A A A
  • 1966 - Kristján Gunnar Bjarnason
  • 1966 - Óskar Gunnarsson
10.12.2018 - 10:31 | Hallgrímur Sveinsson

Bolvíska blótið loksins komin úr prentvélunum

Ný bók frá Vestfirska forlaginu:

 

Í gær fór bókin Bolvíska blótið eftir Auði Hönnu Ragnarsdóttur í Bolungarvík loksins í dreifingu hjá Vestfirska forlaginu. Í bókinni er mikið af litmyndum sem mikill fengur er að. Þær eru vandasamar í prentun og hefur verkið dregist af þeim sökum. 

   Sagan segir að á bóndaginn, fyrsta degi þorra, eigi húsfreyja að gera sérstaklega vel við bónda sinn. Fyrir liðlega 70 árum tóku bolvískar eiginkonur upp þennan sið með því að halda þorrablót fyrir karla sína. Bók þessi er skemmtileg heimild í myndum og máli um þær konur sem verið hafa í nefndum á vegum blótanna og hvað þær höfðu til skemmtunar fyrir eiginmenn sína og aðra gesti. Bókin sýnir glöggt hvílíkt kvennaval hefur verið í Bolungarvik í gegnum tíðina og er enn.

   Talað hefur verið um það í nokkur ár að skrifa eigi sögu þessara mannfagnaða. Hér er komið til móts við þær raddir. Bókin er prentuð í Odda.


  

 

06.12.2018 - 09:30 | Hallgrímur Sveinsson

Jón forseti farinn að vinna að handan í gegnum hreppsnefndina!

Jón forseti á tindi manndómsáranna. Þeir sem heimsóttu þau hjón á Östervoldgade í Kaupmannahöfn, sögðu að hann hefði oft verið hrókur alls fagnaðar og farið með græskulaust gaman. Ljósm. ókunnur.
Jón forseti á tindi manndómsáranna. Þeir sem heimsóttu þau hjón á Östervoldgade í Kaupmannahöfn, sögðu að hann hefði oft verið hrókur alls fagnaðar og farið með græskulaust gaman. Ljósm. ókunnur.

Stórfrétt úr Auðkúluhreppi:

 

Gárungarnir í Auðkúluhreppi henda nú mikið gaman að hreppsnefnd sinni, en í henni eru bæði fulltrúar þessa heims og annars sem kunnugt er. Nýjustu fréttir úr Vestfirsku Ölpunum herma, að nú sé Jón Sigurðsson farinn að vinna að handan í gegnum hreppsnefnd Auðkúluhrepps. Gerist þetta þannig að forsetinn kemur á framfæri við ritara nefndarinnar ýmsum skilaboðum og heilræðum til íslensku þjóðarinnar. Eru það mál sem hann barðist fyrir á sínum tíma og eru mörg sígild. Fellur ritarinn þá í trans sem kallað er og skrifar ósjálfráða skrift.

   Í því efni er skemmst að minnast Guðmundar Kamban skálds, sem alinn var upp í Ketildölum í Arnarfirði. Hann skrifaði á yngri árum ósjálfráða skrift, þar sem ýmsir komu skilaboðum til hans úr handanheimum. 

   Stundum er talað um það, að Jón forseti sendi alþingismönnum óbein, táknræn skilaboð með einni saman nærveru sinni í standmynd sem steypt er í eir á Austurvelli fyrir framan Alþingishúsið. En þetta virðist því miður oft eins og þegar skvett er vatni á gæs. Fulltrúar þjóðarinnar, og þar með forsetans, virðast sumir ekkert mark taka á því sem hann stóð fyrir og skrifaði. Margir þeirra hafa líklega aldrei lesið staf eftir hann og vita lítið um fyrir hvað hann stóð.  

   Það flýgur fyrir hér vestra að þetta séu gamanmál sem ekkert sé að marka. En þá er að gæta að því, að öllu gamni fylgir nokkur alvara. Aðal spurningin er bara hvort Jón Sigurðsson eigi eitthvert erindi við okkur í dag. Þetta reddast allt hvort sem er!

04.12.2018 - 15:16 |

Dýrafjarðargöng 4 kílómetrar

« 1 af 3 »

Gangamenn kláruðu í vikunni gröft hliðaraýma í fyrsta útskoti Dýrafjarðarmegin og auk þess lengdust göngin um 29,1 m og náðu með því 4 km markinu. Lengd ganga Dýrafjarðarmegin er þá orðin 345,2 m sem er um 21% af Dýrafjarðarleggnum og á þá eftir að grafa um 1.298,2 m að gegnumbroti. Samanlögð lengd beggja leggja er nú orðin 4.002,8 m sem er um 75,5% af heildarlengd ganga. Mest alla vikuna var þörf á talsverðum styrkingum í þekju ganga vegna setlags sem þar var en það undir lok vikunnar komið niður í gangaveggi og gangur að vænkast. Það er þó vona á öðru og öllu þykkara setlagi von bráðar og því fyrirséð að gangagröfur gæti orðið tafsamur í lok vikunnar og þá næstu.

