A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
15.02.2019 - 13:27 |

Kynningarfundur í Blábankanum

Næstkomandi mánudagskvöld 18. febrúar kl. 20 býður Blábankinn áhugasömum til létts kynningarfundar. Blábankinn hefur nú starfað í rúmt ár og verkefnið hefur fengið að slípast til og þroskast, en framundan eru bæði mikil tækifæri og jafnframt áskoranir. Á fundinum vill Blábankafólk fjalla aðeins um þau verkefni sem hafa verið í gangi og þau sem framundan eru, auk þess sem bæjarbúar eru hvattir til að segja sína skoðun og koma með hugmyndir og vangaveltur.
12.02.2019 - 10:21 | Bjarni Einarsson,Guðmundur Ingvarsson,Hallgrímur Sveinsson

„Málið er leyst: Það er Melka!“

Guðmundur, Bjarni og Hallgrímur
Guðmundur, Bjarni og Hallgrímur

Þessi setning hljómaði oft í eyrum landsmanna á fyrstu árum Sjónvarpsins. Ef við munum rétt, sem við munum, var verið að auglýsa skyrtutegund nokkra. Innflytjandi hennar græddi ábyggilega stórfé á þessari snjöllu framsetningu. Og nú er uppi svipuð hugmynd um stórmál sem hægt er að leysa strax. Og allir græða. 

   Við félagarnir hér vestra höfum velt því nokkrum sinnum upp á opinberum vettvangi að ríkið selji Íslandsbanka. Erum þar svo sem ekki að finna upp hjólið. Noti fjármuni þá sem fyrir bankann fást til uppbyggingar á samgöngukerfinu. Kannski 150 milljarðar króna segja þeir sem vit hafa á. 

   Þessi snjalla hugmynd um Íslandsbanka hefur fengið misjafnar undirtektir. Sumir segja að ríkið verði að eiga bankana svo allt gangverkið verði ekki snarvitlaust aftur. Aðrir segja að ríkið eigi ekkert að vera að vesenast í bankastarfsemi og svo framvegis. Enn aðrir vilja kalla á erlenda banka. Við gömlu sparisjóðamennirnir vörum reyndar alvarlega við þeim stofnunum sumum, eins og til dæmis Danske Bank og Deutsche Bank. Samkvæmt Reutersfréttum eru þeir einfaldlega heimsins mestu sérfræðingar í peningaþvætti. Glæpastofnanir.

 

Krókur á móti bragði

    Nú er það kænskubragð okkar, eða krókur á móti bragði, að koma með þá breytingartillögu, að ríkissjóður selji 49% eignarhlut sinn í Íslandsbanka í dreifðri eignaraðild. Kannski 70 -75 milljarðar takk. Enginn mætti eiga nema svo sem 5% í bankanum en ríkið héldi sínum meirihluta. Ganga verður svo frá hnútum að hér verði ekki bara orðin tóm eins og forðum. Þeir peningar yrðu notaðir í samgöngur á landi. Almenningur ætti hér leik á borði að ráðstafa hluta af sparifé sínu í öruggum ríkisbanka. Fá í staðinn betri samgöngur strax sem allir hrópa á til sjávar og sveita. Svo má náttúrlega ekki gleyma lífeyrissjóðunum. Mega þeir ekki eiga hlut í ríkisbanka? Eða stórfyrirtækjum eins og Eimskip og Samskip, sem skrönglast á ónýtum vegum árið út og árið inn. 

 

Hver og einn bær er hlekkur í keðjunni!

   Umrædd aðgerð um sölu á 49% hlut Íslandsbanka mundi hafa í för með sér samræmdar aðgerðir í vegamálum. Í þeim efnum er landið allt ein heild. Hver og einn bær er hlekkur í þeirri keðju. Smáskammtalækningar með happa- og glappaaðferðum myndu snarminnka.  Með þessu móti væri hægt að slá veggjöld eða skatta út af borðinu í bili. Þeir sem varla eiga til hnífs og skeiðar myndu fagna því mjög. En hins vegar er Íslandsgjald sem aðgöngumiði að Náttúrulistasalnum Íslandi fyrir akandi erlenda ferðamenn löngu tímabært. 

   Talandi um bankastofnanir. Við seljum auðvitað ekki fimmeyring í Landsbankanum. Hann ætti að vera okkar samfélagsbanki líkt og sparisjóðirnir voru, sællar minningar. 

   Málið er sem sagt leyst eins og með skyrturnar forðum: Seljum 49% í Íslandsbanka í dreifðri sölu og eignaraðild. Og setjum hverja krónu í uppbyggingu íslenskra vega!

