A A A
  • 1921 - Þorlákur Ó Snæbjörnsson
  • 1956 - Sigrún Guðmundsdóttir
16.11.2018 - 15:16 |

Þemadagar í Grunnskólanum

Elsta stig með kort af Eyjaálfu
Elsta stig með kort af Eyjaálfu
« 1 af 5 »

Í tilefni dags íslenskrar tungu voru foreldrum og velunnurum Grunnskólans á Þingeyri boðið að koma að sjá afrakstur þemadaga grunnskólans. Þemað á þessu skólaári er “Heimurinn okkar-áhugaverðir staðir”, en yngsta stig vann með Ísland, mið stig með Evrópu og elsta stig Ástralíu. Opna húsið var vel sótt og góður rómur gerður að vinnu nemendanna.

15.11.2018 - 11:01 | Hallgrímur Sveinsson

Brotist inn í Kaupfélag Dýrfirðinga, útibú á Auðkúlu

Hreinn Þórðarson, eigandi Verslunarhúss Kaupfélags Dýrfirðinga á Auðkúlu.
Hreinn Þórðarson, eigandi Verslunarhúss Kaupfélags Dýrfirðinga á Auðkúlu.

Stórfrétt úr Auðkúluhreppi:

 

Sá fáheyrði atburður varð um daginn að brotist var inn í Kaupfélag Dýrfirðinga, útibú á Auðkúlu í Auðkúluhreppi, Arnarfirði. Þetta kom öllum í opna skjöldu að sjálfsögðu. Útidyrahurðin að verslunardeildinni á miðhæðinni var brotin upp. Það dugði ekki til þó fyrir henni sé Yale smekklás, einn af þessum gömlu góðu, sem enn fást líklega í Brynju á Laugaveginum. Er skemmst frá að segja að engu var stolið svo séð verði. Eitthvað var þó  gengið frjálslega um innanstokksmuni. Var jafnvel eins og einhver hefði lagt sig í sóffann sem þar er. Málið er í rannsókn hjá Rannsóknarlögreglu Auðkúluhrepps. Lögreglustjórinn þar, Ólafur V. Þórðarson, varðist aðspurður allra frétta af málinu. Er það skiljanlegt, þar sem enn stendur yfir rannsókn á stóra olíumálinu sem frægt varð fyrir nokkrum misserum þar í sveit.

   Frá því er að segja, að það hefur flogið fyrir að hefja eigi verslunarrekstur aftur í gamla kaupfélagshúsinu. Hreinn Þórðarson, hreppstjóri og Grímur á Eyrinni, léttadrengur hjá Vestfirska forlaginu, hafa verið að undirbúa að opna verslun þar. Meina þeir víst að með opnun ganganna verði Auðkúluhreppur um þjóðbraut þvera. Hyggjast þeir vera með nýlenduvörur svo sem niðursoðna ávexti, sveskjur, rúsínur, hveiti, kaffi og sykur út í það, eiginlega sitt pundið af hvoru. Og svo að sjálfsögðu Freyju og Sóló karamellur, gráfíkjur, lakkrís og Nikk Nakk, gladíólur og karíóka. Og  náttúrlega Bækurnar að vestan, sem allir eru brjálaðir í þó ekki séu það glæpasögur. Svo verða þeir félagar að sjálfsögðu með límonaði. Þeir eru víst orðnir einkaumboðsmenn hér á landi fyrir Niðaróss-gosdrykkja-og límonaði-fabrikku-útibú í Niðarósi í Noregi. Príma vara! Fínir prísar eins og hjá Bör forðum.

   Gárungarnir í Auðkúluhreppi segja að innbrotsmennirnir hafi verið búnir að frétta það sem er á döfinni hjá þeim félögum. Segja þeir að grunur leiki á að delíkventarnir hafi ætlað að byrgja sig upp af kólóníalvöru og bókum. En þeim varð ekki kápan úr því klæðinu, því það var ekki búið að leysa út vörurnar á pósthúsinu. Þetta er náttúrlega allt á póstkröfu!

