A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
15.01.2019 - 13:36 | Hallgrímur Sveinsson

„Það var minn besti róður“

Leifur Þorbergsson
Leifur Þorbergsson

Úr fylgsnum fortíðar.

 

Leifur Þorbergsson, skipstjóri á Þingeyri, var nafnkunnur maður hér vestra á sinni tíð. Síra Gunnar Björnsson tók við hann viðtal sem birtist í Heima er best í apríl 1992. Nefnist það Lét vera að elta aðra, en fór mínar eigin leiðir. Þar segir Leifur undan og ofan af ævi sinni og Gunnar prestur skráir á sinn frábæra hátt. Gefum nú Leifi orðið:

„Það var minn besti róður“

„Sú sjóferð sem skærast lýsir í minningu minni átt sér stað, er við fórum hér á færabátnum Flosa í fiskiróður út af Dýrafirðinum árið 1958 eða 1959. Vinur minn, Egill Halldórsson frá Dýrhól, hafði komið hér að á opnum báti kvöldið áður með 400 kíló af fiski.

Við ýttum frá og vorum þarna dálítið út af Barðanum í  norðaustan bræluskít. Þar var og annar bátur frá Þingeyri, sem Sæfari hét. Hann siglir í átt til okkar, en svo sjáum við, að þeir hverfa upp í Fjörð, og við tökum ekkert mark á því meira. En svo er ekkert næði þarna lengur til þess að vera með færin úti, svo ég segi við strákana: 

„Farið þið bara fram í strákar. Ég ætla að kippa hérna upp á Sandvíkina undir Barðanum.“ 

Svo förum við að keyra upp. Þá sé ég einhverja trillu þarna og hugsa með mér:   Getur Egill verið kominn út aftur. En í sama bili sé ég, að þetta er bátur á hvolfi niðri í öldudal og mennirnir á kilinum. Ég kalla óðara í strákana, sem komnir voru í koju frammi í lúkar. Þeir koma upp. Og ég legg að þessu. Mér finnst þeir vera að benda mér, að ég eigi að leggja uppí. Þeir troða marvaðann og halda bátnum, annar framan á, hinn aftan á. Ég legg svo að þeim þarna upp í báruna og gengur ágætlega að ná þeim inn. En báturinn fór náttúrlega niður, hann þoldi ekki, að þeir hreyfðu sig á kilinum. Og þegar Héðinn skellur á dekkinu, þá segir hann:

„Nú munaði mjóu.“

Þetta voru þeir Skarphéðinn Njálsson, sem enn er á lífi hér á Þingeyri, og Jón Árnason, hálfbróðir Kristmundar í Hvammi. Jón lifir enn, sjúklingur á Akranesi.

Þetta álít ég að hafi verið minn besti róður.

Ég fékk líka þakklæti fyrir þessa björgun í messu hjá séra Stefáni Eggertssyni í messu á sjómannadaginn.“

  

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31