A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
06.02.2019 - 16:16 |

Bæjarstjórnarfundur á Þingeyri

Fundur bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar verður á morgun haldinn í Blábankanum á Þingeyri og hefst klukkan 17. Hálftíma fyrr býðst íbúum að hitta bæjarfulltrúa á sama stað yfir óformlegu spjalli ef áhugi er fyrir hendi. Minnt er á að fundir bæjarstjórnar eru opnir gestum.
06.02.2019 - 15:20 |

Þorrablótið 2019

Magnús og Eyjólfur Laufdal
Magnús og Eyjólfur Laufdal

Þorrablót Slysavarnardeildarinnar Varnar og Björgunarsveitarinnar Dýra var haldið í Félagsheimilinu á Þingeyri á laugardaginn var. Mikil lukka var með viðburðinn, vel var sótt og setið var í öllum krókum og kimum. Var mál manna að maturinn hafi verið góður, en auk hefðbundins þorramats var boðið uppá lambapottrétt og kjúkling. Tónlistarkennarinn Jón Gunnar Biering var veislustjóri og skemmtinefndin kom með heimatilbúin skemmtiatriði á færibandi. Fengu gestir þar að rifja upp kynni sín af hinum ýmsu karakterum, m.a. hinum ógleymanlegu Magnúsi og Eyjólfi Laufdal. Að borðhaldi loknu tók hljómsveitin Hafrót við stjórnartauminum og lék hress lög fyrir dansi langt framá nótt.


04.02.2019 - 13:03 |

Íslandsmet í gangagreftri

« 1 af 2 »

Nýtt met var slegið í gangagreftri í vikunni sem leið þegar göngin lengdust um 111,0 m og er það einnig nýtt íslandsmet; til hamingju verktakar!

Lengd ganga Dýrafjarðarmegin er þá orðin 796,8 m og samanlögð lengd ganga 4.454,4 m sem er 84,0% af heildarlengd. Lengd að gegnumbroti er nú 846,6 m.

Framundan er næst síðasta útskotið og verður framvinda því hægari en ella en hver veit, þegar vinnu við útskot líkur, nema enn eitt metið verði slegið á komandi vikum.

01.02.2019 - 14:20 | Hallgrímur Sveinsson

Borðum okkur ekki í gröfina og lifum lengur

Helga Arnardóttir sjónvarpskona. Ljósm. mbl.is.
Helga Arnardóttir sjónvarpskona. Ljósm. mbl.is.
« 1 af 2 »

Í dagsins önn:

 

"Já, nei, sko, sjáðu til, væni. Stór hluti af þessu liði þarna á spítölunum er þar vegna þess að það hefur étið yfir sig. Og svo kýs það íhaldið góði!"

Sá sem mælti svo spaklega fyrir nokkrum árum var enginn annar en þáverandi sóknarherra til Vatnsfjarðaþinga, síra Baldur Vilhelmsson í Vatnsfirði. Óvíst er hvort stórum vanda íslenska heilbrigðiskerfisins í dag hafi verið lýst betur í jafn fáum orðum. Þessi eftirminnilegu orð Vatnsfjarðarklerks, sem raunverulega var sálfræðingur ef út í það væri farið, hafa nú hlotið staðfestingu svo um munar. Burtséð þó frá íhaldinu!


Nýlega komu nefnilega inn í Sjónvarp Símans Premium átta nýir heimildarþættir eftir Helgu Arnardóttur sjónvarpskonu undir yfirskriftinni Lifum lengur. Að sögn Helgu er um faglega umfjöllun að ræða, þar sem rætt er við vísindamenn, sérfræðinga og lækna sem horfa áhyggjufullir upp á alvarlegan heilsubrest í samfélaginu vegna óheilbrigðs lífsstíls. „Við erum að borða okkur í gröfina og hreyfa okkur ekki í gröfina, ef svo má að orði komast, og mikilvægt að grípa hratt og örugglega í taumana,“ segir Helga á mbl.is en einnig er rætt við venjulegt fólk um reynslu þess. 


