A A A
  • 1954 - Fríður Jónsdóttir
  • 1957 - Sigurður Rúnar Jónsson
Tómas tekur lagið í grunnskólanum á efri árum.
Tómas tekur lagið í grunnskólanum á efri árum.

Tómas Jónsson fæddist á Gili í Mýrahreppi í Dýrafirði 6. júní 1925. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 15. ágúst 1999. Foreldrar hans voru Jón Júlíus Sigurðsson, skósmiður og síðar bóndi og Valgerður Efimía Tómasdóttir. Systkini hans, sem öll eru látin, voru Haraldur, Sigurður (dóu ungir), Ingibjörg, Jóhannes og Oddur.

    Tómas var einn þeirra persónuleika sem fjölhæfnin gerir þá um flesta hluti ólíka öðrum mönnum. Hann var húmoristi, sagnamaður og söngmaður. Íþróttamaður, hestamaður og bridgemaður prýðilegur. Bókhaldsmaður, trésmiður og múrari. Fyrirtaks ræðumaður, gleðimaður í góðra vina hópi og á mannamótum. Liðtækur leikari og afbragðs smali, svo nokkuð sé nefnt. Allt þetta og margir fleiri góðir eiginleikar einkenndu þennan sérstæða Dýrfirðing. Hæfileika sína setti hann ekki undir mæliker. Hann fór yfirleitt fremstur í flokki. Þó án þess að trana sér fram.

 

Tók daginn snemma

 

    Eftirminnilegt er þegar Tómas smíðaði fyrir okkur nýtt 200 kinda fjárhús á Hrafnseyri sumarið 1969. Hann þurfti raunverulega ekki önnur verkfæri en hamar, sög og hallamál, þó gott væri að hafa önnur tól við höndina. Hann var yfirleitt búinn að vinna 2-3 tíma á morgnana áður en aðrir menn rumskuðu. Honum voru innborin ýmis lögmál timburs og trésmíða. Sperrurnar smíðaði hann til dæmis nánast blindandi. Og enginn var gleggri í að taka mál. Skeikaði aldrei. Slíkir menn eru ekki á hverju strái í dag.

 

Aginn kom af sjálfu sér

 

     Skólastjórn og kennslu stundaði Tómas lengi sem lifibrauð. Þar sveif meðalmennskan ekki yfir vötnum. Kom alltaf á réttum tíma í skólann, jafnvel eftir svefnlitla gleðinótt, umburðarlyndur, en hélt uppi aga sem menn urðu lítið varir við. Nokkrum dögum áður en skóli byrjaði á haustin kallaði hann á kennarana og skipti verkum og setti upp stundaskrá. Ef einhver var ragur við að kenna þetta eða hitt, kenndi hann það bara sjálfur. Allt áreynslulaust og eins og af sjálfu sér. Ekkert múður eða vesen.

   Sumir sögðu á okkar tíð að Barna og unglingaskólinn á Þingeyri, seinna nefndur grunnskóli, væri lélegur skóli. Slíkt tilheyrði, einkum frá þeim sem oftast gera meiri kröfur til annarra en sjálfra sín. Enginn kippti sér minna upp við slíkar einkunnir en skólastjórinn. En hann hélt sínu striki.

     Það var eitt sinn að hausti, skóli nýbyrjaður. Þá hringdi móðir eins drengsins í barnaskólanum til Tómasar og kvartaði yfir því að drengurinn lærði ekkert heima og sagði það ótækt að kennararnir létu hann komast upp með slíkt. Svaraði þá skólastjórinn: "Hafðu engar áhyggjur af drengnum, þetta lagast þegar snjórinn kemur." Þetta gekk eftir. Slík var sálfræði skólastjórans: Allt hefur sinn tíma. Það fylgir reyndar sögunni, að eftir samtalið hafi móðirin sagt við sjálfa sig: "Við þennan helvítis mann tala ég ekki oftar." Það varð þó ekki, því seinna gerðist þessi sama kona kennari við skólann!

 

Setti aldrei fyrirvara né girðingar

 

     Ef einhvers þurfti við í Dýrafirði, var leitað til gamla skólastjórans á Brekkugötunni, sem var ungur í anda til hinstu stundar. Aldrei brást Tómas. Sama um hvað var beðið. Hann virtist hafa tíma til alls, enda bóngóður og greiðvikinn. Setti aldrei fyrirvara né girðingar. Tók mönnum eins og þeir voru. Punktur.

   Tómas var hógvær maður og lítillátur, en samt maður andartaksins. Áberandi var í fari hans vinsemd í annarra garð. Undirritaður minnist þess ekki eftir 35 ára viðkynningu að hafa heyrt hann leggja misjafnt orð til nokkurs manns. Slíkt er eðli þeirra sem kunna kurteisi.

 

Með amerískt blóð í æðum

 

     Tómas Jónsson var með erlent blóð í æðum. Móðir hans, Valgerður, var dóttir Tom Scotts, sem var einn þekktasti skipstjórinn á hinum tígulegu amerísku skonnortum frá Gloucester í Massachussetts í Bandaríkjunum. Þeir höfðu sem kunnugt er bækistöð sína á Þingeyri í lok 19. aldar. Þegar Valgerður bar Tómas undir belti, vitjaði Scott gamli hennar í draumi og bað að láta heita eftir sér. Hún taldi það af og frá. Sér detti ekki í hug að skíra barnið nafni hans, hún hafi aldrei séð hann og hann hafi aldrei skipt sér af henni, hvorki fyrr né síðar.

   Næstu nótt dreymir hana sama drauminn. Gekk Tom Scott jafnvel svo langt að klípa hana til að leggja áherslu á orð sín. En hún neitaði sem fyrr. Þriðju nóttina dreymir hana enn sama drauminn, og er Tom Scott ákveðnari en nokkru sinni. Henni finnst þá að hún segi við hann: "Ég skal þá láta hann heita eftir þér, en aðeins með því skilyrði að þú lofir því að hann verði ávallt heilsuhraustur og duglegur að læra."

   Svo skrifar frúin á Mýrum í Dýrafirði, Edda Arnholtz, í ritgerð um þátt amerískra lúðuveiðara í sögu Dýrfirðinga og hefur eftir Oddi bónda á Gili, bróður Tómasar. Ekki vantaði það að afkomandi ameríska skipstjórans var heilsuhraustur megnið af ævi sinni, þoldi til dæmis kulda betur en aðrir menn, sama hvernig viðraði. Gekk ávallt léttklæddur. Og lærdómshæfileikarnir voru til staðar. Þetta var góð blanda. Slíkir persónuleikar sem Tómas Jónsson eru ómetanlegir sínu samfélagi, enda varð það daufara mjög við brottför hans.

 

Tómas átti góða konu

 

      Tómas Jónsson átti góða konu. Var vel kvæntur maður. Eiginkona hans, Sigríður Guðrún Steinþórsdóttir frá Lambadal, var akkerið í lífi hans hans og studdi hann með ráðum og dáð í öllum hans fjölbreyttu störfum. Á heimili þeirra var vestfirsk gestrisni í hávegum höfð og öllum tekið sem jafningjum. Þau hjón eignuðust fjögur börn, Jón Júlíus, Steinþór, Valgerði og Elísabetu sem öll eru manndómsfólk.


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31