Dýrfirðingar eru merkilegt fólk - 1. Tómas Jónsson skólastjóri
Tómas Jónsson fæddist á Gili í Mýrahreppi í Dýrafirði 6. júní 1925. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 15. ágúst 1999. Foreldrar hans voru Jón Júlíus Sigurðsson, skósmiður og síðar bóndi og Valgerður Efimía Tómasdóttir. Systkini hans, sem öll eru látin, voru Haraldur, Sigurður (dóu ungir), Ingibjörg, Jóhannes og Oddur.
Tómas var einn þeirra persónuleika sem fjölhæfnin gerir þá um flesta hluti ólíka öðrum mönnum. Hann var húmoristi, sagnamaður og söngmaður. Íþróttamaður, hestamaður og bridgemaður prýðilegur. Bókhaldsmaður, trésmiður og múrari. Fyrirtaks ræðumaður, gleðimaður í góðra vina hópi og á mannamótum. Liðtækur leikari og afbragðs smali, svo nokkuð sé nefnt. Allt þetta og margir fleiri góðir eiginleikar einkenndu þennan sérstæða Dýrfirðing. Hæfileika sína setti hann ekki undir mæliker. Hann fór yfirleitt fremstur í flokki. Þó án þess að trana sér fram.
...Meira