jössi við hrútakofann á Ósi forðum. Ljósm. Stefán Atli Ástvaldsson í Mjólká.
Liljubrú á Ósá í Mosdal í Arnarfirði. Fallegt og traust mannvirki. Ljósm. Guðmundur R. Björgvinsson.
Hraðsamtal dagsins er úr Auðkúluhreppi:
Við hittum Þorbjörn Pétursson bónda á Ósi í dag. Hann var hress, þó hann sé slæmur í öxlinni eftir að hann datt úr stiga í vor.
„Þú fórst vestur á sunnudaginn eð var. Hvernig var færðin?“
„Hún var svona í meðallagi. Það var hola-hola-hola hola frá Hrafnseyri inn að Hjallkárseyri. Svo sæmilegt úr því og Mjólkárhlíð og Búðavíkurhlíð vel sæmilegar. Það voru miklir vatnavextir um þessa helgi. Allt á floti við bráðabirgðabrúna á Hófsá og efnishaugar vegna Dýrafjarðarganga í hættu. En allt bjargaðist þetta. Á Urðarhlíð utan Dynjanda voru komin skörð í veginn.“
„Þú hittir Guðmund Björgvinsson yfirverkstjóra hjá Vegagerðinni og Magnús Sigurðsson gröfustjóra á gröfunni við viðgerðir á Urðarhlíðinni?“
„Já. Og Guðmundur sagði mér að frú Lilja á Laugabóli hefði farið fram á að vegurinn yrði lagaður. Það er nefnilega þannig, að þegar frú Lilja kvartar við Gumba yfirverkstjóra, þorir hann ekki annað en hlaupa til og laga strax það sem hún heimtar.“
„Og það var sett þessi flotta brú á Ósána fyrir tveimur árum, ekki satt“
„Frú Lilja rassskellti þá hjá Vegagerðinni og þá settu þeir nýja brú á Ósána eins og skot! Ég gaf henni nafnið Liljubrú og það skal hún heita. Svona konur ættu bara að fara á þing!
„Sástu eitthvað af fé?“
„Nei, enga kind hvorki á mínu svæði né annarsstaðar. Hvorki álfakindur né óheimtar. Aftur á móti sagði hann Barði bóndi á Innri-Múla á Barðaströnd mér, að þeir á laxabátnum frá Bíldudal hefðu séð um 30 fjár vestur á hlíðum sem kallað er, frá Steinanesi að Krosseyri í Geirþjófsfirði“.
„Hittirðu nokkuð fjárræktarmanninn í Mjólká í þinni ferð núna?“
„Nei, ég hitti nú ekki fjárræktarmanninn að þessu sinni.“
„Hvernig líst þér á að engin sauðkind skuli nú vera á fóðrum í Auðkúluhreppi?“
„Það er ömurlegt. En er þetta ekki allt að fara svona?“
„Hvað er til ráða?“
„Ég bara veit það ekki. Þeir þarna fyrir sunnan virðast vilja hafa nokkur stórbú á landinu og búið. Þetta var ég búinn að segja fyrir 20–30 árum.“
„Hvernig finnst þér ferðamennskan?“
„Mér finnst orðið of mikið af ferðafólki. Til dæmis úti á vegum liggur við að Íslendingar týnist innan um þá. En hún er sæmileg fyrir bændur sem eru með bændagistingu og slíkt.“
„Svo að lokum, Bjössi. Hvernig líkar þér að búa á Þingeyri yfir veturinn?“
„Mér finnst það svona frekar undir meðallagi. Það er alveg hægt að vera einangraður og einmana í þéttbýlinu. En ég varð ekki var við einangrun eða einmanaleika meðan maður bjó við féð fyrir vestan. Jafnvel þó allt væri lokað og bara póstbáturinn yfir veturinn.“