A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
Setið í snúningsútskotinu
Setið í snúningsútskotinu
« 1 af 5 »

Í vikunni var haldið áfram með gröft í fyrsta útskotinu Dýrafjarðarmeginn. Einungis var sprengd ein stutt færa, 2,8 m löng, í veggöngunum sjálfum í víkkuðu sniði en annars var grafið í hliðarrýmum. Í lok viku 47 var lengd ganganna í Dýrafirði 316,1 m sem er 19,2% af leggnum sem er eftir og er búið að grafa í heildina 75,0% af göngunum. Klárað var að grafa fyrir neyðarrými og tæknirými, samtals 32,9 m. Að auki voru grafnir 23,2 m í snúningsútskoti. Samtals voru því grafnir 56,1 m í hliðarrýmum og í heildina voru grafnir 58,9 m. Í veggöngunum og í snúningsútskotinu er um 1,0-1,5 m þykkt setlag í þekjunni sem kallar á auknar styrkingar ásamt því að farið er styttra í hverri sprengingu. 

 

Efnið í göngunum hefur verið keyrt í vegfyllingar sem koma út frá munnanum og er búið að fylla í veginn á rúmlega 150 m kafla. Í Dýrafirði var einnig unnið við vegagerð á hinum enda vegarins við þverunina yfir Dýrafjörð. Þar er búið að fylla í veginn á tæplega 250 m kafla. Enn á eftir að hækka fyllinguna töluvert á báðum stöðunum.

 

Í göngunum Arnarfjarðarmeginn var klárað að styrkja hægri vegg ganganna. Liggur þar næst fyrir að hefja vinnu við lagningu fráveitulagna.

 

Syðri stöpull brúarinnar fyrir Hófsá var steyptur á miðvikudeginum.

Ný bók frá Vestfirska forlaginu:

 

Út er komin hjá Vestfirska forlaginu bókin Fiskur að handan eftir Sigvalda Gunnlaugsson. Hann var fæddur og uppalinn í Hofsárkoti í Svarfaðardal. Var bóndi á þeim bæ í rösk þrjátíu ár og vann þar enn kominn á áttræðisaldur. 

   Í skóla á Laugum, hjá Arnóri skólasjóra, kviknaði áhugi til skrifta, um fólkið í landinu og örlög þess. Brauðstrit búskaparára olli því að fátt varð um skriftir um langan aldur. En þegar ellin færðist yfir og hans var ekki lengur þörf í fjósi, hóf Sigvaldi að rita minningar frá atburðum æsku sinnar og frásögnir af viðburðum á langri ævi. 

   Bókin er samstarfsverkefni Vestfirska forlagsins og systkinanna frá Hofsárkoti. Hún er prentuð í Ásprenti á Akureyri.

Tónlistarkonan Shhh
Tónlistarkonan Shhh
« 1 af 2 »

Jólabjórinn er mættur í Simbahöllina og á laugardagskvöldið verður barinn opinn. Bragða má þá á jólabjór sem og nýjasta vestfirka bjórnum frá Dokkunni. Kanadíska tónlistarkonan Shhh mun einnig stíga á stokk og leika nokkur lög.


15. og 16. desember verður svo boðið uppá smørrebrød uppá danska mátann, en þetta er fjórða árið sem þau í Simbahöllinni bjóða uppá það fyrir jólin. Að sögn Janne Kristensen, smurbrauðsmeistara Simbahallarinnar, taka þau enga sénsa á nýjungum í smørrebrøds heiminum heldur halda þau sig við gamalreyndar uppskriftir sem slegið hafa í gegn kynslóð eftir kynslóð.


21.11.2018 - 09:46 |

Jólamarkaður í Félagsheimilinu

Frá síðasta jólamarkaði.
Frá síðasta jólamarkaði.
Jólamarkaður verður í Félagsheimilinu nú á laugardaginn 24. nóvember frá kl. 13-16. Tilvalið fyrir þá sem vilja selja hluti eða eru að leita að jólagjöfum fyrir fjölskyldu og vini.

Þeir sem liggja á hvers konar söluvarningi eru hvattir til að koma og vera með söluborð, en slíkt kostar aðeins 1500 krónur.

Það verður heitt kakó og kaffi á könnunni, en allur ágóði rennur í endurbótasjóð Félagsheimilisins. Mætum öll og sköpum jólamarkaðsstemmingu á Þingeyri.
21.11.2018 - 08:36 | Hallgrímur Sveinsson

Miklar hræringar á hlutabréfamarkaðnum í Auðkúluhreppi

Myndin er tekin á toppi Ánarmúla og sýnir dýrlegt útsýni til Bíldudals og Ketildala. Ljósm. Ólafur heitinn Gíslason, Neðrabæ í Selárdal.
Myndin er tekin á toppi Ánarmúla og sýnir dýrlegt útsýni til Bíldudals og Ketildala. Ljósm. Ólafur heitinn Gíslason, Neðrabæ í Selárdal.

