A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
23.12.2015 - 20:40 | Vestfirska forlagið

Tveir vestfirskir höfundar kvaddir

Tryggvi Þorsteinsson skurðlæknir frá Vatnsfirði í Djúpi.
Tryggvi Þorsteinsson skurðlæknir frá Vatnsfirði í Djúpi.
« 1 af 2 »

Ekki fer hjá því að forleggjarar sem gefa út jafn viðamikið efni og Vestfirska forlagið hefur borið gæfu til að standa að á örfáum árum, kynnast mörgum karakterum. Höfundar bóka og annars efnis skipta þar hundruðum. Þetta fólk hefur upp til hópa gefið undirrituðum mikið. Ánægjuleg og prúðmannleg samskipti hafa verið þar í öndvegi.

    Nú hafa tveir heiðursmenn úr þessum hópi kvatt okkur með tveggja daga millibili, báðir háaldraðir. Þetta eru þeir Tryggvi Þorsteinsson skurðlæknir frá Vatnsfirði í Djúpi og Torfi Þorkell Guðbrandsson skólastjóri frá Heydalsá í Strandasýslu. Þessir tveir Vestfirðingar voru góðir fulltrúar sinna byggða. Þeir voru hógværir, hressilegir, kurteisir og gamansamir þegar það átti við. Heilsteyptir menn og æðrulausir.

   Við gáfum út tvö bindi æviminninga Torfa sem hann nefndi Strandamaður segir frá. Þau eru vel skrifuð og fengu góða dóma. Bæði löngu uppseld. Torfi var kominn af hákarlaformönnum í báðar bændaættir. Hann barðist í fimm ár í æsku við Hvítadauðann, sem setti ævarandi mark á líkama hans. Mátti sig ekki hræra misserum saman. Hann sigraðist á þeim ógnvænlega sjúkdómi undir styrkri hendi Vilmundar Jónssonar landlæknis og samstarfsfólks hans á Ísafjarðarspítala. Seinna gerðist hann kennari og skólastjóri í sinni heimabyggð.
Þess má geta, að við gáfum einnig út bók Sverris Guðbrandssonar, bróður Torfa. Nefnist hún Ekkert að frétta. Var Sverrir ekki síðri stílisti en bróðir hans. Húmor Strandamannsins í fyrirrúmi.

  
   Einnig gáfum við út tvær bækur eftir Tryggva Þorsteinsson. Á æskuslóðum við Djúp nefnist sú fyrri. Sú bók er merkileg heimild um lífið á Vatnsfjarðarstað og við Ísafjarðardjúp á uppvaxtarárum hans. Sú seinni, Kvöldheimar er ljóðabálkur eftir sænska Nóbelsskáldið Pär Lagerkvist sem Tryggvi þýddi að afloknum vinnudegi. Kom mörgum á óvart.
„Sjúklingum sinnti hann af mikilli nærfærni og skilningi enda var hann dáður af þeim jafnt sem samstarfsfólki. Þar sá ég hve  hann fann oft til með þeim sem áttu um sárt að binda og bágindi annarra snertu oft viðkvæma strengi í brjósti hans.“ Svo segir frændi Tryggva Þorsteinn Jóhannesson, læknir á Ísafirði.     

 

Hallgrímur Sveinsson. 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31