A A A
  • 2010 - Víkingur Kári Sigfússon
31.01.2012 - 22:33 | Tilkynning

Opið hús í leikskólanum Laufási

Leikskólalóðin á Laufási.
Leikskólalóðin á Laufási.
Leikskólinn Laufás verður með opið hús þann 6.febrúar. Öllum er velkomið að kíkja við frá 9-11:45. Boðið verður upp á útikakó og meðlæti frá 9:20-10:10 á hlóða-svæðinu. Eftir það verður sameiginlegur hópatími í íþróttahúsinu, sem velkomið er að fylgjast með. Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmála-ráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfsemina út á við.
31.01.2012 - 22:13 | Tilkynning

Morðhelgi á Núpi

Hótel Núpur í Dýrafirði. Mynd: hotelnupur.is
Hótel Núpur í Dýrafirði. Mynd: hotelnupur.is
Helgina 17. - 19. febrúar blása bræðurnir á Hótel Núpi til vináttuhelgar. Sú vinátta sem þar svífur yfir vötnum breytist reyndar fljótlega því morðæði grípur einhvern gestanna. Hefur þig einhvern tíman langað að feta í fótspor Shelock Holmes, Matlocks nú eða Jessicu Fletcher í Murder she Wrote og leysa stóra morðmálið? Nú er tækifærið!...
Meira
19.01.2012 - 20:00 | Tilkynning

Sýning í Grunnskólanum

Grunnskólinn á Þingeyri.
Grunnskólinn á Þingeyri.
Nú hafa krakkarnir í skólanum verið að safna upplýsingum um „afþreyingu fólks í heimabyggð fyrr og nú" Þau hafa komið víða við og fengið margvíslegar upplýsingar sem þau hafa unnið úr á mjög skemmtilegan hátt. Þess vegna langar okkur að bjóða ykkur, Dýrfirðingar, að koma og skoða afraksturinn á morgun föstudag 20.jan. milli klukkan 10 og 12. Hægt verður að koma við hvenær sem er á þeim tíma, en eina fasta tímasetningin á viðburðum er tískusýning kl. 10.15 og aftur kl. 11.15.
Vonumst til að sjá sem flesta, nemendur og starfsfólk G.Þ.
18.01.2012 - 14:19 | Tilkynning

Sunderóbikk að hefjast

Frá fyrri námskeiðí í sunderóbikki. Mynd: bb.is
Frá fyrri námskeiðí í sunderóbikki. Mynd: bb.is
Sunderobikk hefst næstkomandi laugardag 21.janúar í sundlauginni á Þingeyri. Tuttugu tíma námskeið, er loksins að fara af stað. Kennt verður á miðvikudögum kl. 19:30 og laugardögum kl. 09:00. Kennari er Natia Ashkenazy Jones. Vinsamlega skráið ykkur sem fyrst, í sundlauginn sími: 450 8470.

Íþróttafélagið Höfrungur.

