilegt. Kunnugir vita að þetta hafa þeir smalarnir ekki gert í mörg ár. Eitthvað hefur nú hjartslátturinn verið farinn að aukast. Svo varð Miðbæjarsmalinn bara að fara út í bíl og setja hann í gang svo hleðslan væri örugglega í lagi, sagði hann. Og þurrkaði náttúrlega af mælaborðinu um leið. Fór svo inn aftur.

   Jæja. Þá var spennan slík að hann varð að bæta á sig nokkrum töggum. Kom nú í ljós að hver einasta karamella í Hallhúsinu var upp urin. Enda drukknir 3-4 stórir kaffifantar og veitti ekki af. Ætlaði frúin þá að hlaupa undir bagga og skjótast inn í sjoppu. Þurfti þess nú reyndar ekki því leikurinn var að enda með sigri Íslendinga. Úff! 

   Dramatíkin er oft mikil þegar allt er á fullu. Þá verður ein frúin til dæmis að láta sig hverfa út í bílskúr með prjónana þegar spennan er yfirþyrmandi og önnur fer bara að heiman. Ein fer svo inn í svefnherbergi og reynir að lesa á meðan. Svo er önnur sem oft verður að hringja á bróður sinn suður í Reykjavík til að fá uppgefin úrslit leikja. Þannig gengur þetta stundum til á Þingeyri og nágrenni í Dýrafirði þegar mikið er um að vera í handboltanum.

17.01.2019 - 08:10 |

Þorrablót 2019

Þorrablót Slysavarnardeildarinnar Varnar og Björgunarsveitarinnar Dýra verður haldið laugardaginn 2. febrúar 2019 í Félagsheimilinu á Þingeyri.

Á matseðlinum er hefðbundinn þorramatur ásamt lambapottrétti og kjúklingaleggjum.


Veislustjóri er tónlistargúrúinn Jón Gunnar Biering og hljómsveitin Hafrót leikur fyrir dansi. Skemmtiatriði og veglegir happdrættisvinningar.


Borðhald hefst kl. 20.00 en húsið opnar kl. 19:30. Forsala aðgöngumiða verður á laugardeginum kl. 13–14

  • Borðhald og ball kr. 8.500.-
  • Borðhald kr. 6.500.- Ball kr. 2.500.-

Gengið verður í hús til að kanna þátttöku, en einnig má panta miða í síma 659 8135 fram til 28. janúar. 


Hlökkum til að sjá ykkur,
Nefndin.

 

15.01.2019 - 13:36 | Hallgrímur Sveinsson

„Það var minn besti róður“

Leifur Þorbergsson
Leifur Þorbergsson

Úr fylgsnum fortíðar.

 

Leifur Þorbergsson, skipstjóri á Þingeyri, var nafnkunnur maður hér vestra á sinni tíð. Síra Gunnar Björnsson tók við hann viðtal sem birtist í Heima er best í apríl 1992. Nefnist það Lét vera að elta aðra, en fór mínar eigin leiðir. Þar segir Leifur undan og ofan af ævi sinni og Gunnar prestur skráir á sinn frábæra hátt. Gefum nú Leifi orðið:

„Það var minn besti róður“

„Sú sjóferð sem skærast lýsir í minningu minni átt sér stað, er við fórum hér á færabátnum Flosa í fiskiróður út af Dýrafirðinum árið 1958 eða 1959. Vinur minn, Egill Halldórsson frá Dýrhól, hafði komið hér að á opnum báti kvöldið áður með 400 kíló af fiski.

Við ýttum frá og vorum þarna dálítið út af Barðanum í  norðaustan bræluskít. Þar var og annar bátur frá Þingeyri, sem Sæfari hét. Hann siglir í átt til okkar, en svo sjáum við, að þeir hverfa upp í Fjörð, og við tökum ekkert mark á því meira. En svo er ekkert næði þarna lengur til þess að vera með færin úti, svo ég segi við strákana: 

„Farið þið bara fram í strákar. Ég ætla að kippa hérna upp á Sandvíkina undir Barðanum.“ 

