A A A
  • 1981 - Berglind Hrönn Hlynsdóttir
19.05.2012 - 13:44 | JÓH

Gönguferð í kringum Sandafell

Þingeyri. Mynd: Davíð Davíðsson
Þingeyri. Mynd: Davíð Davíðsson
Ferðafélag Ísfirðinga stendur fyrir gönguferð í kringum Sandafell á morgun, sunnudaginn 20.maí. Lagt verður af stað frá grunnskólanum á Þingeyri kl. 13:00 og þaðan farin um átta kílómetra leið. Farið verður að mestu eftir vegi og vegslóðum, og er áætlaður göngutími þrjár klukkustundir. Fararstjóri er Þorvaldur Sæmundsson. Verð fyrir félagsmenn er 250 kr., 500 kr. fyrir aðra en frítt fyrir 16 ára og yngri. Frá þessu er sagt á heimasíðu Ferðafélags Ísfirðinga.

Dýrafjarðardagar verða haldnir dagana 29. júní - 1. júlí.
Dýrafjarðardagar verða haldnir dagana 29. júní - 1. júlí.
Nú er dagskrá Dýrafjarðardaga 2012 að taka á sig lokamynd og ljóst er að hún verður fjölbreytt að vanda, enda áhersla lögð á að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Meðal þess sem er á dagskránni er grillveisla á Víkingasvæðinu, listsýningar, gokart leiga, hoppukastalar, súpa í garði, bátsferðir og ýmislegt fleira skemmtilegt. Áætlað er að dagskrá hátíðarinnar fari í prentun um miðjan júní og því þarf allt efni sem á að birtast í henni að vera komið til nefndarinnar fyrir 14.júní. Þjónustuaðilum, sem vilja auglýsa í dagskránni, og þeim sem vilja koma fram á hátíðinni er bent á að hafa samband við Ernu á netfangið ernaho@isafjordur.is.
16.05.2012 - 22:08 | Tilkynning

Mannlíf og saga fyrir vestan komið út

Eftir að ritröðin Mannlíf og saga fyrir vestan hætti að koma út fyrir nokkrum árum, en af henni komu 20 hefti, hefur margoft verið skorað á okkur að hefja útgáfu á henni á nýjan leik og hefur nú verðið orðið við þeim óskum. Fyrsta heftið í hinum nýja flokki er komið út og er það rúmlega 100 síður. Efniviður er mjög svipaður og var í gömlu bókunum þó svo að nú komi nýjar áherslur einnig við sögu. Vonum við að lesendur taki eins vel á móti þessum nýju bókum eins og hinum gömlu. Við erum með allt gamla Vestfjarðakjördæmið undir og mottóið er: Upp með Vestfirði!

Vestfirska forlagið á Þingeyri.

12.05.2012 - 15:11 | JÓH

Koltra óskar eftir starfskrafti

Síðasta sumar var handverkshópurinn til húsa í Gamla Kaupfélaginu. Mynd: JÓH
Síðasta sumar var handverkshópurinn til húsa í Gamla Kaupfélaginu. Mynd: JÓH
« 1 af 2 »
Handverkshópurinn Koltra óskar eftir starfskrafti til að annast daglegan rekstur Upplýsingamiðstöðvar ferðamála á Þingeyri. Um er að ræða vinnu alla virka daga frá 1. júní til 31. ágúst 2012, 8 klukkutíma hvern dag. Í starfinu felst meðal annars upplýsingagjöf og svörun fyrirspurna innlendra og erlendra ferðamanna, upplýsingagjöf til fyrirtækja í ferðaþjónustu á svæðinu og utan þess, söfnun upplýsinga um hvers konar ferðaþjónustu í sveitarfélaginu og sala á handverki Koltru. Í auglýsingu frá Koltru kemur fram að æskilegt sé að viðkomandi hafi góða málakunnáttu á ensku, norðurlandamáli og þýsku. Jafnframt þarf viðkomandi að hafa góða þjónustulund, vera traustur og skipulagður, og geta unnið sjálfstætt. Frestur til að sækja um starfið er til 20.maí og umsóknum ber að skila til Borgnýjar Gunnarsdóttur á Aðalstræti 57, 470 Þingeyri....
Meira
12.05.2012 - 10:51 | JÓH