Fréttaritari vor í Auðkúluhreppi símar:


Í dag lék allt á reiðiskjálfi í Kauphöllinni í Auðkúluhreppi í Arnarfirði. Hlutabréf í mörgum félögum skiptu um eigendur og er nánast ómögulegt að átta sig á þeim sviptingum öllum. Hvað þá að nokkur maður viti almennilega á hvaða verði bréfín fóru.

Eignarhaldsfélagið Puntstrá ehf. Samvinnufélag, sem er 49% í eigu Gríms grallara, forstjóra Ánarmúla ehf og 50% í eigu Karls Karlssonar á Karlsstöðum, forstjóra Glímufélagsins Hlaðseyrar hf en 1% eru í eigu almennra félagsmanna, mun eignast alla hluti í Ufsum hf., sem fer með 40,3% eignarhlut í Hjallkárseyri hf, sem er 90% í eigu Rauðs á Rauðsstöðum, samkvæmt kaupsamningi þess efnis, að því er segir í áríðandi fréttatilkynningu frá Hlutabréfamarkaði Auðkúluhrepps.

Urðarhlíð hf hefur til þessa verið 50,12% í eigu Skóga ehf. og 49,88% í eigu Gíslaskers sf, en samningur milli félaganna gerir ráð fyrir að Ánarmúli ehf. taki við öllum hlutum Dynjanda II í Skógum ehf.

Þá hefur núverandi hluthöfum Dynjanda II verið veittur kaupréttur á sama viðskiptagengi til 29. febrúar 2019, á þeim hlutum sem undir voru í viðskiptunum. Samkvæmt tilkynningu frá Hlutabréfamarkaði Auðkúluhrepps má rekja tilurð viðskiptanna til þess að líftími Dynjanda II mun renna sitt skeið á næsta ári. Og þá skipta þeir um kennitölu. Úff!

19.11.2018 - 22:19 |

Laufás 30 ára

Leikskólinn Laufás fagnaði í dag 30 ára afmæli og buðu kennarar, nemendur og aðstandendur til heljarinnar veislu. Nemendur skólans höfðu æft nokkur lög sem þau fluttu við góðar undirtektir gesta og þvínæst var boðið uppá fiskaföndur. Gómsætar kökur og ilmandi kaffi voru á boðstólnum og var ekki annað að sjá en mikil ánægja hafi verið með viðburðinn allan.

Þingeyrarvefurinn sendir Laufás bestu afmæliskveðjur.

18.11.2018 - 21:00 |

Vika 46 í Dýrafjarðargöngum

Hiti og umtalsverð úrkoma um helgina varð til þess að það flæddi yfir bráðabirgðaveg í Arnarfirði auk þess sem efnishaugar verktakans voru í mikilli hættu vegna vatnavaxta í Hófsánni og þurfti verktaki að bregðast hratt við til að varna því að áin skolaði efnishaugum út í sjó.

Gangagröftur í Dýrafirði gekk vel í vikunni endaþótt setlag væri að læða sér niður í gangasniðið síðustu dagana sem hægði á greftrinum. Í byrjun vikunnar var komið að fyrsta útskoti Dýrafjarðarmegin og því búið að grafa í víkkuðu sniði mest alla vikuna. Í lok vikunnar var útskotið langt komið og í heild grafnir 55,2 m í vikunni. Lengd ganga Dýrafjarðarmegin er þá orðin 313,3 m sem er um 19,1% af því sem eftir er að grafa sem er nú um 1.330,1 m. Samanlögð lengd beggja leggja er nú orðin 3.970,9 m sem er um 74,9% af heildarlengd ganga.

Í Dýrafirði var einnig unnið í vegagerð og hóf verktaki fyllingarvinnu í sjó við gatnamótin við Dýrafjarðarþverunina með efni úr Ketilseyrarnámu.

Í Arnarfirði er áfram unnið við lokastyrkingar á hægri vegg ganga og bindur verktaki vonir um að þeirri vinnu ljúki í næstu viku. Ástæða þess að verktaki vinnur eingöngu í öðrum veggnum er sú að í vetur hyggst verktaki vinna við lagningu fráveitulagnar sem er hægra megin í göngunum og styrkingarnar gerðar til að tryggja öryggi starfsmanna við þá vinnu. Eftir gegnumbrot mun verktaki síðan hefja vinnu við lokastyrkingar á hinum vegg ganga.

Á Arnarfirði hefur verktaki einnig unnið við brúarvinnu og var uppsláttur og járnabending eystri stöpuls Hófsárbrúar langt kominn í lok vikunnar.

Blábankinn
Blábankinn
Á mánudag milli kl. 9 og 10 munu Margrét Halldórsdóttir, sviðstjóri skóla- og tómstundasviðs og Guðrún Birgisdóttir, skóla- og sérkennsluráðgjafi Ísafjarðarbæjar vera í Blábankanum. Dýrfirðingar geta þá komið og rætt við þær um leik- og grunnskóla, íþrótta- og tómstundamál.
Eldri færslur
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31