A A A
  • 1966 - Kristján Gunnar Bjarnason
  • 1966 - Óskar Gunnarsson
27.02.2019 - 10:53 |

Fyrstu gestir 2019

Fágæt sjón blasti við meðlimum Þingeyrarakademíunnar þegar hún mætti til fundar í Sundhöllinni í morgun. Lítlum húsbíll hafði nefnilega verið hagalega fyrir komið á tjaldvæðinu, sem er ekki alvanalegt í febrúar mánuði.

 

Þegar fréttaritari Þingeyrarvefsins bankaði uppá tók ungt ástralskt par, þau Brayden og Kelsea, brosandi á móti honum. „Við erum bara í sumarfríi. Vinur okkar mældi með Vestfjörðum, hann sagði að Vestfirðir væru fallegasti hluti Íslands. Við urðum þá auðvitað að sjá þennan landshluta með eigin augum“

 

Aðspurð leituðu þau á internetinu að tjaldsvæðum sem opin eru á þessum árstíma, en samkvæmt því sem þau fundu eru einungis þrjú slík opin á öllu Vesturlandi og Vestfjörðum - og á Þingeyri er eitt þeirra.

 

„Hér er loftslagið og landslagið öðruvísi en við eigum að venjast. Þar sem við búum í Ástralíu eru engin fjöll og alveg flatt, og hitinn fer aldrei niður fyrir 15 gráður. Við erum mjög ánægð að losna frá hitanum í smá tíma. Við sáum norðurljósin í gærkvöldi og það var draumi líkast“ sögðu ævintýragjörnu ferðalangarnir Brayden og Kelsea að lokum.

25.02.2019 - 14:36 |

Vika 8

Í viku 8 voru grafnir 94,1 m í göngunum Dýrafjarðarmeginn. Lengd ganganna í Dýrafirði fóru yfir 1 km í vikunni og var í lok vikunnar 1.056,8 m sem er 64,3 % af leggnum sem er eftir og er búið að grafa í heildina 88,9 % af göngunum. Eru núna 586,6 m að gegnumbroti.


Grafið var í basalti og kargalagi og seinni part vikunnar var þunnt, 2-5 cm þykkt setlag á stafninum. Allt efni úr göngunum var keyrt beint í vegfyllingu.


Í göngunum Arnarfjarðarmeginn var haldið áfram með gröft á lagnaskurðum og fleygun fyrir brunnum ásamt vinnslu á jarðefnum.

...
Meira
21.02.2019 - 13:37 |

Íþróttaþjálfari óskast

Íþróttafélagið Höfrungur á Þingeyri óskar eftir að ráða alhliða íþróttaþjálfara. Viðkomandi þyrfti að geta hafið störf í byrjun júní og starfað sumarlangt. Á könnu viðkomandi yrði íþrótta- og leikjanámskeið, útivist og fleira fyrir bæði börn og fullorðna.

 

Þetta er einstakt tækifæri fyrir drífandi aðila til að eyða sumrinu við leik og störf í fallegasta firði landsins.

 

Áhugasamir hafi samband við Sigmund (863-4235) eða Guðrúnu Snæbjörgu (866-4269).

21.02.2019 - 10:05 | Elfar Logi Hannesson

Kristinn Pétursson, 1896-1981

Seyðtún íbúðarhús með vinnustofu í Hveragerði.
Seyðtún íbúðarhús með vinnustofu í Hveragerði.
« 1 af 2 »
Fæddur 17. nóvember 1896 á Bakka í Hjarðardal, Dýrafirði. Dáinn 1. september 1981.


Saga Dýrfirðingsins Kristins Péturssonar er eins og ein af sögum Charles Dickens þar sem hinir fátæku ná ekki bara að lifa heldur brjóstast til mennta og frama. Allt þetta á við Kristin þó um árin hafi fennt allt of mikið yfir hans merku listaverk. Hann var án efa einn af áhrifamestu listamönnum síðustu aldar, ávallt leitandi og rannsakandi í list sinni.

 

Kvalist upp

Einsog einhver Óliver Twist er Kristinn orðinn munaðarlaus 6 ára snáði. Er þá komið í fóstur á Næfranesi og má sannlega segja að þar hafi hann kvalist upp frekar en alist. Til að bæta á harminn hófst hrina veikinda, fyrst kirtlaveiki og þar á eftir berklar sem hann fékk í bakið og varð bakveikur uppfrá því. Huggun sína sótti hann í bækur sem hann hafði frjáls afnot af hjá góðum nágranna nefnilega Sighvati Grímssyni á Höfða. Gott ef Hvati hafi ekki einnig átt þátt í því að koma pilti í skóla hjá Sigtryggi Guðlaugssyni á Núpi 1914. Seinna átti Kristinn eftir að gera brjóstmynd af lærimeistaranum á Núpi sem nemendur færðu skólamanninum á 70 ára afmæli hans.

