Á hjara veraldar
Inngangsorð úr nýju bókinni -Á hjara veraldar- eftir Guðlaug Gíslason frá Steinstúni í Strandasýslu. Vestfirska forlagið gefur út.
Það var enginn barnaleikur að búa á afskekktustu jörðum þessa lands áður og fyrr. Erfiðleikarnir voru margvíslegir og ekki átakalaust að vinna bug á þeim. Þar voru Hornstrandir líklega sér á báti. Hér á eftir, er við það miðað að sögusviðið, sem er nyrðri hluti Árneshrepps í Strandasýslu, tilheyri Hornströndum, en nokkurs meiningamunar hefir lengi gætt um hver séu austustu mörk þeirra. Þorvaldur Thoroddsen, sem ferðaðist um þetta svæði sumarið 1886, áleit eðlilegast að telja að Hornstrandir nái frá Rit, austur um Horn og þaðan austur að Reykjaneshyrnu. Þorleifur Bjarnason höfundur Hornstrendingabókar, taldi hinsvegar ekki rétt að fara svo langt austur, heldur láta Geirólfsgnúp og sýslumörk, N- Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu, ráða austurmörkum Hornstranda,“þótt landfræðilega kynni að vera réttara að miða við Reykjaneshyrnu“.
Einn af þeim erfiðleikum sem sigrast varð á, og ekki varð undan vikist, var að flytja lík til greftrunar þegar andlát hafði borið að. Brugðið gat til beggja vona, að veður gæfi um langan tíma á hvaða árstíma sem var, eins og dæmin sanna, og ósjaldan setti hafísinn strik í reikninginn. Í rauninni var ekki um annan kost að velja en sjóleiðina, en sóknarkirkja Skjaldabjarnarvíkur, sem er nafli þessara frásagna, var Árneskirkja í Trékyllisvík.
Það var líka þung kvöð sem lá á fólki að sækja kirkju og taka þátt í helgihaldi safnaðarins, en fjarlægðin og óblíð náttúra bönnuðu. Í Þjóðskjalasafni Íslands hafa nýlega komið í leitirnar, meira en tveggja alda gömul skjöl, sem hafa legið þar óhreyfð öll þessi ár. Bréfin greina frá viðskiptum og kærumálum á hendur Jóni Árnasyni bónda í Skjaldabjarnarvík við kirkjunnar þjóna vegna „kirkjuforsómunar,“ sem prestarnir nefndu svo, og gengu alla leið til Skálholtsbiskups. Þar fundust líka bréf frá sama tíma, vegna eftirmála, sem urðu útaf greftrun, Hallvarðs Hallssonar húsmanns í Skjaldabjarnarvík, en hann var, eins og margir vita, grafinn þar í túninu án vitundar prests og án yfirsöngs. Þá verður einnig sagt frá kærumálum vegna dráttar sem varð á að koma líki vinnukonu í Skjaldabjarnarvík til greftrunar í Árnesi.
Svo verður líka farið um víðan völl.
Í bókinni „Prestatal og Prófasta“ 2. útgáfu 1949, segir:
„Forðum lágu fjögur bænhús til Árness.[bænhús=lítil kirkja, e. k. heimiliskapella án reglulegrar þjónustu]. Voru bænhús á Dröngum og Stóra - Felli fram um 1600. Í Skeljavík[?] og Skjalda-Bjarnarvík voru bænhús til forna, löngu af tekin. Þá er og talið að bænhús hafi verið í Ófeigsfirði, og í Bæ í Trékyllisvík. