13.12.2016 - 06:35 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson
Kristján Ottósson frá Svalvogum.
Fyrir all löngu hittum við Kristján Ottósson frá Svalvogum, fyrrum forseta Lagnasambands Íslands og framkvæmdastjóra og báðum hann að segja okkur frá Kúlubardaganum mikla eins og hann minnist hans eftir allan þennan tíma.
“Já, við vorum þarna hjónin, boðið í afmælið hjá Garðari Waage, sem þá var í fullu fjöri, eins og fleirum. Það stóð nú víst aldrei til að halda þetta ball og veit ég nú eiginlega ekki hvernig það orsakaðist. En hvað um það. Þarna safnaðist saman mikill mannfjöldi, meðal annars úr Mjólkárvirkjun. Harmonikuleikari var nábúi okkar úr Reykjavík, snaggaralegur strákur, en nafn hans man ég ekki lengur. Hann vann í virkjuninni. Er nú skemmst frá því að segja að á miðju balli hoppar Gunnlaugur á Tjaldanesi upp og lemur bylmingshögg í þilið að innanverðu í salnum, svo dundi í öllu húsinu. Garðar stóð þar hjá honum og hefur þetta sennilega átt að æsa afmælisbarnið eitthvað upp. Það brá öllum við þetta. Harmonikuleikarinn fór upp á stólinn sem hann sat á og spilaði þar standandi svo ballið hætti ekkert. Svo barst þetta út fyrir dyrnar og veit ég nú ekki hvað þar varð í upphafi, nema ég fór út ásamt konunni, sem var orðin óttaslegin og vildi ekki sleppa mér neitt. Þá var búið að rota Gunnar Sigurðsson meistara og sumir sögðu að augað á bróður hans, Jóni Sigurðssyni ref, væri komið út á kinn. Við heyrðum að Gunnlaugi bónda var hótað í gríð og erg og sleginn um hann hringur. Hann yrði drepinn, ef ekki núna, þá bara seinna.
Jón refur kallaði og það oftar en einu sinni ef ég man rétt:
“Við drepum hann þegar hann kemur á dýrfirska grund.”
...
Meira