Þrátt fyrir allt mótlætið og fátæktina brýst hann áfram til mennta og útskrifast úr Kennaraskólanum í borginni árið 1919. En listin var farin að brjótast í honum og loks skráir hann sig í teiknitíma hjá hinum vestfirska Guðmundi Thorsteinssyni, Muggi, og eftir það hjá Þórarni B. Þorlákssyni. Listin hafði tekið yfir og hann sigldi til Noregs til frekari myndmennta. Stúderaði m.a. við Listakademíuna í Osló og eftir það bæði í Kaupmannahöfn og París. Það er sannað að fátt skiptir ungan listamann meira máli en að sjá sem mest af list og það allskonar list. Næstu árin ferðast Kristinn víða til að nema og sjá heimslistina. Hann var eins og sinn fyrsti kennari, Muggur, leitandi í listinni og margt heillaði, þeir voru báðir útum allt og leitandi alla tíð. Fyrst var það höggmyndin, svo greip málverkið hann og þaðan lá leiðin í flest form myndlistarinnar.

 

Seyðtún

Árið 1933 er Kristinn alkominn til Íslands uppfullur af hugmyndum og lætur nú sannlega verkin tala eða öllu heldur sjást. Heldur fjölda sýninga bæði í Reykjavík og víðar  m.a. á Ísafirði 1938. Sýndi í húsi Kaupfélags Ísfirðinga og víst var þar margt að sjá. Má þar nefna einar 60 raderingar sóttar í hinn gjöfula goð- og þjóðsagnaheim. Raderingu eða svartlist, hafði Kristinn numið sérstaklega í Svartlistaskóla í Vínarborg. Blaðið Vesturland fjallar vel um sýninguna og hvetur sveitunga sína til að ekki bara sjá verk þessa unga Vestfirðings heldur og kaupa enda séu þau ekki dýr.

Á þessum tíma var svartlistin, grafíkin, lítt kunn hér á landi og átti Kristinn sannlega þátt í að kynna þetta skemmtilega myndmál fyrir landanum. Vann hann fjölmargar grafík myndir bæði af verðbúðum sem gömlum byggingum, torfbæjum og kirkjum landsins. Kristinn fór þó mun víðar í myndstílum og formum málaði sem teiknaði en strax árið 1937 er farið að tala um að hann fari sínar eigin leiðir í listinni. Höggmyndir gerði hann margar nægir þar að nefna brjóstlíkön af  Sveini forseta Björnsyni og af skáldunum Einari Bernediktssyni og Davíð Stefánssyni. Af öðrum kunnum höggmyndum Kristins má nefna verkin Madonna í íslenskum skautbúning og Sláttumaður.

Árið 1940 flytur hann í þá listamannabæinn Hveragerði. Vel má gerast svo stórtækur og segja að þarna hafi verið sannkölluð listamannnýlenda hvar bjuggu m.a. Ríkharður Jónsson, Kristmann Guðmundsson og Jóhannes úr Kötlum svo aðeins nokkir séu nefndir. Í þessum blómlega bæ reisti Kristinn sér íbúðarhús með vinnustofu og nefndi Seyðtún. Árið 1954 heldur hann þar veglega listsýningu sem er jafnframt hans síðasta. Eftir það má segja að listamaðurinn hafi lokað sig frá umheiminum en þó haldið áfram að þróa sig í listinni. Hafði hann glímt við heilsuleysi alla tíð og hefur það líklega haft eitthvað að segja. Kristinn var líka einn af þeim listamönnum sem vildi að verkin sýndu listamanninn frekar en vera í eilífri síbylju að gorta sig af eigin ágæti í fjölmiðlum. Stundum virðist það vera aðalmálið að vera í endalausum gorttölum og ef ekki þá kunna á exel til að geta framfleytt sér af listinni.

Kristinn sat þó eigi aðgerðalaus því þegar hann andaðist tæpum þremur áratugum síðar arfleiddi hann Listasafn alþýðu að verkum sínum sem voru 1367 talsins. Listin átti hug hans allan allt til enda. Hann ritaði sögu sína og listhugleiðingar í einum þremur veglegum handritum sem hefur því miður aldrei komið út. Húsið Seyðtún var einnig í stöðugri þróun og óhætt er að segja að sé hans mesta verk eða einsog hann sagði sjálfur: „Sennilega er ég og vinnustofa mín næstum orðið eitt í vissum skilningi, ég get ekki hugsað mér að vinna list annars staðar.“

 

Elfar Logi Hannesson

Aðalheimild:

