30.03.2017 - 21:07 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson
Kvennablómi á Sveinseyri og Haukadal um aldamótin 1900. Fremri röð frá vinstri: Ólafía Jónsdóttir, Sveinseyri og Sigríður Guðmundsdóttir, Höll. Aftari röð frá vinstri: Ingibjörg Hákonardóttir, Ystabæ, Guðrún Jónsdóttir, Miðbæ og Guðrún Guðmundsdóttir, Höll. Ljósmyndari ókunnur. (Úr fórum Guðrúnar Markúsdóttur og Skarphéðins Njálssonar á Þingeyri)
Vegir liggja til allra átta í Keldudal. Ljósm. H. S.
Magnað er landslagið utan Sveinseyrar sem og fjöll, dalir og hvilftar ofan bæjarins. Ljósm. H. S.
Við kveðjum nú útnesin og höldum sem leið liggur eftir snarbrattri Eyrarhlíð inn að Sveinseyri. Við förum fram hjá Ófæruskeri, Bolagjótu, Sveinssleppu og þremur Eyrarhálsum.
Á ysta hálsinum taldi Svalvogafólk leiðina inn að Þingeyri vera hálfnaða.
Farið eftir veginum í bíl. Vélin gengur.
Sveinseyri
Texti:
Fyrst komum við að lítilli tjörn sem ber nafnið Eyrarvatn. Um aldamótin 1900 létu menn sér detta í hug að gera hér skipakví. Úr því varð þó ekki. Í fjörunni hjá læknum sem fellur úr Eyrarvatni heitir Gunnhildarbót og á fjörukambinum stóð áður Gunnhildarnaust.
Sá hörmulegi atburður varð síðla sumars 1793, að Gunnhildur Sumarliðadóttir á Sveinseyri drukknaði hér í lendingunni í svartamyrkri. Var hún að koma með bræðrum sínum tveim á bát með heyfarm frá Læk í Mýrahreppi, en þar hafði bóndinn á Sveinseyri, faðir þeirra, fengið léðar slægjur.
Sat Gunnhildur uppi á heyhlaðanum aftan til í bátnum, féll útbyrðis og drukknaði, án þess bræður hennar yrðu varir við.
Héldu þeir að hún hefði gengið beina leið heim til bæjar í myrkrinu. Lík hennar fannst daginn eftir og var hún borin til grafar að Hrauni í Keldudal.
En Gunnhildur gekk aftur og eru um það ýmsar magnaðar sögur, einkum í safnritinu Vestfirskar sagnir.
...
Meira