Semsagt: Orsök alvarlegs heilsubrests er ofát oft á tíðum og afleiðingin mjög oft spítalavist. Hvað sagði ekki síra Baldur! En hann var sjálfur mat- og lífsnautnamaður eins og margir muna. Þannig að hann vissi hvað hann söng!

31.01.2019 - 20:42 | Hallgrímur Sveinsson

Minning um nýja lárviðarskáldið og flautuleikarann

Lárviðarskáldið er ekki bara skrifandi maður, heldur afbragðs teiknari og málari. Þessa mynd, ásamt fleirum, skildi hann eftir á Brekkugötunni.
Lárviðarskáldið er ekki bara skrifandi maður, heldur afbragðs teiknari og málari. Þessa mynd, ásamt fleirum, skildi hann eftir á Brekkugötunni.

Í spegli tímans:

 

Það var fyrir rúmlega 30 árum. Þá var Hallgrímur Helgason, nýjasta lárviðarskáldið okkar, útvarpsstjóri Útvarps Manhattan í New York. Vorum við nafnar lítillega kunnugir. Einhvern veginn æxlaðist það þannig, að hann og þáverandi sambýliskona hans, Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari, nú heimskunn, fengu inni í íbúðarhúsi okkar hjóna að Brekkugötu 48 á Þingeyri. Höfðu það til ráðstöfunar í heilu lagi um sumartíma sem þau dvöldu hér uppi á landinu.

Hann sat við skriftir og hún æfði sig á flautuna. Fór það flautuverk aðallega fram niðri í vaskahúsinu, eða jafnvel úti í garði. Var það auðvitað til að trufla nú ekki væntanlegt Nóbelsskáld. En nágrannarnir höfðu gaman af þó stundum væri svolítið ískur þegar farið var upp og niður skalann. Stóð jafnvel til að Áshildur spilaði fyrir fólkið í íshúsinu, sem þó varð nú ekki af einhverjum ástæðum. 

Nú. Leigumálinn var mjög einfaldur: Þau áttu að koma yfir á Hrafnseyri eftir efnum og ástæðum og hjálpa okkur við heyskapinn upp á hrífur. Raka hringinn sem kallað var, snúa heyi, hjálpa til í hlöðunni og svona. Mjög rómantískt. Aldrei tókst þeim þó að greiða þessa okurleigu. Það kom til af því að það mátti heita að ekki stytti upp allt sumarið. Það var rigning, rigning, rigning. Komust aðeins í heyskap í 2-3 daga. Svona var nú þetta. En minningin lifir!

28.01.2019 - 14:29 |

Selveiðibíó í Blábankanum

Sem hluti af heimildamyndavinnustofu Blábankans verður kvikmyndin Sealers / Ishavsblod sýnd á miðvikudagskvöldið kl. 20. Trude Ottersen, annar leikstjóra myndarinnar, verður á staðnum.

Kvikmyndin fjallar um síðustu veiðiferð selveiðiskipsins Havsels, en margir Vestfirðingar kannast við það eftir að það kom við í Ísafjarðarhöfn á hverju vori um árabil meðan á fræknum veiðiferðum þess stóð við Grænlandsísinn.

Stiklu má sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=i_wGuI5IUIM

Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

28.01.2019 - 14:00 |

Dýrafjarðargöng á 4. viku 2019

Vinna við Dýrfjarðargöng gekk vel í vikunni, áfram var grafið í gegnum sama stórstuðlaða basaltlagið og síðustu viku. Vikuframvindan var 83,7 m, þar með er leggurinn Dýrafjarðarmeginn orðinn 658,8 m langur, samanlögð lengd ganga er 4.343,4 m eða 81,9% af heildarlengd, sem þýðir að nú er innan við 1 km að gegnumslagi, eða 957,6 m.

