12.11.2018 - 14:07 |
Hjónaballið 2018
Það var þétt setið í öllum hornum á 84. hjónaballinu sem haldið var í félagsheimilinu á Þingeyri um síðustu helgi. Í ár fóru þau Ásta og Friðbert á Hólum fyrir skipulagsnefnd. Ylfa Mist Helgadóttir var veislustjóri og hún og Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir stjórnuðu hressum fjöldasöng í bland við almennt grín og glens. Marý Karlsdóttir samdi og flutti gamanvísur um nefndarfólk.
Það er mál manna að hjónaballið hafi ekki verið svona vel sótt í fjölmörg ár og skemmtunin fór í alla staði vel fram. Unga fólkið var meira áberandi en verið hefur enda slær varla nokkur maður hendinni á móti góðu hjónaballi. Rúnar Þór og hljómsveitin Trap lék fyrir dansi sem dunaði langt frameftir.