Svo förum við að keyra upp. Þá sé ég einhverja trillu þarna og hugsa með mér:   Getur Egill verið kominn út aftur. En í sama bili sé ég, að þetta er bátur á hvolfi niðri í öldudal og mennirnir á kilinum. Ég kalla óðara í strákana, sem komnir voru í koju frammi í lúkar. Þeir koma upp. Og ég legg að þessu. Mér finnst þeir vera að benda mér, að ég eigi að leggja uppí. Þeir troða marvaðann og halda bátnum, annar framan á, hinn aftan á. Ég legg svo að þeim þarna upp í báruna og gengur ágætlega að ná þeim inn. En báturinn fór náttúrlega niður, hann þoldi ekki, að þeir hreyfðu sig á kilinum. Og þegar Héðinn skellur á dekkinu, þá segir hann:

„Nú munaði mjóu.“

Þetta voru þeir Skarphéðinn Njálsson, sem enn er á lífi hér á Þingeyri, og Jón Árnason, hálfbróðir Kristmundar í Hvammi. Jón lifir enn, sjúklingur á Akranesi.

Þetta álít ég að hafi verið minn besti róður.

Ég fékk líka þakklæti fyrir þessa björgun í messu hjá séra Stefáni Eggertssyni í messu á sjómannadaginn.“

  

15.01.2019 - 09:14 |

Við minnum á póstkortin

Við minnum Dýrfirðinga á að koma með póstkortin frá henni Guðbjörgu í Blábankann. Í anddyrinu er kassi þar sem þeim er safnað saman, og í byrjun febrúar verða svo þrjú kort dregin úr bunkanum. Þeir heppnu fá innrömmuð verk í ramma eftir Guðbjörgu sjálfa. 
14.01.2019 - 12:58 |

Aðalfundarboð

Íbúasamtökin Átak, hverfisráð Þingeyrar, boðar til aðalfundar þriðjudaginn 29. janúar kl. 20 í Félagsheimilinu á Þingeyri.


Dagskrá fundar
1. Skýrsla fráfarandi stjórnar
2. Kosning nýrrar stjórnar
3. Önnur mál
4. Spjall og umræða


Stjórnin

14.01.2019 - 11:19 |

Dýrafjarðargöng á 2. viku 2019

12. Janúar, þegar það var „gengið“ niður í gólfið.
12. Janúar, þegar það var „gengið“ niður í gólfið.
« 1 af 3 »
Vinna við Dýrafjarðargöng hefur gengið vel í vikunni.  Setlagið sem stafninn hefur verið í síðustu vikur gekk hratt niður í vikunni og í lok hennar var allt jarðgangasniðið að nýju í góðu basaltlagi. Uppsetningu á styrktarbogun var hætt og sprengifærurnar lengdar upp í fulla 5 m lengd.  Verkstaða í lok vikunnar er því þannig að lengd ganganna Dýrafjarðarmegin er orðin 519,4 m. Samanlögð lengd ganga er  nú 4.177 m sem er um 78,8% af heildarlengd.

 

Lengd að gegnumbroti er 1.124 m.

09.01.2019 - 09:31 |

15% fjölgun íbúa á Þingeyri

Þingeyri
Þingeyri

Viðbót, 14. janúar: Við höfum fengið ábendingu þess efnis að rökstuddur grunur sé um að þessar tölur séu ekki alveg í takt við raunveruleikann. Takið því vinsamlegast eftirfarandi frétt með fyrirvara.

Sagt var frá því á héraðsfréttamiðlinum Bæjarins Besta að Vestfirðingum hafi fjölgað um 1% á árinu 2018 og er íbúafjöldi fjórðungsins kominn yfir 7000. Mest varð fjölgunin í Ísafjarðarbæ. þar fjölgaði íbúum um 91. Næstmest fjölgun varð í Tálknafjarðarhreppi, en þar fjölgaði um 14 manns. Þá fjölgaði um 8 manns í Bolungavík og líka í Súðavík.

Þetta eru auðvitað ánægjulegar fréttir, en stóru fréttirnar hljóta að vera þær að sé litið til einstakra þéttbýlisstaða varð fjölgunin mest á Þingeyri árið 2018, sé að marka frétt Bæjarins Besta. íbúum á Þingeyri virðast hafa fjölgað úr 244 í 281, en samkvæmt reiknimeisturum þýðir það að það var hvorki meira né minna en 15% fjölgun.

Ekki fjölgaði alls staðar í fjórðungnum, en í Vesturbyggð fækkaði um 26 manns og um 16 manns í Reykhólahreppi.  Fækkun varð í öllum sveitarfélögum í Strandasýslum. íbúum fækkaði þar um 11 manns og eru íbúar sýslunnar nú 592.

Eldri færslur
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31