A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
24.01.2019 - 11:45 |

Brauðpeningur kominn heim

Brauðpeningurinn kominn heim í Þingeyrar Bakarí
Brauðpeningurinn kominn heim í Þingeyrar Bakarí

Fyrir skömmu síðan spunnust skemmtilegar umræður á Facebook síðunni Mynthringar og alls konar þegar þar birtist mynd af stórmerkilegum smápeningi merktum „Þingeyrar Bakarí - 1 Rúgbrauð“.

 

Hörður Óskarsson, eigandi peningsins, bauðst þá til að senda peninginn aftur „heim“ og þáði Blábankinn það með þökkum, enda með rammgirta peningahirslu innanhúss sem hæfir vel til að geyma svona gersemar. Er Herði færðar bestu þakkir fyrir sendinguna.

 

Gestum og gangandi er velkomið að koma við í Blábankanum og skoða peninginn.

 

En hvað er Brauðpeningur? Í Morgunblaðinu 30. október 1998 birtist afar góð grein með fyrirsögninni „Dýrmætur peningur á Brauðfótum”. Við birtum hana hér að neðan, til gagns og gamans:

 

——

 

„BRAUÐPENINGUR“ hljómar í eyrum sem frekar ótraustur gjaldmiðill en er í raun nánast gulls ígildi. Og þó stendur hann á brauðfótum! Það er að segja, "myntfótur" hans, eins og lögákvörðuð undirstaða gjaldmiðils er kölluð, var á sínum tíma miðaður við brauð en ekki gull eða aðra tryggingu ríkis sem stendur fyrir myntsláttu eða prentun peningaseðla. 

 

Það eru ekki margir núlifandi Íslendingar sem muna þegar þessi gjaldmiðill var í notkun hér á landi frá því skömmu fyrir síðustu aldamót og líklega fram undir 1930. Þessir peningar, bæði mynt og seðlar, voru ein tegund „vörupeninga“ sem notaðir voru sem gjaldmiðill hér á landi frá miðri síðustu öld og fram á okkar, vegna skorts á peningum í umferð. Vegna þessa hörguls réðust einstakir kaupmenn í að slá eigin mynt eða gefa út seðla sem síðan var hægt að innleysa vörur í verslunum þeirra og ekki annars staðar.

 

Bakarar hófu að gefa út brauðpeninga laust fyrir aldamót sem ýmist voru úr málmi eða pappa. Sumir peningarnir voru frumstæðir að gerð en aðrir gerðir af hagleik. Viðskiptavinir afhentu bakaranum mjölsekki og fengu brauðpeninga fyrir sem þeir notuðu síðan til að innleysa brauðhleifa. Verðgildi brauðpeninganna var ekki tiltekið en andvirði þeirra var oftast eitt brauð, stundum hálft. Á þá var ýmist letrað „rúgbrauð“, eða „brauð“.

 

Lítið hefur varðveist af brauðpeningum og eru ýmsar útgáfur þeirra fágæti. Þjóðminjasafnið og Seðlabankinn eiga safn brauðpeninga en inn í þau söfn vantar útgáfur, hugsanlega fleiri en tvær, og stundum er um að ræða einu eintökin sem vitað er um.

 

Þingeyrarbakaríspeningar

 

Ólafur Steinsson er einn fárra einstaklinga sem enn eiga brauðpening og sem man eftir því þegar brauðpeningar voru í notkun. Hann er fæddur 1917 og vann á sínum tíma, á þriðja áratug aldarinnar, í bakaríi föður síns á Þingeyri, Steins Ólafssonar, sem fæddist 21. október 1876. Hann hafði keypt bakaríið af Proppé-bræðrum, þeim miklu athafnamönnum. Á peningnum stendur „Þingeyrarbakarí“.

 

„Það hét „Félagsbakaríið“ þegar peningurinn var gefinn út,“ segir Ólafur. „Svo keypti faðir minn bakaríið 1911 eða 1912, ef ég man rétt. En þá var búið að slá þennan pening, sennilega rétt eftir aldamótin.“ 

 

Ólafur kvaðst ekki vita hvað margir peningar voru slegnir. „En þegar við skiptum búinu hafa líklega verið til eins og um þrjú hundruð peningar.“ Ólafur segist síðan fyrr á árum, þegar erfitt var að fá gjaldeyri til utanlandsferða, hér heima hafa notað brauðpeninga sem gjaldmiðil úti í Danmörku. Hann treystir sér ekki til að segja hversu mikið fékkst fyrir peninginn. „Hann gaf nefnilega heilmikið, miðað við það að fá danskar krónur.“

 

Á myntinni hans Ólafs er letrað orðið „Rúgbrauð“ en eitt slíkt fékkst fyrir hann. „Um var að ræða 6 punda hleifa! Í þá daga borðaði fólk mest rúgbrauð, franskbrauð var bara til hátíðabrigða eða um helgar. Aðalhollustan var í rúgbrauðinu, hitt var sunnudagsglaðningur. Ef fólkið vildi síðan fá bara hálft brauð, lét það myntina af hendi og fékk stimplaðan miða fyrir hálfu brauði á milli. Hann var stimplaður með kórónu og svo bara " " hinum megin! Svo varð að passa upp á að tína ekki miðanum.

 

Til þess að fá brauðpeninga kom fólk með mjölsekki, mig minnir að það hafi verið svona hundrað kílóa sekkir. Ég man bara ekki hvað margir peningar fengust fyrir hvern sekk. Þetta þurfti náttúrlega að passa eins og gull.“

 

Ólafur kannast ekki við að brauðpeningar hafi verið gefnir út sem fátækrahjálp, eins og tíðaðist í einhverjum sveitarstjórnum á krepputímum. „Nei, vestur á Þingeyri var ekki svo mikil fátækt. Þetta var uppgangspláss á sínum tíma. Þegar bræðurnir Proppé voru upp á sitt besta eins og sagt er.“

 

Geymdir í banka

 

Höskuldur, bróðir ólafs, tók við bakaríinu af föður þeirra en sjálfum leiddist Ólafi í brauðgerðinni. „Ég vann í bakaríinu fram yfir tvítugt en kom svo hingað suður í Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1941. Mér leiddist svo í bakaríinu að ég ætla ekki að segja það hvernig mér leið.“ Hann lauk þar námi 1943 og gifti sig Unni Þórðardóttur frá Bjarnastöðum í Ölfusi. Þau reistu saman garðyrkjustöð í stríðslok. „Við seldum hana 1984 og höfum síðan verið að leika okkur úti um allan heim,“ segir Ólafur og brosir.

 
Ólafur segist ekki hafa hugmynd um verðmæti peningsins í dag enda hafi hann ekki hreyft hann í mörg ár heldur geymi hann á öruggum stað í banka. Hjá Frímerkjamiðstöðinni fengust þær upplýsingar að meðalverð fyrir eintakið væri um 2.000 krónur en gæti verið mun meira.

Nánari upplýsingar um brauðpeninga er að finna í Afmælisriti Landssambands bakarameistara sem gefið var út 1984 og inn á heimasíðu Samtaka iðnaðarins: www.si.is.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31