    Svo segja lausafregnir að hinir gömlu kaupfélagsmenn á Þingeyri og nærsveitum séu farnir að hugsa sér til hreyfings með að endurvekja Kaupfélag Dýrfirðinga. Þeir segja að þetta hefði ekki þurft að fara svona eins og fór. En það er önnur saga. Er gott til þess að vita að eitthvert líf sé í liðinu. Það gera sennilega göngin!

    

12.11.2018 - 14:46 |

Vika 45

« 1 af 4 »

Í viku 45 voru grafnir 79,0 m í göngunum Dýrafjarðarmeginn. Lengd ganganna í Dýrafirði í lok vikunnar var 258,1 m sem er 15,7% af leggnum sem er eftir og er búið að grafa í heildina 73,9% af göngunum.

 

Líkt og í síðustu viku var grafið í gegnum basalt og kargaskotið basalt. Í lok vikunnar var efnið úr göngunum keyrt í vegfyllingu.

 

Í göngunum Arnarfjarðarmeginn var haldið áfram með styrkingar í hægri vegg ganganna. Í lok vikunnar var búið að setja bergbolta á tæplega 2.600 m kafla og sprautusteypa rúmlega 1.900 m langann kafla í heildina en göngin Arnarfjarðarmeginn eru 3657,6 m löng.  

 

Klárað var að raða grjótvörn umhverfis sökkla Hófsárbrúar og haldið áfram með mölun á efni við Hófsá og á haugsvæði sem er austur af munnanum í Arnarfirði. Mót voru rifin frá nyrðri stöpli brúarinnar yfir Mjólká. 

 

Í Dýrafirði var unnið við slóðagerð að námum ásamt skeringarvinnu, slóðagerð og fyllingavinnu nálægt tengingu vegarins við núverandi veg ásamt fyllingavinnu við munna ganganna.

 

Á meðfylgjandi myndum má sjá þegar verið er að herða á bergbolta, framlengja loftræstitúðu og stöplana í Mjólkárbrúnni.

12.11.2018 - 14:07 |

Hjónaballið 2018

Það var þétt setið í öllum hornum á 84. hjónaballinu sem haldið var í félagsheimilinu á Þingeyri um síðustu helgi. Í ár fóru þau Ásta og Friðbert á Hólum fyrir skipulagsnefnd. Ylfa Mist Helgadóttir var veislustjóri og hún og Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir stjórnuðu hressum fjöldasöng í bland við almennt grín og glens. Marý Karlsdóttir samdi og flutti gamanvísur um nefndarfólk.

Það er mál manna að hjónaballið hafi ekki verið svona vel sótt í fjölmörg ár og skemmtunin fór í alla staði vel fram. Unga fólkið var meira áberandi en verið hefur enda slær varla nokkur maður hendinni á móti góðu hjónaballi. Rúnar Þór og hljómsveitin Trap lék fyrir dansi sem dunaði langt frameftir.

Í viku 44 voru grafnir 76,5 m í göngunum Dýrafjarðarmeginn. Lengd ganganna í Dýrafirði í lok vikunnar var 179,1 m sem er 10,9% af leggnum sem er eftir og er búið að grafa í heildina 72,4% af göngunum.

Grafið var í gegnum basalt og kargaskotið basalt í vikunni og gekk gangagröftur almennt vel. Þar sem jarðlögin í göngunum Dýrafjarðarmegin halla niður, eftir því sem innar er farið, hafa verið boraðar könnunarholur til að hægt sé að átta sig á jarðfræðiaðstæðum framundan. Í vikunni var blásari settur upp við munna ganganna sem tafði vinnu við gangagröft um 12 klst. Sem fyrr var efnið úr göngunum notað til að stækka plan við steypustöðina en einnig til að laga veg í göngunum og út eftir forskeringunni.

Í göngunum Arnarfjarðarmeginn var haldið áfram með styrkingar í hægri vegg ganganna. Í lok vikunnar var búið að setja bergbolta á rúmlega 2.000 m kafla og sprautusteypa tæplega 1.500 m langann kafla í heildina.

Engin vegavinna var í gangi í Arnarfirði en byrjað var að raða grjótvörn umhverfis sökkla Hófsárbrúar og haldið áfram með mölun á efni við Hófsá. Nyrðri stöpull brúarinnar yfir Mjólká var steyptur á miðvikudeginum.