Sérvitringurinn í Seyðtúni. Morgunblaðið 29. maí 2015

20.02.2019 - 13:42 | Þingeyrarakademían

Ennþá meira um bankamálin

Þingeyrarakademían að störfum. Ljósm. Haukur Sigurðsson.
Þingeyrarakademían að störfum. Ljósm. Haukur Sigurðsson.
« 1 af 2 »

Þingeyrarakademían ályktar:

 

Höfuðstöðvar Landsbankans, banka allra landsmanna í Austurstræti, er hús með sál og sögu. Þeir eru ekki margir bankarnir norðan Alpafjalla sem eiga svona fallega byggingu. En nú skal byggja nýja peningahöll úr steypu, járni og gleri á dýrasta stað í höfuðborginni og bílakjallara við hæfi. Níu milljarðar þar. Sennilega 15 milljarðar þegar upp verður staðið. Þingeyrarakademían leggur eindregið til að þessari vitleysu verði hætt nú þegar og lóð og heila klabbið selt.

Drottningin í væntanlegri voða stórri höll hefur á skömmum tíma fengið launahækkun sem er á við fimmföld mánaðarlaun verkamanns. Fimmföld. Þar með hefur hún ellefu sinnum hærri laun en gjaldkerinn í bankanum. Rök bankaráðsins eru þau að hún átti að fá þessa hækkun! Frúin í Íslandsbanka er svo sér á báti sem við höfum ekki þrek til að ræða. Ef fer sem horfir verða þessar ofurkonur fljótlega komnar með 10-15 milljónir á mánuði. Þingeyrarakademían leggur hins vegar til að enginn ríkisstarfsmaður hafi hærri laun en 2 milljónir á mánuði. 

Allt sem hér hefur verið rakið er eins og blaut gólftuska framan í landsmenn. Bankasýslan og ráðherra koma af fjöllum og biðja náðarsamlegast um upplýsingar. Er enginn maður með viti sem fylgist með bönkum allra landsmanna? 

Spyrja verður einnig: Hvað eru bankaráðsmennirnir með í árslaun fyrir dómgreindarleysið?

Louise Anna
Louise Anna
« 1 af 7 »

Sex alþjóðlegir listamenn dvöldu síðustu tvær vikur í listamannavinnustofu Simbahallarinnar, Westfjords Residency. Er þetta sjöunda árið sem vinnustofur sem þessar eru skipulagðar af vertum Simbahallarinnar og hefur mikil almenn ánægja verið með fyrirkomulagið, bæði frá listamönnum sem og heimamönnum sem fá að njóta.

 

Á föstudagskvöldið var opið hús í Simbahöllinni þar sem listamennirnir ýmist sýndu verk eða fluttu. Þingeyrarvefurinn sendi sérlegan listagagnrýnanda vefsins á stjá til að athuga málið.

 

Fyrst ber að nefna Margaret Byrd frá Seattle í Bandaríkjunum sem nýtti sér kuldann sem ríkt hefur undanfarið til að útbúa ís listaverk sem hún dreifði um bæinn. Ísmolar litaðir með ýmsum náttúrulitum settu því svip sinn á bæjarbraginn á Þingeyri þá daga sem hún var hér.

 

Hin suður kóreska Soo Kyung Bae setti upp vinnuherbergi í einu rými Blábankans og málaði stóla af miklum móð. Sýndi hún nokkur verkanna í Simbahöllinni og vakti frumleg notkun hennar á litum og línum sérstaka athygli gesta.

 

Japanska ljósmyndarann Takashi Nakagawa hafa margir bæjarbúar eflaust séð, en um þriggja vikna skeið var hann mikið á ferðinni með myndavél um hálsinn. Hann sýndi tvær myndaseríur á skjávarpa. Aðra þeirra með stórskemmtilegum svarthvítum vestfirskum götumyndum í 15:9 formatti og hina með safni af abstrakt myndblöndum úr náttúrunni.

 

Kim Curtis frá Illinois í Bandaríkjunum sýndi bútalistaverk sem hún límdi og saumaði saman úr pennateikningum og litagleði sem hún fangaði hér í Dýrafirðinum.

 

Leikkonan og ljóðskáldið frá Hollywood, Elaine Weatherby, steig á stokk og flutti ljóð sem hún samdi meðan á dvöl hennar stóð hér á Þingeyri. Fjallaði hún m.a. á skemmtilegan hátt um daglegt líf hér í þorpinu og aðdáun hennar á meðlimum Akademíunnar.

 

Skoska tónlistarkonan Louise Anna spilaði lágstemmt popp á lítið rafmagnshljómborð. Skemmtilegar textasmíðar og falleg söngrödd vöktu athygli viðstaddra, svo mikla að hún var fengin til að taka aukalög síðar um kvöldið.