Vegagerðin potaðist ágætlega áfram í vikunni og nú er skammt í að fyllingin frá göngunum nái heim að vinnubúðasvæðinu, eins og sást ágætlega á myndum af Þingeyrarvefnum í vikunni.
Á miðvikudaginn var opnað yfir í Arnarfjörð til að flytja búnað og efni í frárennslislagnir.

Meðfylgjandi eru myndir úr Arnarfirði og svo úr blíðunni í Dýrafirði síðustu viku.

24.01.2019 - 11:45 |

Brauðpeningur kominn heim

Brauðpeningurinn kominn heim í Þingeyrar Bakarí
Brauðpeningurinn kominn heim í Þingeyrar Bakarí

Fyrir skömmu síðan spunnust skemmtilegar umræður á Facebook síðunni Mynthringar og alls konar þegar þar birtist mynd af stórmerkilegum smápeningi merktum „Þingeyrar Bakarí - 1 Rúgbrauð“.

 

Hörður Óskarsson, eigandi peningsins, bauðst þá til að senda peninginn aftur „heim“ og þáði Blábankinn það með þökkum, enda með rammgirta peningahirslu innanhúss sem hæfir vel til að geyma svona gersemar. Er Herði færðar bestu þakkir fyrir sendinguna.

 

Gestum og gangandi er velkomið að koma við í Blábankanum og skoða peninginn.

 

En hvað er Brauðpeningur? Í Morgunblaðinu 30. október 1998 birtist afar góð grein með fyrirsögninni „Dýrmætur peningur á Brauðfótum”. Við birtum hana hér að neðan, til gagns og gamans:

 

——

 

„BRAUÐPENINGUR“ hljómar í eyrum sem frekar ótraustur gjaldmiðill en er í raun nánast gulls ígildi. Og þó stendur hann á brauðfótum! Það er að segja, "myntfótur" hans, eins og lögákvörðuð undirstaða gjaldmiðils er kölluð, var á sínum tíma miðaður við brauð en ekki gull eða aðra tryggingu ríkis sem stendur fyrir myntsláttu eða prentun peningaseðla. 

 

Það eru ekki margir núlifandi Íslendingar sem muna þegar þessi gjaldmiðill var í notkun hér á landi frá því skömmu fyrir síðustu aldamót og líklega fram undir 1930. Þessir peningar, bæði mynt og seðlar, voru ein tegund „vörupeninga“ sem notaðir voru sem gjaldmiðill hér á landi frá miðri síðustu öld og fram á okkar, vegna skorts á peningum í umferð. Vegna þessa hörguls réðust einstakir kaupmenn í að slá eigin mynt eða gefa út seðla sem síðan var hægt að innleysa vörur í verslunum þeirra og ekki annars staðar.

 

Bakarar hófu að gefa út brauðpeninga laust fyrir aldamót sem ýmist voru úr málmi eða pappa. Sumir peningarnir voru frumstæðir að gerð en aðrir gerðir af hagleik. Viðskiptavinir afhentu bakaranum mjölsekki og fengu brauðpeninga fyrir sem þeir notuðu síðan til að innleysa brauðhleifa. Verðgildi brauðpeninganna var ekki tiltekið en andvirði þeirra var oftast eitt brauð, stundum hálft. Á þá var ýmist letrað „rúgbrauð“, eða „brauð“.

 

Lítið hefur varðveist af brauðpeningum og eru ýmsar útgáfur þeirra fágæti. Þjóðminjasafnið og Seðlabankinn eiga safn brauðpeninga en inn í þau söfn vantar útgáfur, hugsanlega fleiri en tvær, og stundum er um að ræða einu eintökin sem vitað er um.