Í Dýrafirði var unnið við slóðagerð að námum ásamt skeringarvinnu og slóðagerð nálægt tengingu vegarins við núverandi veg.

Á meðfylgjandi myndum má sjá þegar sprautsteypt er í göngunum Arnarfjarðarmeginn, kargaskotinn stafn Dýrafjarðarmeginn, nýja blásarann og steypustöðina.

Lumar þú á góðri hugmynd sem þú vilt koma í framkvæmd? Fulltrúi frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, sem er með umsóknarfrest 12. nóvember, mætir í Blábankan núna á fimmtudaginn 8. nóvember og veitir ráðgjöf og aðstoð við gerð umsókna í sjóðinn. Við hvetjum Dýrfirðinga auðvitað til að sækja um í sjóðinn því eins og allir vita þá "fiska þeir sem róa".
30.10.2018 - 14:44 | Hallgrímur Sveinsson

Ný bók frá Vestfirska forlaginu

„Að fortíð skal hyggja ef frumlegt skal byggja“


Gleði mikil var ríkjandi á Rauðsstöðum í Borgarfirði, einum af innfjörðum Arnarfjarðar, 14. september 2017. Þá sprengdi samgönguráðherrann okkar, Jón Gunnarsson, fyrstu sprenginguna í gangamunna Dýrafjarðarganga. Í framhaldi af ráðherrasprengingunni sprakk svo ríkisstjórnin um kvöldið. En allir vita að ekkert samband er náttúrlega þar á milli! 


Einar Benediktsson orti:

Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja,

án fræðslu þess liðna sést ei, hvað er nýtt.“


Í þessari handhægu bók er lítillega hugað að sögu jarðanna Rauðsstaða og Borgar við þessi merku tímamót í samgöngusögu Vestfjarða. Þeir góðu og hugrökku menn sem að verkinu standa ásamt gestum og gangandi ættu að hafa gagn og gaman af þeim fróðleik. Gangamunninn er nefnilega aðeins nokkra metra frá bæjarstæði Rauðsstaða og skammt er til Borgar í öllu tilliti. Gangagerðin er samtvinnuð jörðunum tveimur hvernig sem á er litið. En hér er ekki á nokkurn hátt verið að fjalla um göngin sem slík, heldur nánasta umhverfi þeirra Borgarfjarðarmegin.

Allur ágóði af sölu bókarinnar rennur til Búnaðarfélags Auðkúluhrepps.

30.10.2018 - 14:00 |

Vika 43 í Dýrafjarðargöngum

Í viku 43 voru grafnir 68,2 m í göngunum Dýrafjarðarmeginn. Lengd ganganna í Dýrafirði í lok vikunnar var 102,6 m sem er 6,2% af leggnum sem er eftir og er búið að grafa í heildina 70,3% af göngunum.

Í upphafi vikunnar kom set niður úr loftinu sem var aðeins til vandræða og voru teknar tvær stuttar færur, þ.e. 3 m í stað 5 m, og þurfti að nota netamottur til að styrkja loftið ásamt bergboltum og sprautusteypu. Þegar setið var komið neðar í sniðinu voru aðstæður til graftar góðar og tókst meðal annars að ná tímanum milli sprenginga undir 8 klukkustundir. Efnið úr göngunum hefur verið notað til að stækka plan við steypustöðina.

Í göngunum Arnarfjarðarmeginn var haldið áfram með styrkingar í hægri vegg ganganna. Í lok vikunnar var búið að setja bergbolta á tæplega 1.500 m kafla og sprautusteypa tæplega 800 m langann kafla í heildina.

Engin vegavinna var í gangi í Arnarfirði en í Dýrafirði var lítillega unnið í námum og í veginum. Klárað var að slá upp fyrir nyrðri stöplinum í Mjólkárbrúnni og verður steypt þegar veður leyfir.

Unnið var við að loka og gera klár verkstæði og geymslur ásamt frágangi á skrifstofuhúsnæði.

Eldri færslur
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31