Verið að bora fyrir festingum fyrir vatnsvörn
Yfirlitsmynd af vegskálanum í Dýrafirði
Munninn í Arnarfirði
Verið að koma járnagrind fyrir á mót í vegskálanum Dýrafjarðarmeginn
Eftir gegnumslátt í Dýrafjarðargöngum eru enn mörg verk eftir. Hér er samantekt af því helsta sem gerðist í vikum 21 og 22 við vinnu Dýrafjarðarganga.
Í göngunum var haldið áfram með lagningu frárennslis- dren- og ídráttarlagna í hægri vegöxl og er nú búið að leggja rúmlega 1000 metra. Vinna við lokastyrkingar á kaflanum frá gegnumbroti og að Arnarfirði er komin vel á veg og er eftir að setja bergbolta á tæplega 1 km kafla og eftir að sprautusteypa rúmlega 1 km. Byrjað var að merkja fyrir boltafestingum fyrir vatnsvörn og bora fyrir boltunum.
Þéttidúk var komið fyrir á mótum gangamunna og vegskála beggja vegna. Vinna við uppsteypu á sökklum í vegskálanum Dýrafjarðarmegin hélt áfram og járnagrindinni fyrir fyrsta hluta í yfirbyggingunni var komið fyrir. Stefnt er að því að fyrsta hluti í yfirbyggingunni verði steyptur í næstu viku.
Haldið var áfram með vegagerð í Dýrafirði, aðallega var unnið við skeringar og niðursetningu á ræsum og er búið að setja niður rúmlega helming ræsa. Haldið var áfram með mölun á efni úr Nautahjalla sem verður notað í efri lög vegarins.