07.01.2012 - 23:35 | JÓH

Nýr sokkur á Gemlufallsheiðinni

Jólasokkur hefur nú verið hengdur til þerris á Gemlufallsheiðinni, í stað ullarsokkanna. Mynd: JÓH
Jólasokkur hefur nú verið hengdur til þerris á Gemlufallsheiðinni, í stað ullarsokkanna. Mynd: JÓH
« 1 af 2 »
Svo virðist sem eigandi ullarsokkanna á Gemlufallsheiðinni hafi vitjað þeirra því nú er búið að fjarlægja þá og hengja upp jólasokk til þerris í staðinn. Eins og kom fram á Þingeyrarvefnum í desember, auglýsti Sigmundur F. Þórðarson eftir eiganda ullarsokkanna og bauðst til að aðstoða viðkomandi við að taka þá niður og geyma. Sokkarnir höfðu þá hangið þar á annað ár og voru orðnir nokkuð slitnir eftir veðurbarninginn á heiðinni. Sigmundur hafði einnig áhuga á að vita meira um klemmurnar sem héldu sokkunum enda hafði hann aldrei séð aðra eins endingu. Þegar Sigmundur var inntur eftir viðbrögðum í dag sagðist hann ekki vita hver hefði hengt upp jólasokkinn. Eigandinn hefði ekki þegið aðstoð hans við að taka niður ullarsokkana en honum lék enn forvitni á að vita hvers konar klemmur væri hér um að ræða. Jólasokkurinn er nefnilega festur með sömu klemmum og ullarsokkarnir, og því verður fróðlegt að sjá hversu lengi hann heldur út á heiðinni.
Frá flugeldasýningunni í gær. Mynd: Jón Sigurðsson
Frá flugeldasýningunni í gær. Mynd: Jón Sigurðsson
« 1 af 2 »
Það var mikið um dýrðir á Þingeyri í gær þar sem jólahátíðin var kvödd í blíðskaparveðri. Björgunarsveitin Dýri og íþróttafélagið Höfrungur stóðu fyrir þrettándagleði sem hófst með kyndlagöngu frá Brekkugötunni. Guðmundur Ingvarsson, Líni Hannes og Guðrún Snæbjörg fóru þar fyrir göngunni með harmonikkuspili og söng. Gengið var að Stefánsbúð þar sem öllum var boðið upp á heitt súkkulaði, pönnukökur og fleira góðgæti að hætti Ingibjargar Þorláksdóttur og aðstoðarfólks hennar, við undirspil Harmonikkukarlanna og Lóu. Björgunarsveitin sá að lokum um flugeldasýningu sem þótti ákaflega glæsileg og vel heppnuð. Fljótlega eftir flugeldasýninguna mátti sjá litla sem stóra álfa ganga hús úr húsi til að syngja og þiggja góðgerðir fyrir. Jón Sigurðsson tók myndir af flugeldasýningunni frá Brekkugötunni sem má sjá hér, og einnig eru komnar myndir á vefsíðu Davíðs Davíðssonar - www.123.is/daddi.
05.01.2012 - 22:50 | Tilkynning

Þorrablót Dýrfirðinga 2012

Hlaðborðið verður glæsilegt að vanda. Mynd: Davíð Davíðsson - 123.is/daddi
Hlaðborðið verður glæsilegt að vanda. Mynd: Davíð Davíðsson - 123.is/daddi
Árlegt þorrablót Dýrfirðinga verður haldið laugardaginn 28. janúar. Bræðurnir á Núpi munu sjá um þorramatinn í ár en hlaðborðið inniheldur einnig veitingar fyrir þá sem sem kjósa síður þorramatinn. Húsið opnar kl. 19:30 og borðhald hefst hálftíma síðar. Þá munu Bjarni og Stefán halda uppi fjörinu eftir borðhaldið. Gengið verður í hús í næstu viku og þátttaka skráð. Miðaverð helst óbreytt frá því í fyrra en það er eftirfarandi: 6500 kr. fyrir borðhald og ball, 5000kr. fyrir borðhald eingöngu og 2500 kr. fyrir ball eingöngu. Forsalan verður nánar auglýst síðar.
Þorrablótsnefndin.
05.01.2012 - 22:22 | Tilkynning

Þrettándagleði

Þessir álfar voru á ferðinni í fyrra. Mynd: JÓH
Þessir álfar voru á ferðinni í fyrra. Mynd: JÓH
Björgunarsveitin Dýri og Íþróttafélagið Höfrungur verða með sína árlegu þrettándagleði, sem verður haldin föstudaginn 6. janúar og hefst kl. 17.00. Komið er saman að venju innst á Brekkugötu. Þar verða seldir kyndlar á vægu verði. Athugið að aðeins 10 ára og eldri fá leyfi til að vera með kyndla. Er það von okkar að þeir álfar sem eru á ferðinni á þrettándanum mæti í sínum fínu fötum sem fyrr og heiðri okkur með nærveru sinni. Gengið verður sömu leið og áður, nema að nú verður gengið inn Vallargötu og gangan mun enda við jólatréð við höfnina. Að sjálfsögðu verða harmonikkur með í spilinu. Kveiktur verður eldur og sungið saman. Samkoman endar svo með flugeldasýningu.
Íþróttafélagið Höfrungur og Björgunarsveitin Dýri.
Eldri færslur
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31