Hemmi með frænku sinni, Þorbjörgu Gunnarsdóttur forstöðukonu í Íþróttamiðstöðinni á Þingeyri. Ljósm. H. S.
Hér er Hemmi með fóstru sinni, Unni á Húsatúni í Haukadal, ásamt tíkinni Lubbu. Ljósm. H. S.
Á nýliðnu ári voru liðin fimm ár frá því að Hemmi Gunn kvaddi okkur. Þess var lítillega minnst í sundlauginni á Þingeyri á gamlársdag. Hemmi var nefnilega einn af máttarstólpunum í sundlaugarmenningunni á Þingeyri. Þá var kveikt á kerti og flett upp í viðtali sem tekið var við þennan Dýrafjarðardreng, sem allri þjóðinni þótti vænt um. Í umræddu viðtali, sem birtist fyrir 14 árum í bókinni Frá Bjargtöngum að Djúpi, 8. bindi, segir meðal annars svo:
Fyrsti kossinn
-Var ekki eitthvað af fallegum stelpum þarna í dalnum?
-Jú, jú að sjálfsögðu. Það voru fallegar stelpur í Höllinni svo eftir var tekið. Þar kviknaði til dæmis fyrsti ástarblossinn hjá mér. Það var stelpa sem þar var í sveit.
-Hvað hét hún?
-Hún hét Margrét. Leiðir okkar lágu síðar saman hjá Útvarpinu. Hún hefur unnið þar nánast allt sitt líf. Hún var ári eldri en ég. Þetta var alveg skelfing að vera svona ástfanginn og þora ekkert að gera! Það minnti um margt á afa minn, Hermann, sem vann við að slá sefið í Haukadal upp úr aldamótunum 1900, með sitt gulllitaða hár, eins og Gunnar á Hlíðarenda og þeir kappar. Hann stóð í Seftjörninni og sló og horfði á allar heimasæturnar en þorði ekkert að gera af því hann átti engan pening! Ég var alveg máttvana frammi fyrir þessari miklu fegurð í Möggu 10 ára. Ég þorði náttúrlega aldrei að tjá henni ást mína. Svo var það sem gerði illt verra, að undir lokin, skömmu áður en við fórum suður, þá smellti hún á mig kossi! Alveg á nákvæmlega sama hátt og amma mín hafði smellt kossi á Hermann afa minn, þá kostgangara í Reykjavík, að læra. Þá brast stífla hjá honum og þau urðu síðar hjón. Hún var úr Garðinum.
Ég var gjörsamlega meðvitundarlaus eftir þennan koss og gerði allt sem í mínu valdi stóð til að finna út hvar hún byggi í Reykjavík og hafði upp á því. Hún bjó á Laugavegi. Ég var kominn með símanúmerið og allt hvað eina, en þorði aldrei að hringja og var ekki mönnum sinnandi allan veturinn, en beið spenntur eftir að komast í sveitina til að hitta hana og láta þá af þessari feimni minni. Þá brá svo við að ég varð sennilega fyrir mesta áfalli mínu á lífsleiðinni.
Í fyrsta lagi var það tík sem hét Lubba, eins og Lubba á Húsatúni í dag og ég hafði bundið miklum tryggðaböndum við. Hún hafði hlaupið fyrir bíl tveimur dögum áður en ég kom í sveitina það vorið. Og svo gerðist það hrikalega: Frú Margrét kom alls ekki í sveitina! Ég var niðurbrotinn maður fyrsta mánuðinn.
Landsleikur í Svalvogum
Þá var að bæta þetta upp einhvernveginn og ég reyndi að koma kynnum mínum af íþróttunum til strákahópsins. Það gekk mjög vel og við vorum endalaust í fótbolta og síðan í frjálsum íþróttum inn á grundinni á þúfunum þar sem Ungmennafélagið Gísli Súrsson, sem stofnað var eftir stríðið, hafði haft aðstöðu sína, meira að segja var þarna langstökksgryfja og kúluvarpshringur. Þarna stofnuðum við til okkar Haukadalsmóta. Við vildum gjarnan etja kappi við Þingeyringa, en skorti kjark þó við teldum okkur eiga fullt erindi í þá. En við byrjuðum samt á landsleikjum.
Þegar við töldum okkur vera orðna nógu sterka, skoruðum við á alla bæina frá Haukadal og út í Svalvoga í landsleik í knattspyrnu. Það var semsagt landsliðið á móti úrvalsliðinu. Þá var fullt af krökkum þar á bæjunum.Við gengum alla leið út í Keldudal og áðum þar eins og sagt er. Fengum þar mjólkursopa hjá Ella og Jönu. Síðan var haldið áfram og gengið alla leið út í Svalvoga. Þá var vegurinn hans Ella Kjaran ekki kominn, þannig að við þurftum að sæta sjávarföllum og allt eftir því. Við kölluðum ekki allt ömmu okkar, landsliðsmennirnir í Haukadal í þá daga og úrvalsliðsmennirnir á bæjunum í kring!
Landsleikurinn fór fram á þýfðu túninu í Svalvogum og við sigruðum auðvitað! Fengum svo að leik loknum eina jólakökusneið og volga mjólk með rjómakekkjum sem ekki allir voru vanir. Svo var bara gengið til baka og komið heim síðla kvölds. Svo komu úrvalsliðsmennirnir inn í Haukadal síðar um sumarið, því það var leikið heima og heiman. Þetta var alvörukeppni.