22.12.2015 - 20:22 | Hallgrímur Sveinsson
Á hæsta tindi Vestfjarða. Prestshjónin okkar fyrrverandi, séra Guðrún Edda Gunnarsdóttir og próf. Einar Sigurbjörnsson, stödd á Kaldbak í Vestfirsku Ölpunum. Hann er eins og allir vita 998 metrar á hæð. Sé varðan talin með sem skátarnir hlóðu forðum, þá erum við að tala um slétta 1000 metra. Ljósm. Eggert Stefánsson, Mannlíf og saga 6. hefti 1999.
Færð og veður
Nú standa bæði loft og sjór hér vestra. Rennifæri á Ísafjörð og bara nefndu það. Enda fóru spekingarnir í kaupstað í gær. Grímsheiði verður ekki mokuð fyrir jól. Flughálka undir snjónum þar, sem er ekki mikill.
Vigdís Finnbogadóttir
Lesið verður um Vigdísi Finnbogadóttur, þá stórmerkilegu manneskju, í Sundlauginni hjá henni Tobbu í fyrramálið, Þorláksmessu. Komið verður m. a. inn á vanmetakenndina sem hún kannaðist við og ákvörðunina sem hún tók á Hrafnseyri 3. ágúst 1980.
Smáfuglarnir
Hvar eru smáfuglarnir? Þeir hafa varla sést í allt haust. Sumir segja að þeir séu upp á fjöllum. Hvað heldur þú lesandi góður?
Peningarnir
Landsbankinn var opinn á Þingeyri í dag, þriðjudag, milli 13 og 14. Þá gátu menn komið og lagt inn eða tekið út allt eftir atvikum.
...
Meira