A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
12.02.2019 - 10:21 | Bjarni Einarsson,Guðmundur Ingvarsson,Hallgrímur Sveinsson

„Málið er leyst: Það er Melka!“

Guðmundur, Bjarni og Hallgrímur
Guðmundur, Bjarni og Hallgrímur

Þessi setning hljómaði oft í eyrum landsmanna á fyrstu árum Sjónvarpsins. Ef við munum rétt, sem við munum, var verið að auglýsa skyrtutegund nokkra. Innflytjandi hennar græddi ábyggilega stórfé á þessari snjöllu framsetningu. Og nú er uppi svipuð hugmynd um stórmál sem hægt er að leysa strax. Og allir græða. 

   Við félagarnir hér vestra höfum velt því nokkrum sinnum upp á opinberum vettvangi að ríkið selji Íslandsbanka. Erum þar svo sem ekki að finna upp hjólið. Noti fjármuni þá sem fyrir bankann fást til uppbyggingar á samgöngukerfinu. Kannski 150 milljarðar króna segja þeir sem vit hafa á. 

   Þessi snjalla hugmynd um Íslandsbanka hefur fengið misjafnar undirtektir. Sumir segja að ríkið verði að eiga bankana svo allt gangverkið verði ekki snarvitlaust aftur. Aðrir segja að ríkið eigi ekkert að vera að vesenast í bankastarfsemi og svo framvegis. Enn aðrir vilja kalla á erlenda banka. Við gömlu sparisjóðamennirnir vörum reyndar alvarlega við þeim stofnunum sumum, eins og til dæmis Danske Bank og Deutsche Bank. Samkvæmt Reutersfréttum eru þeir einfaldlega heimsins mestu sérfræðingar í peningaþvætti. Glæpastofnanir.

 

Krókur á móti bragði

    Nú er það kænskubragð okkar, eða krókur á móti bragði, að koma með þá breytingartillögu, að ríkissjóður selji 49% eignarhlut sinn í Íslandsbanka í dreifðri eignaraðild. Kannski 70 -75 milljarðar takk. Enginn mætti eiga nema svo sem 5% í bankanum en ríkið héldi sínum meirihluta. Ganga verður svo frá hnútum að hér verði ekki bara orðin tóm eins og forðum. Þeir peningar yrðu notaðir í samgöngur á landi. Almenningur ætti hér leik á borði að ráðstafa hluta af sparifé sínu í öruggum ríkisbanka. Fá í staðinn betri samgöngur strax sem allir hrópa á til sjávar og sveita. Svo má náttúrlega ekki gleyma lífeyrissjóðunum. Mega þeir ekki eiga hlut í ríkisbanka? Eða stórfyrirtækjum eins og Eimskip og Samskip, sem skrönglast á ónýtum vegum árið út og árið inn. 

 

Hver og einn bær er hlekkur í keðjunni!

   Umrædd aðgerð um sölu á 49% hlut Íslandsbanka mundi hafa í för með sér samræmdar aðgerðir í vegamálum. Í þeim efnum er landið allt ein heild. Hver og einn bær er hlekkur í þeirri keðju. Smáskammtalækningar með happa- og glappaaðferðum myndu snarminnka.  Með þessu móti væri hægt að slá veggjöld eða skatta út af borðinu í bili. Þeir sem varla eiga til hnífs og skeiðar myndu fagna því mjög. En hins vegar er Íslandsgjald sem aðgöngumiði að Náttúrulistasalnum Íslandi fyrir akandi erlenda ferðamenn löngu tímabært. 

   Talandi um bankastofnanir. Við seljum auðvitað ekki fimmeyring í Landsbankanum. Hann ætti að vera okkar samfélagsbanki líkt og sparisjóðirnir voru, sællar minningar. 

   Málið er sem sagt leyst eins og með skyrturnar forðum: Seljum 49% í Íslandsbanka í dreifðri sölu og eignaraðild. Og setjum hverja krónu í uppbyggingu íslenskra vega!

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31