„Heyrðu mig nú“ á Þingeyri

Skjáskot úr þriðja þætti af Heyrðu mig nú.
Skjáskot úr þriðja þætti af Heyrðu mig nú.
Í þriðja þætti tónlistaþáttarins Heyrðu mig nú var litið inn í félagsheimilið á Þingeyri þar sem dagur harmonikunnar var haldinn hátíðlegur, þann 5.maí sl. Meðal þeirra sem fram koma í þættinum eru harmonikukarlarnir, Lóa og Líni frá Þingeyri, BMW gengið, sem skipað er þeim Baldri Geirmundssyni, Magnúsi Reyni Guðmundssyni og Villa Valla, og Baðstofubandið. Einnig má þar sjá viðtöl við ýmsa harmonikuspilara og unnendur.
Heyrðu mig nú eru tónlistarþættir sem fjalla eingöngu um vestfirska tónlist og eru hýstir á Fréttaveitu Vestfjarða, vestur.is. Harmonikukarlarnir, Lóa og Líni eru ekki fyrstu Dýrfirðingarnir sem koma fram í þáttunum því hljómsveitin Klysja var tekin talin í fyrsta þættinum, þar sem Dýrfirðingurinn Arnar Logi Hákonarson þenur raddböndin.
12.05.2012 - 10:42 | JÓH

Ný heimasíða grunnskólans á Þingeyri

Skjáskot af nýju heimasíðunni.
Skjáskot af nýju heimasíðunni.
Grunnskólinn á Þingeyri hefur tekið nýja heimasíðu í gagnið. Á vefsíðunni stendur að nýja heimasíðan sé mun aðgengilegri og skemmtilegri á allan hátt, bæði fyrir nemendur, aðstandendur og starfsfólk. Þarna munu birtast fréttir af skólastarfinu og þar er einnig að finna myndasafn skólans frá árinu 2003 til dagsins í dag.
06.05.2012 - 14:09 | JÓH

Dýrafjarðargöng á Facebook

Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði voru opnaðar 16. apríl sl. Vinna við mokstur heiðanna tók Vegagerðina 3-4 daga. Mynd: Vegagerdin.is
Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði voru opnaðar 16. apríl sl. Vinna við mokstur heiðanna tók Vegagerðina 3-4 daga. Mynd: Vegagerdin.is
Undirskriftarsöfnun, þar sem skorað er á stjórnvöld að færa Dýrafjarðargöng framar á verkefnalista Samgönguáætlunar 2012-2024, fer senn að ljúka. Undirskriftarlistar hafa legið frammi í verslunum á helstu þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum undanfarnar vikur, og samkvæmt vefsíðunni vestur.is hafa hunduðir skrifað undir áskorunina. Nú hefur verið stofnuð Facebook síða, tileinkuð Dýrafjarðargöngum, þar sem brottfluttum Vestfirðingum gefst kostur á að taka þátt í ákallinu um Dýrafjarðargöng.
Á samgönguáætlun fyrir árin 2012-2024 er gert ráð fyrir að vinna við Dýrafjarðargöng hefjist á síðasta tímabili áætlunarinnar, eða á árunum 2019-2022.
05.05.2012 - 09:55 | JÓH

Listsýning í Simbahöllinni

Valdimar. Mynd: Michaela Bur Am Orde
Valdimar. Mynd: Michaela Bur Am Orde
Á morgun, sunnudaginn 6.maí, verður sýning á verkum listakonunnar Michaela Bur Am Orde í Simbahöllinni. Meðal verka hennar eru málverk, og ljósmyndir sem hún hefur tekið af Dýrfirðingum undanfarnar þrjár vikur. Í tilkynningu frá Michaelu kemur fram að þetta sé fyrsta listsýning hennar en hún er nemi frá Þýskalandi. Hún kom fyrst til Íslands fyrir tveimur árum og heillaðist þá af landi og þjóð. Eftir að hafa dvalið á Þingeyri og hlustað á áhugaverðar sögur Dýrfirðinga ákvað hún að taka ljósmyndir af þeim og sýna afraksturinn áður en hún héldi heim á leið. Sýningin verður opin á milli kl. 14 og 17.
Eldri færslur
« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30