 

Hin danska Ronja steig síðust á stokk. Ronja var ekki hluti af vinnustofunni sjálfri heldur í bænum í öðrum erindagjörðum, en það kom ekki að sök, hvers kyns listafólki er tekið fagnandi í Simbahöllinni. Ronja heillaði viðstadda með frumsaminni tónlist og kraftmikilli rödd. Það er augljóst að Ronja hefur staðið á sviði áður, en öryggi hennar og sviðsframkoma var aðdáunarverð.

 

Óhætt er að segja að listafólkið hafi lífgað uppá samfélagið hér í firðinum með uppátækjum sínum. Fullt var út úr dyrum í Simbahöllinni og almenn gleði var með viðburðinn. Því lengra sem leið á kvöldið þeim mun meira hitnaði í kolunum - og á tímabili var stemmingin við suðumark.

 

Þingeyrarvefurinn þakkar fyrir sig og hvetur til fleiri viðburða af þessu tagi. Ekki aðeins vegna listarinnar sjálfrar, heldur líka vegna þess að svona viðburðir hvetja fólk til að hittast og gera sér glaðan dag - og það er mikilvægt öllum samfélögum.

19.02.2019 - 09:35 |

Framvinda í viku 7

Áframhaldandi flottur gangur í gangagreftri og lengdust göngin um 88,8 m í síðustu viku.

Lengd ganga Dýrafjarðarmegin er þá orðin 962,7 m og samanlögð lengd ganga 4.620,3 m sem er 87,2% af heildarlengd. Lengd að gegnumbroti er nú 680,7 m.

Auk gangagerðar vinnur verktaki jöfnum höndum í vegagerð og er vegurinn að göngum óðum að taka á sig mynd. Efni úr göngum er ekið í vegfyllingar frá göngum og til vesturs en í vesturendanum og í átt að göngum hefur mest allt efnið komið úr Kjarnansstaða- og Ketilseyrarnámum. Þá hefur verktaki undanfarnar vikur verið að vinna efni í rofvörn á vegfláa þar sem vegur liggur meðfram og í sjó í vesturendanum og er það efni úr Nautahjallanámu.

Þingeyri
Þingeyri

Tveir spekingar vestan úr Auðkúluhreppi, þeir Grímur gamli á Eyrinni, Breiðhillusmali og fyrrum methafi Auðkúluhrepps í 200  m skriðsundi og Þorbjörn Pétursson bóndi og kvikmyndaleikari á Ósi, eru nú með Þingeyrarkauptún í gjörgæslu. Ekki liggur fyrir hvort þessi gjörgæsla er á vegum Byggðastofnunar, Fiskistofu, Umhverfisstofnunar eða jafnvel Skipulagsstofnunar. Það verður bara að koma í ljós, segja þeir félagar aðspurðir. En þeir fullyrða að þeir brúki hávísindalega aðferðafræði í rannsókn sinni. Nú.

Eftirfarandi óyggjandi staðreyndir í 1. þrepi rannsóknarinnar liggja nú þegar fyrir hjá þeim Auðkúluhreppsmönnum:


Íbúðarhús, fjöldi og notkun á Þingeyri.

Íbúðarhús og stakar íbúðir alls............................................................................... 130

(Þar af hús í byggingu, tóm hús og íbúðir ekki í heilsársnotkun........................................  34)


Samtals.........................................................................................................   130



Vinnustaðahús, skólar, hótel og fleira........................................................................ 39

 

Samtals fjöldi húsa á Þingeyri (dúfnakofar, hænsnakofar, jarðhús og fjárhús ekki talin með)......169


Íbúðir og hús til sölu á staðnum eru nú 5-6 eftir því sem næst verður komist segja þeir spekingar. (Birt án ábyrgðar)

 

Trúnaðarmaður verkefnisins, Guðberg Kristján Gunnarsson, bóndi, yfirsmali, tófuskytta og sundkappi frá Miðbæ, segir að taka verði þessar tölur frá þeim félögum með fullum fyrirvara. Þær eigi eftir að fara í grenndarkynningu. Og svo er kærufrestur 6 mánuðir. 

Þannig að það er ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið, segir trúnaðarmaðurinn. En það verði að taka spekingana trúanlega á  þessu stigi. Þeir hafi nú sjaldan klikkað þegar báðir hafa lagt saman. Þetta sé í fullri alvöru, en með gamansömu ívafi. Mættu margar stofnanir taka þetta til fyrirmyndar. Þær skili  stundum fleiri hundruð blaðsíðna skýrslum sem séu svo leiðinlegar aflestrar að það sé ekki fyrir nokkurn hvítan mann að lesa. Enda fara þær oft beint upp í hillu eða niður í skúffu. Jafnvel þó þær hafi kostað milljónir.

Eldri færslur
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31