Auk gangagraftrar er unnið við fyllingarvinnu í veg í Dýrafirði. Efni úr göngum er keyrt beint í veg í austurendanum en efni úr námu við Ketilseyri keyrt í fyllingar í sjó í vesturendanum og hefur sú vinna gengið ágætlega þrátt fyrir leiðindaveður í lok vikunnar.

01.12.2018 - 11:11 | Hallgrímur Sveinsson

Ennþá meira nýtt frá Vestfirska forlaginu

    Þar minnast fjöll og firðir

   Ýmislegt um Gufudalshrepp hinn forna í máli og myndum

 

   Vestfirska forlagið hefur nú látið endurprenta bókina Þar minnast fjöll og firðir eftir þá Ástvald Guðmundsson verkfræðing og Lýð Björnsson sagnfræðing. Bókin veitir lesendum innsýn í líf og starf fólks í afskekktri sveit á Vestfjörðum sem lítið hefur verið fjallað um áður og er nú komin að fótum fram. Sennilega er hvergi hægt að nálgast jafn ítarlegar heimildir um Gufudalshrepp í Barðastrandarsýslu, íbúa hans, jarðir og landshætti frá fornu fari og til dagsins í dag. Mikið er af áður óbirtum ljósmyndum í bókinni, einkum af bændum og búaliði í sveitinni og mega þær teljast hvalreki. 

      Hvar er hinn heimsfrægi Teigsskógur og Hallsteinsnes? Eða Ódrjúgsháls, Himbrimavatn og Kóngatangar? Svona má endalaust spyrja. Svörin er mörg að finna í þessari bók þeirra félaga. Þetta er endurprentun sem áður segir, enda bókin löngu uppseld.

Þann 4. desember verður íbúafundur haldinn í Félagsheimilinu á Þingeyri. Hann er í beinu framhaldi af íbúaþinginu sem haldið var í mars, en nú hefur verkefnið Öll Vötn til Dýrafjarðar bæst við hér í samfélagið.

Mikilvægt er að sem flestir mæti - þetta varðar framtíðarsýn okkar Dýrfirðinga og aðgerðaráætlun.

Fundurinn hefst kl. 19:30 og er áætlað að hann taki tvær klukkustundir.
Hópurinn saman kominn ásamt Arnari þjálfara
Hópurinn saman kominn ásamt Arnari þjálfara
« 1 af 6 »

Vestfjarðameistaramótið í skylmingum 2018 fór fram í íþróttahúsinu á Þingeyri í gær. Keppt var yngri og eldri flokki og var keppnin hörð. Í yngri flokki sigraði Þrymur Rafn Andersen eftir æsispennandi einvígi við Jóhann Friðrik Kristjánsson. Í unglinga- og fullorðinsflokki sigraði Níels Friðrik Harbo eftir einvígi við Hauk Sigurðsson.

 

Hópurinn er búinn er að æfa stíft síðasta mánuðinn undir handleiðslu Arnars Sigurðssonar Blábankastjóra, en hann er fyrrum íslandsmeistari í skylmingum. Framhaldsnámskeið er áætlað á nýju ári og stefnir hópurinn allur á að halda ótrauður áfram.

 

Heyrst hefur að fleiri skylmingalið séu að skjóta upp kollinum hér á Vestfjörðum, í Bolungarvík og jafnvel í Súðavík. Það má því gera ráð fyrir að enn harðar verði barist á næsta Vestfjarðameistaramóti.

28.11.2018 - 11:32 | Hallgrímur Sveinsson

Brautryðjendur fyrir vestan

Brautryðjendur fyrir Vestan
Brautryðjendur fyrir Vestan

Ný bók frá Vestfirska forlaginu til heiðurs vestfirskum vegavinnumönnum.


Ein af þeim sjö bókum sem Vestfirska forlagið gefur út í flóðinu að þessu sinni nefnist Brautryðjendur fyrir vestan. Hún er út gefin til heiðurs vestfirskum vegavinnumönnum: Verkstjórunum, ráðskonunum, vinnukonunum, tippurunum, hefilsstjórunum, gröfumönnunum, bílstjórunum, jarðýtustjórunum, snidduhleðslumönnunum og öllum öðrum sem lögðu hönd á plóg. Þar á meðal hinum mörgu strákum sem byrjuðu sinn feril í vegavinnunni. Vegfarendur koma einnig nokkuð við sögu við ýmsar aðstæður.

