Bréf frá Skjaldabjarnarvíkurbónda til prófasts: - Úr bókinni - Á hjara veraldar -
Velæruverðugi [prófastur] og mjög vellærði kennimann. Ástsamleg heilsan.
Hér með vil ég yðar velæruverðugheitum til vitundar gefa: Um kvöldið þann 6. september [1790] kom hingað presturinn sr. Jóhann svo sem í húsvitjun og með honum Ólafur Ólafsson á Melum, líka Jón Árnason í Ófeigsfirði og gekk það með friðsemd skikkanlega til, sem ég hafði vit á eftir að taka. Samt hafði ég aldrei vit á að lofa því að ganga til sakramentis og standa opinbera aflausn. Að vera svo eftirlátur fyrir hans og annarra eigin sök og áfram sýna, ef ske mætti, mér til enn meiri vanvirðu. Verð því heldur nauðugur að hafa það svo búið en varbúið. En með heimuglega [venjulega] aflausn vildi ég það feginsamlega, nær sem fengi, þó með því móti að af sömu eður þá öðrum engin leynileg svik í nokkurn máta innifalin séu. Ég hygg allar kringumstæður á hlutunum vel athugast þurfi. Hér verandi næsti bær í þessari sveit, Drangar, hefir nær því 10 ár verið í eyði þar til um messudaga [að vori]1789. Samt vill enginn þar kynnast síðan byggðist. Að nokkur maður hafi boðist til að styrkja mig í því eftir megni, að ljá mér neinn mann, sem betra væri heldur en enginn í einhvern, svo sem mánaðar tíma alls á ári, meðan þing og kirkjuferð yfir stendur, og er gott ef enginn bannað hefur. Það er ekki líklegt [að] það hjú þurfi í vesöld að deyja ... hjá þeim mönnum sem skattur er af tekinn, fátt er of vel athugað. Því hefur mér orðið að ég hefi ekki lagt það í vana minn, eður þeir sem hér eru, að véla í burtu leynilega annars manns hjú þeim öldungis óvitandi sem með eiga. Tvö bréf læt ég hér fylgja með, svo sem til sýnis hvernig háttalag sveitarinnar er varið, eins fyrir þeim minni og meiri. Þegar þessi áminnst bréf skrifuðust í fyrstu, þá voru kallaðir helstu hreppstjórar, af sýslumanni tilnefndir, Jörundur Ásbjörnsson á Krossnesi, Guðmundur Tómasson þá á Melum; Jón Árnason í Ófeigsfirði, er ekki heldur eftirskilinn. Öngvir vilja þeir til fulls, eins og fleiri, skriflegt út gefa sem á ríður þó umbeðnir séu, heldur traðka því öllu, koma síðan flestallri sinni sök á aðra þegar þeir eiga við einfalda, hrekkjalausa og stráklausa menn. Láta þá sem fæst skriflegt vita, svo þeir geti þegar þeir vilja ætíð meira uppheimt í tollum, tíundum og sköttum en skyldan býður en sem kortast [birtist] í mörgu sem sjálfir gjöra eiga. Fáir munu þeirra lausum orðum trúa. Ekki heldur þó sjálfir upplýsi kónglegar fororðningar [fyrirmæli] og annað sem ekki vilja öllum sýna og almúginn allt vita þyrfti, sem honum við kemur og um biður skriflega, svo sem áður sagt hefi. Þarf svo ekki framar að orðlengja. Sömu bréf vil ég óskemmd aftur fá ef þér gefið ekki um [viljið ekki] að halda þeim, og svo upp á þetta bréf eitthvað skrif sjálfsagt að fyrstu hentugleikum. Mér er leitt ef allt þarf lengra að fara. Biðjandi samt yðar velæruverðugheit vel að virða og öllu á bestan veg snúa. Hér með afhendi ég yður þríeinum Guði um tíma og eilífð. Þetta segi í annað sinn, vera verði.
Skjaldabjarnarvík d. 18. september 1790.