A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
30.03.2017 - 21:07 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson

Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar - 8. hluti

Kvennablómi á Sveinseyri og Haukadal um aldamótin 1900. Fremri röð frá vinstri: Ólafía Jónsdóttir, Sveinseyri og Sigríður Guðmundsdóttir, Höll. Aftari röð frá vinstri: Ingibjörg Hákonardóttir, Ystabæ, Guðrún Jónsdóttir, Miðbæ og Guðrún Guðmundsdóttir, Höll. Ljósmyndari ókunnur. (Úr fórum Guðrúnar Markúsdóttur og Skarphéðins Njálssonar á Þingeyri)
Kvennablómi á Sveinseyri og Haukadal um aldamótin 1900. Fremri röð frá vinstri: Ólafía Jónsdóttir, Sveinseyri og Sigríður Guðmundsdóttir, Höll. Aftari röð frá vinstri: Ingibjörg Hákonardóttir, Ystabæ, Guðrún Jónsdóttir, Miðbæ og Guðrún Guðmundsdóttir, Höll. Ljósmyndari ókunnur. (Úr fórum Guðrúnar Markúsdóttur og Skarphéðins Njálssonar á Þingeyri)
« 1 af 3 »

Við kveðjum nú útnesin og höldum sem leið liggur eftir snarbrattri Eyrarhlíð inn að Sveinseyri. Við förum fram hjá Ófæruskeri, Bolagjótu, Sveinssleppu og þremur Eyrarhálsum.

Á ysta hálsinum taldi Svalvogafólk leiðina inn að Þingeyri vera hálfnaða.

 

Farið eftir veginum í bíl. Vélin gengur.

 

Sveinseyri

 

Texti:

 

Fyrst komum við að lítilli tjörn sem ber nafnið Eyrarvatn. Um aldamótin 1900 létu menn sér detta í hug að gera hér skipakví. Úr því varð þó ekki. Í fjörunni hjá læknum sem fellur úr Eyrarvatni heitir Gunnhildarbót og á fjörukambinum stóð áður Gunnhildarnaust. 

    Sá hörmulegi atburður varð síðla sumars 1793, að Gunnhildur Sumarliðadóttir á Sveinseyri drukknaði hér í lendingunni í svartamyrkri. Var hún að koma með bræðrum sínum tveim á bát með heyfarm frá Læk í Mýrahreppi, en þar hafði bóndinn á Sveinseyri, faðir þeirra, fengið léðar slægjur.

Sat Gunnhildur uppi á heyhlaðanum aftan til í bátnum, féll útbyrðis og drukknaði, án þess bræður hennar yrðu varir við. 

Héldu þeir að hún hefði gengið beina leið heim til bæjar í myrkrinu. Lík hennar fannst daginn eftir og var hún borin til grafar að Hrauni í Keldudal.

    En Gunnhildur gekk aftur og eru um það ýmsar magnaðar sögur, einkum í safnritinu Vestfirskar sagnir.

 

Vestfirskar sagnir koma svífandi í mynd.

 

Þjóðtrúin gerði Gunnhildi að frægustu afturgöngu í Vestur-Ísafjarðarsýslu um langt skeið. Kunnáttumenn voru fengnir til að kveða hana niður, en gekk illa. Seinasti galdramaður á Vestfjörðum, sem nokkuð kvað að, Jóhannes Ólafsson á Kirkjubóli í Mosdal í Arnarfirði var og kallaður til að legstað Gunnhildar í Hraunskirkjugarði. Sá hann þó engin ráð til að kyrrsetja hana, en upplýsti að í gröfinni héldi Gunnhildur sig aldrei nema örstutta stund í einu á ári hverju, milli pistils og guðspjalls á hvítasunnudag.

    Talið var að Gunnhildur fylgdi einkum ættingjum sínum og þegar kom fram um 1900 var hún víst orðin meinlítil, en átti þó til ýmsar glettur. Sveif hún þá fyrir sjónir manna á peysufötum, en var líka stundum í rauðu millipilsi með glettnissvip og hæðnisbros á vör.

    Ekkert stúlkubarn var nefnt því fallega drottningarnafni Gunnhildur í Dýrafirði eða nálægum byggðum á 19. öld.

Var það ekki fyrr en Steinn bakari Ólafsson og Jóhanna Guðmundsdóttir í Bakaríinu á Þingeyri rufu bannhelgina árið 1909 og létu skíra dóttur sína Gunnhildi.

 

Ljósmynd: Bakaríið á Þingeyri.

 

Var Steinn bakari ættingi Gunnhildar bóndadóttur á Sveinseyri, því Guðrún systir hennar var langamma hans.  

   Svo segir í Kjartansbók.

 

Kjartansbók kemur svífandi í mynd.

 

Myndavélin gengur um Gunnhildarbót, Eyrarvatn og yfir fjörð að Læk og svipmynd birtist úr Hraunskirkjugarði: Leiði Gunnhildar.

 

Bærinn Sveinseyri heitir eftir samnefndri eyri, svo sem títt er á Vestfjörðum og var 24 hundruð að dýrleika. Frá Sveinseyri er fallegt útsýni um víðan Dýrafjörð. Ofan bæjarins er Eyrarhvilft eða Bæjarhvilft. Ofan við hvilftina er fjallið Skjöldur en utan við hana Eyrarfjall. Innan við hvilftina er Nóntindur og þar fyrir innan opnast Eyrardalur. Veturlönd heitir hvilft fremst í dalnum og þar er jafnan snjór, vetur, sumar, vor og haust.

            Hér er ókleyfur tindur sem nefnist Eyrarkerling. Um

         þúsundir ára hefur sú gamla staðið vaktina og er ekki að sjá á

         henni neinn bilbug, stæðileg og óbogin í baki.

 

Hrognkelsaveiðar gáfu oft björg í bú á Sveinseyri  og sjóbirtingur gengur enn með landinu fram af bænum. Fjölmennt var oft áður fyrr á Sveinseyri, meðal annarra skútuskipstjórar og sjómenn.


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31