11.02.2019 - 17:48 |

Nýr fóðurprammi

Nýr fóðurprammi Arctic Fish, Mýrafell, verður til sýnis fyrir gesti og gangandi á morgun, þriðjudag, milli klukkan 16 og 18.  Heitt verður á könnunni og kleinur í boði.

Mýrafell verður staðsett undir Eyrarhlíð þar sem það kemur til með að þjónusta 12 sjókvíar. Pramminn kemur frá norska fyrirtækinu Akva Group og var hann smíðaður í Tallinn í Eistlandi. Hann tekur hvorki meira né minna en 450 tonn af fóðri, en pramminn skartar nýjustu gerð af fóðurkerfi og byggist kerfið upp af þráðlausum myndavélum sem staðsettar eru bæði ofansjávar fyrir almennt eftirlit, og neðansjávar svo hægt sé að fylgjast náið með fóðurgjöf.

Samkvæmt tilkynningu frá Arctic Fish er Mýrafell með sjórnstöð, skrifstofurými, fyrsta flokks starfsmannaaðstöðu þar sem finna má klósett, sturtu, eldhús og verkstæði.

« 1 af 3 »

Það var áfram góður gangur í greftri Dýrafjarðarganga í vikunni, þó ekki væru slegin nein met að þessu sinni, fyrri hluta vikunar var grafið með þríbreiðu þversniði í gegnum neyðarútskot J. Vikuframvindan var samt sem áður einir 77,1 m.  Þar með eru jarðgöngin Dýrafjarðarmegin orðin 873,9 m löng, heildarlengdin er þá 4.531,5, sem er 85,5% af heildarlengd ganganna. Að því sögðu þá er núna aðeins 769,5 m eftir í gegnumslag.

 

Meðfylgjandi eru annars vegar mynd af lagmótum sem einkenndu vikuna, neðst er þykka basaltlagið sem göngin hafa verið í síðan að setlagið gekk niður í gólfið sælla minninga, en fyrir miðri mynd er þykkt kargalag en þar fyrir ofan tekur við næsta basaltlag.  Einnig flýtur með mynd af sýnatöku á sprautusteypu, þá er sprautað í mótin sem sjást á myndinni, þessar hellur eru síðan brotnar í pressu til að mæla styrk steypunnar og er það hluti af gæðaeftirlit verksins.

11.02.2019 - 09:20 |

Sumarstarf á Þingeyri

Koltra handverkshópur auglýsir eftir starfskrafti í upplýsingamiðstöð og handverkshús á Þingeyri fyrir sumarið 2019. 

 

Um er að ræða tvö 75% störf og er ráðningartíminn 15. maí til 15. september.
Unnið er alla daga vikunnar og yrði dögum skipt eftir samkomulagi.

 

Helstu verkefni og ábyrgð: 

Yfirumsjón með daglegum rekstri. 

Móttaka og samskipti við innlenda og erlenda ferðamenn. 

Almenn miðlun upplýsinga um svæðið. 

Umsjón og sala á handverki handverkshóps Koltru. 

 

Hæfniskröfur: 

Nauðsynlegt er að hafa gott vald á íslensku og ensku, þriðja mál er kostur.

Umsækjandi verður að geta unnið sjálfstætt og haft frumkvæði. 

Færni í mannlegum samskiptum og góð þjónustulund er mikilvæg.

Gott er að hafa þekkingu á svæðinu eða vilja til að afla sér viðunandi þekkingar til að geta miðlað til annarra. 

Reynsla á sviði ferðamála og þjónustu er kostur. 

Umsækjandi verður að hafa náð 20 ára aldri. 

 

Umsóknarfrestur er til og með 1. apríl 2019.

Umsóknir með upplýsingum um menntun og fyrri störf skal senda skriflegar á netfangið: koltrahandverkshopur@gmail.com

Einnig má fá nánari upplýsingar hjá formanni Koltru, Jónínu Hrönn, í síma 659 8135.

 

Þingeyringurinn Bríet Vagna og ísfirsk vinkona hennar Sara Emily lentu á dögunum í fyrsta sæti í Söngvakeppni Félagsmiðstöðva á norðanverðum Vestfjörðum með laginu Líttu Sérhvert Sólarlag eftir Braga Valdimar Skúlason. Þetta var í fyrsta skiptið sem þær stöllur syngja saman, en þær hafa báðar verið í tónlistarnámi um árabil, Bríet í gítar og söngnámi og Sara í píanónámi.

 

Sigurinn tryggði þeim þátttökurétt í Söngvakeppni Samfés sem fram fer í Laugardagshöll þann 23. mars næstkomandi. Við hjá Þingeyrarvefnum erum auðvitað rífandi stolt af okkar fólki og óskum þeim góðs gengis í stóru keppninni.

