Listamenn sýndu og komu fram í Simbahöllinni
Sex alþjóðlegir listamenn dvöldu síðustu tvær vikur í listamannavinnustofu Simbahallarinnar, Westfjords Residency. Er þetta sjöunda árið sem vinnustofur sem þessar eru skipulagðar af vertum Simbahallarinnar og hefur mikil almenn ánægja verið með fyrirkomulagið, bæði frá listamönnum sem og heimamönnum sem fá að njóta.
Á föstudagskvöldið var opið hús í Simbahöllinni þar sem listamennirnir ýmist sýndu verk eða fluttu. Þingeyrarvefurinn sendi sérlegan listagagnrýnanda vefsins á stjá til að athuga málið.
Fyrst ber að nefna Margaret Byrd frá Seattle í Bandaríkjunum sem nýtti sér kuldann sem ríkt hefur undanfarið til að útbúa ís listaverk sem hún dreifði um bæinn. Ísmolar litaðir með ýmsum náttúrulitum settu því svip sinn á bæjarbraginn á Þingeyri þá daga sem hún var hér.
Hin suður kóreska Soo Kyung Bae setti upp vinnuherbergi í einu rými Blábankans og málaði stóla af miklum móð. Sýndi hún nokkur verkanna í Simbahöllinni og vakti frumleg notkun hennar á litum og línum sérstaka athygli gesta.
Japanska ljósmyndarann Takashi Nakagawa hafa margir bæjarbúar eflaust séð, en um þriggja vikna skeið var hann mikið á ferðinni með myndavél um hálsinn. Hann sýndi tvær myndaseríur á skjávarpa. Aðra þeirra með stórskemmtilegum svarthvítum vestfirskum götumyndum í 15:9 formatti og hina með safni af abstrakt myndblöndum úr náttúrunni.
Kim Curtis frá Illinois í Bandaríkjunum sýndi bútalistaverk sem hún límdi og saumaði saman úr pennateikningum og litagleði sem hún fangaði hér í Dýrafirðinum.
Leikkonan og ljóðskáldið frá Hollywood, Elaine Weatherby, steig á stokk og flutti ljóð sem hún samdi meðan á dvöl hennar stóð hér á Þingeyri. Fjallaði hún m.a. á skemmtilegan hátt um daglegt líf hér í þorpinu og aðdáun hennar á meðlimum Akademíunnar.
Skoska tónlistarkonan Louise Anna spilaði lágstemmt popp á lítið rafmagnshljómborð. Skemmtilegar textasmíðar og falleg söngrödd vöktu athygli viðstaddra, svo mikla að hún var fengin til að taka aukalög síðar um kvöldið.
Hin danska Ronja steig síðust á stokk. Ronja var ekki hluti af vinnustofunni sjálfri heldur í bænum í öðrum erindagjörðum, en það kom ekki að sök, hvers kyns listafólki er tekið fagnandi í Simbahöllinni. Ronja heillaði viðstadda með frumsaminni tónlist og kraftmikilli rödd. Það er augljóst að Ronja hefur staðið á sviði áður, en öryggi hennar og sviðsframkoma var aðdáunarverð.
Óhætt er að segja að listafólkið hafi lífgað uppá samfélagið hér í firðinum með uppátækjum sínum. Fullt var út úr dyrum í Simbahöllinni og almenn gleði var með viðburðinn. Því lengra sem leið á kvöldið þeim mun meira hitnaði í kolunum - og á tímabili var stemmingin við suðumark.
Þingeyrarvefurinn þakkar fyrir sig og hvetur til fleiri viðburða af þessu tagi. Ekki aðeins vegna listarinnar sjálfrar, heldur líka vegna þess að svona viðburðir hvetja fólk til að hittast og gera sér glaðan dag - og það er mikilvægt öllum samfélögum.