29.12.2015 - 19:28 | Hallgrímur Sveinsson
Réttur dagsins: - Jæja strákar, nú heimtum við brauðsúpu þegar við komum heim!
Alls konar stórmál voru í umræðunni í sundlauginni á Þingeyri í morgun, 29. des. 2015 að vanda, þó spekingaliðið væri nú frekar fámennt. Það var sennilega af því að þeir í Ameríku spá vitlausu veðri upp á Ísland. Hvað um það, þá barst tal manna m. a. að mat. Þar á meðal var gamla brauðsúpan nefnd. Með rúsínum, þykk eða þunn. Rjómabland eða bara þeyttur rjómi. Og ein sítrónusneið á diskinn. Namm, namm! Sumir hafa bara ekki smakkað brauðsúpu í mörg ár.
Það er ekkert með það, strákar. Nú heimtum við brauðsúpu þegar við komum heim í dag!. Það er að segja, við heimtum náttúrlega ekkert. En við getum til dæmis sagt þegar við komum inn úr dyrunum:
„Guðrún mín, eða Sigga mín. Vilt þú nú ekki elda fyrir mig brauðsúpu í dag eða á morgun?“