A A A
  • 1950 - Margrét Guðjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
„Júlíus Geirmundsson var einn sá allra óvílsamasti, hressasti og málhreyfasti maður, sem ég hef fyrir hitt á lífsleiðinni“

Á láglendinu var lítil sem engin þoka og man ég ekki betur, en ég sæi glytta í hálfautt Fljótsvatnið stöku sinnum – nokkurn spöl til hliðar við okkur á vinstri hönd, þrátt fyrir náttmyrkrið. Ekki leið svo á löngu þar til við sáum ljós í gluggum. Trúlega hefur klukkan verið um níu að kvöldi, þegar við Bergmundur vorum sestir að snæðingi inn í stofu hjá Júlíusi Geirmundssyni bónda á Atlastöðum. Júlíus er vissulega einn sá allra óvílsamasti, hressasti og málhreyfasti maður, sem ég hef fyrir hitt á lífsleiðinni. Hann var þá að byggja reisulegt íbúðarhús úr timbri, sem ekki var að fullu frágengið þótt flutt væri í það. Kvað bóndi ýmsa kunningja sína telja þessa húsbyggingu hið mesta heimskuflan þegar allt byggingarefni hefði stórhækkað í verði og héldi áfram að hækka af völdum stríðsins. Álitu þeir, að hann væri að steypa sér út í það skuldafen, sem hann kæmist aldrei upp úr. Hann sagðist þó engu kvíða í því efni, þó timbur og allt annað til bygginga hefði að sönnu stórhækkað í verði, þá hækkaði síst minna það sem hann hefði til að greiða skuldirnar með. Sjálfsagt héldi dýrtíðin áfram að vaxa, þá myndi það sem nú þætti óhemjudýrt vera orðið ódýrt í krónum talið. Þar var Atlastaðabóndinn sannspár og vissulega allmiklu sannspárri, en nokkurn okkar sem á tal hans heyrðu óraði fyrir.

Ég dáðist að því með sjálfum mér hvað lýsing Sigmundar í Höfn, sem hann hann hafði gefið mér kvöldið áður af Júlíusi, var rétt og nákvæm í öllum atriðum. Að sögn Sigmundar var Atlastaðabóndinn lifandi eftirmynd föðurafa síns Guðmundar Snorrasonar, fyrrum bónda í Kjaransvík. Guðmundur hefði verið manna orðglaðastur og hress í bragði – verið mjög tamt að segja fáránlegar ýkjusögur, einkum af sjálfum sér og sinni lífsreynslu, en aldrei á þann veg að þær væru öðrum til meins. Munu slík alþýðuskáld jafnan hafa uppi verið og verða vonandi með hverri kynslóð. Hef ég til dæmis heyrt sagðar meistaralegar ýkjusögur hafðar eftir séra Páli Ólafssyni í Vatnsfirði, ennfremur hef ég hlustað á nokkrar hjá þeim frændum frá Laugabóli, Sigurði Þórðarsyni og Jóni Jónssyni föðurbróður hans. Er það í sjálfu sér mikil missa, að enginn skuli hafa skrifað þær niður á blað, því smám saman gleymast þær og deyja í minni manna, sem kunna frá þeim að segja.

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30