08.02.2019 - 11:11 | Hallgrímur Sveinsson

„Elskan mín, minna svaf ég“

Smiðjudrengirnir í Steypiríinu 1962 eð 1963. Ljósm. Gunnar frá Hofi.
Smiðjudrengirnir í Steypiríinu 1962 eð 1963. Ljósm. Gunnar frá Hofi.

Eftirfarandi þáttur er úr viðtali við Elís Kjaran í frá Bjargtöngum að Djúpi nýr flokkur 6. bindi, þar sem fjallað er um 100 ára afmæli Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar og co hf. Er rifjaður upp til að lífga lítils háttar upp á tilveruna. Það er mikið búið að skemmta sér yfir honum þessa dagana í sundlauginni.

 "Þú manst vel eftir Guðmundi Tómassyni."


 "Já, "elskan mín", það er nú líkast til."


   "Gummi Tomm var nú alveg sérstakur karakter. Hann var svona afsprengi af gömlu amerísku skútukörlunum, lúðuveiðurunum, sem hér voru á sínum tíma. Þeir áttu sitt uppsátur, ef maður getur kallað það svo, hér á Þingeyri og höfðu svona viðveru hjá hlýjum konum, þegar þeir komu kaldir og hraktir af hafinu. Gummi Tomm var einmitt ávöxtur af einhverju slíku. Hann var svolítið amerískur í útliti. Hann hikstaði svolítið í máli, eelskan mín. Hann var mjög lundgóður alltaf, karlinn, og mjög húsbóndahollur. Þetta voru einstakir persónuleikar. Ég held það fæðist ekki aðrir slíkir í dag. Hann annaðist meðal annars gangsetningu á smiðjumótornum, sem var eina vélin sem framleiddi rafmagn fyrir smiðjuna og nokkur hús að auki. Svo þegar byrjað var að útvarpa hér á landi, þá tíðkuðust útvarpstæki með þurrabatteríum og rafgeymum, yfirleitt tveggja volta. Það komu allir útvarpseigendur með rafgeyma sína og fengu þá hlaðna í smiðjunni. Og það var einmitt Gummi Tomm sem var hleðslumeistari fyrir fyrirtækið. Hann sópaði gólfin og fór í sendiferðir og gerði allan skrattann, sem daglega þarf að gera í einu fyrirtæki."

 " Eitt sinn svaf Guðmundur nafni hans eitthvað lítið einhverja nóttina."


 "Það er nú líklegt. Það var nú lengi besti brandarinn hér á Þingeyri, sko. Það var alltaf svolítill metingur milli manna. Svo var það einhverntíma snemma morguns, að þeir voru komnir inn á "kontór", topparnir, því þeir drukku alltaf kaffi þar með Guðmundi J. Sig. og Matthíasi, menn eins og Óli Hjört, Dóri á Dýrhól og Gummi Tomm. Þá snýr Guðmundur J. Sigurðsson sér allt í einu að Gumma Tomm og segir:

 "Ja, nú svaf ég bara ekkert í nótt, nafni minn."

Hinn svaraði að bragði: "Elskan mín, minna svaf ég."

 

4 daga vinnusmiðju í heimildarmyndagerð er nú nýlokið í Blábankanum. Norska kvikmyndagerðarkonan Trude Ottersen kenndi námskeiðið, en henni til halds og trausts var Ingrid Dokka frá Norður Norsku Kvikmyndamiðstöðinni. Trude byrjaði á að sýna kvikmynd sína Íshafsblóð, sögu selveiðiskipsins Havsels og áhafnar þess, og var sú sýning opin áhugasömum heimamönnum. Var lærdómur framleiðslu þeirrar myndar hryggjarstykkið í vinnusmiðjunni, en afar áhugavert var fyrir þátttakendur að fræðast um framleiðsluferli slíkrar heimildarmyndar. Þátttakendur í vinnusmiðjunni voru 14 talsins, frá Reykjavík, Ungverjalandi og Póllandi og létu þau öll vel af dvölinni á Þingeyri en rúsínan í pylsuendanum var auðvitað þorrablótsupplifunin.

Í samtali við Þingeyrarvefinn vildi Haukur húskarl hjá Blábankanum lýsa yfir sérstakri ánægju með samstarfið og stuðninginn sem fenginn var frá norður Noregi: „Við erum auðvitað þákklát og ánægð með að norski kvikmyndabransinn skuli sýna okkur Blábankafólki svona mikinn velvilja. Það er ekki sjálfgefið. Vonandi er þetta bara fyrsta skrefið í gróskumiklu samstarfi íslensks og norsks kvikmyndagerðarfólks.“

Eldri færslur
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31