Vestfirsk menning blómstrar í Sundlauginni á Þingeyri
Dr. Eiríkur Bergmann sagði í Smartland á mbl.is að sundlaugarmenning okkar Íslendinga sé framlag okkar til siðmenningar. Sjálfur fer hann helst daglega í sund og saknar Vesturbæjarlaugarinnar mest þegar hann er erlendis utan vina og ættingja. Eiríkur segir sundlaugarferðir allra meina bót og samfélagið þar oft mjög sérstakt.
Lesið upp úr vestfirskum og jafnvel heimsbókmenntum!
Þetta eru orð að sönnu. Nærtækt er að nefna, að í sundlauginni á Þingeyri hefur í mörg ár ekki einungis verið hugsað um líkamlegu hliðina. Hin andlega hliðin kemur þar einnig við sögu. Í mörg ár hefur nefnilega verið lesið þar upp úr vestfirskum bókmenntum og jafnvel heimsbókmenntum. Þar sem margir spekingar koma saman, verður svo auðvitað að stofna akademíu. Þingeyrarakademían starfar af fullum þrótti í heita pottinum og við kaffiborðið hjá henni Þorbjörgu Gunnarsdóttur, sem stjórnar öllu til sjós og lands í Íþróttamiðstöðinni. Þar eru innanlandsmálin og heimsmálin krufin til mergjar og stundum bara hreinlega leyst!
Snorri gekk til laugar
Og skal nú nefndur til sögu Snorri nokkur Sturluson. Fróðir menn segja að hann hafi gengið til laugar upp á hvern dag er hann var í Reykholti. Sumir telja að þar hafi hann sagt skrifurum sínum fyrir ódauðlegar bókmenntir. Þeir hafa jafnvel verið á laugarbakkanum og mundað þar fjaðurpenna sína, heimatilbúið blek og kálfsskinn. Og þeir voru fleiri sem gengu til laugar fyrstu aldir Íslandsbyggðar: Grettir Ásmundarson, Egill Skallagrímsson, Guðrún Ósvífursdóttir, Kjartan Ólafsson. Vituð ér enn eða hvat? Og baðstofur voru þá nánast á hverjum bæ.
Fyrsta laug sem getið er um á landinu er einmitt Snorralaug í Reykholti. Hún er frægust laug á Íslandi vegna aldurs og gerðar. Eignuð Snorra Sturlusyni sem sagnir herma að hafi látið gera laugina í þeirri mynd sem hún er nú, fyrir nærri 800 árum. Svo segir Jón Þorsteinsson heitinn læknir í Læknablaðinu 07. 08. 2005.