   Engu er líkara en fjöldi vestfirskra vega hafi verið greyptir í landið þegar landnámsmenn komu. Svo inngrónir eru þeir landslaginu i dag. Vestfirskir vegir voru almennt snilldarlega lagðir og bera höfundum sínum gott vitni. Og hafa komið Vestfirðingum að ótrúlega góðum notum. Hvernig hefðu Vestfirðir verið án vega? Óbyggilegir. Þarf ekki annað en líta til Hornstranda í þeim efnum.

jössi við hrútakofann á Ósi forðum. Ljósm. Stefán Atli Ástvaldsson í Mjólká.
jössi við hrútakofann á Ósi forðum. Ljósm. Stefán Atli Ástvaldsson í Mjólká.
« 1 af 2 »

Hraðsamtal dagsins er úr Auðkúluhreppi:

 

Við hittum Þorbjörn Pétursson bónda á Ósi í dag. Hann var hress, þó hann sé slæmur í öxlinni eftir að hann datt úr stiga í vor.


„Þú fórst vestur á sunnudaginn eð var. Hvernig var færðin?“

   „Hún var svona í meðallagi. Það var hola-hola-hola hola frá Hrafnseyri inn að Hjallkárseyri. Svo sæmilegt úr því og Mjólkárhlíð og Búðavíkurhlíð vel sæmilegar. Það voru miklir vatnavextir um þessa helgi. Allt á floti við bráðabirgðabrúna á Hófsá og efnishaugar vegna Dýrafjarðarganga í hættu. En allt bjargaðist þetta. Á Urðarhlíð utan Dynjanda voru komin skörð í veginn.“

  
„Þú hittir Guðmund Björgvinsson yfirverkstjóra hjá Vegagerðinni og Magnús Sigurðsson gröfustjóra á gröfunni við viðgerðir á Urðarhlíðinni?“

   „Já. Og Guðmundur sagði mér að frú Lilja á Laugabóli hefði farið fram á að vegurinn  yrði lagaður. Það er nefnilega þannig, að þegar frú Lilja kvartar við Gumba yfirverkstjóra, þorir hann ekki annað en hlaupa til og laga strax það sem hún heimtar.“

  
„Og það var sett þessi flotta brú á Ósána fyrir tveimur árum, ekki satt“

   „Frú Lilja rassskellti þá hjá Vegagerðinni og þá settu þeir nýja brú á Ósána eins og skot! Ég gaf henni nafnið Liljubrú og það skal hún heita. Svona konur ættu bara að fara á þing!

  
„Sástu eitthvað af fé?“

  „Nei, enga kind hvorki á mínu svæði né annarsstaðar. Hvorki álfakindur né óheimtar. Aftur á móti sagði hann Barði bóndi á Innri-Múla á Barðaströnd mér, að þeir á laxabátnum frá Bíldudal hefðu séð um 30 fjár vestur á hlíðum sem kallað er, frá Steinanesi að Krosseyri í Geirþjófsfirði“.

   
„Hittirðu nokkuð fjárræktarmanninn í Mjólká í þinni ferð núna?“

   „Nei, ég hitti nú ekki fjárræktarmanninn að þessu sinni.“

  
„Hvernig líst þér á að engin sauðkind skuli nú vera á fóðrum í Auðkúluhreppi?“

   „Það er ömurlegt. En er þetta ekki allt að fara svona?“

  
„Hvað er til ráða?“

   „Ég bara veit það ekki. Þeir þarna fyrir sunnan virðast vilja hafa nokkur stórbú á landinu og búið. Þetta var ég búinn að segja fyrir 20–30 árum.“

  
„Hvernig finnst þér ferðamennskan?“

   „Mér finnst orðið of mikið af ferðafólki. Til dæmis úti á vegum liggur við að Íslendingar týnist innan um þá. En hún er sæmileg fyrir bændur sem eru með bændagistingu og slíkt.“

  
„Svo að lokum, Bjössi. Hvernig líkar þér að búa á Þingeyri yfir veturinn?“

   „Mér finnst það svona frekar undir meðallagi. Það er alveg hægt að vera einangraður og einmana í þéttbýlinu. En ég varð ekki var við einangrun eða einmanaleika meðan maður bjó við féð fyrir vestan. Jafnvel þó allt væri lokað  og bara póstbáturinn yfir veturinn.“

Eldri færslur
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31