 

Þingeyrarbakaríspeningar

 

Ólafur Steinsson er einn fárra einstaklinga sem enn eiga brauðpening og sem man eftir því þegar brauðpeningar voru í notkun. Hann er fæddur 1917 og vann á sínum tíma, á þriðja áratug aldarinnar, í bakaríi föður síns á Þingeyri, Steins Ólafssonar, sem fæddist 21. október 1876. Hann hafði keypt bakaríið af Proppé-bræðrum, þeim miklu athafnamönnum. Á peningnum stendur „Þingeyrarbakarí“.

 

„Það hét „Félagsbakaríið“ þegar peningurinn var gefinn út,“ segir Ólafur. „Svo keypti faðir minn bakaríið 1911 eða 1912, ef ég man rétt. En þá var búið að slá þennan pening, sennilega rétt eftir aldamótin.“ 

 

Ólafur kvaðst ekki vita hvað margir peningar voru slegnir. „En þegar við skiptum búinu hafa líklega verið til eins og um þrjú hundruð peningar.“ Ólafur segist síðan fyrr á árum, þegar erfitt var að fá gjaldeyri til utanlandsferða, hér heima hafa notað brauðpeninga sem gjaldmiðil úti í Danmörku. Hann treystir sér ekki til að segja hversu mikið fékkst fyrir peninginn. „Hann gaf nefnilega heilmikið, miðað við það að fá danskar krónur.“

 

Á myntinni hans Ólafs er letrað orðið „Rúgbrauð“ en eitt slíkt fékkst fyrir hann. „Um var að ræða 6 punda hleifa! Í þá daga borðaði fólk mest rúgbrauð, franskbrauð var bara til hátíðabrigða eða um helgar. Aðalhollustan var í rúgbrauðinu, hitt var sunnudagsglaðningur. Ef fólkið vildi síðan fá bara hálft brauð, lét það myntina af hendi og fékk stimplaðan miða fyrir hálfu brauði á milli. Hann var stimplaður með kórónu og svo bara " " hinum megin! Svo varð að passa upp á að tína ekki miðanum.

 

Til þess að fá brauðpeninga kom fólk með mjölsekki, mig minnir að það hafi verið svona hundrað kílóa sekkir. Ég man bara ekki hvað margir peningar fengust fyrir hvern sekk. Þetta þurfti náttúrlega að passa eins og gull.“

 

Ólafur kannast ekki við að brauðpeningar hafi verið gefnir út sem fátækrahjálp, eins og tíðaðist í einhverjum sveitarstjórnum á krepputímum. „Nei, vestur á Þingeyri var ekki svo mikil fátækt. Þetta var uppgangspláss á sínum tíma. Þegar bræðurnir Proppé voru upp á sitt besta eins og sagt er.“

 

Geymdir í banka

 

Höskuldur, bróðir ólafs, tók við bakaríinu af föður þeirra en sjálfum leiddist Ólafi í brauðgerðinni. „Ég vann í bakaríinu fram yfir tvítugt en kom svo hingað suður í Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1941. Mér leiddist svo í bakaríinu að ég ætla ekki að segja það hvernig mér leið.“ Hann lauk þar námi 1943 og gifti sig Unni Þórðardóttur frá Bjarnastöðum í Ölfusi. Þau reistu saman garðyrkjustöð í stríðslok. „Við seldum hana 1984 og höfum síðan verið að leika okkur úti um allan heim,“ segir Ólafur og brosir.

 
Ólafur segist ekki hafa hugmynd um verðmæti peningsins í dag enda hafi hann ekki hreyft hann í mörg ár heldur geymi hann á öruggum stað í banka. Hjá Frímerkjamiðstöðinni fengust þær upplýsingar að meðalverð fyrir eintakið væri um 2.000 krónur en gæti verið mun meira.

Nánari upplýsingar um brauðpeninga er að finna í Afmælisriti Landssambands bakarameistara sem gefið var út 1984 og inn á heimasíðu Samtaka iðnaðarins: www.si.is.

Eldri færslur
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31