Heimildarmyndagerð í Blábankanum
4 daga vinnusmiðju í heimildarmyndagerð er nú nýlokið í Blábankanum. Norska kvikmyndagerðarkonan Trude Ottersen kenndi námskeiðið, en henni til halds og trausts var Ingrid Dokka frá Norður Norsku Kvikmyndamiðstöðinni. Trude byrjaði á að sýna kvikmynd sína Íshafsblóð, sögu selveiðiskipsins Havsels og áhafnar þess, og var sú sýning opin áhugasömum heimamönnum. Var lærdómur framleiðslu þeirrar myndar hryggjarstykkið í vinnusmiðjunni, en afar áhugavert var fyrir þátttakendur að fræðast um framleiðsluferli slíkrar heimildarmyndar. Þátttakendur í vinnusmiðjunni voru 14 talsins, frá Reykjavík, Ungverjalandi og Póllandi og létu þau öll vel af dvölinni á Þingeyri en rúsínan í pylsuendanum var auðvitað þorrablótsupplifunin.
Í samtali við Þingeyrarvefinn vildi Haukur húskarl hjá Blábankanum lýsa yfir sérstakri ánægju með samstarfið og stuðninginn sem fenginn var frá norður Noregi: „Við erum auðvitað þákklát og ánægð með að norski kvikmyndabransinn skuli sýna okkur Blábankafólki svona mikinn velvilja. Það er ekki sjálfgefið. Vonandi er þetta bara fyrsta skrefið í gróskumiklu samstarfi íslensks og norsks kvikmyndagerðarfólks.“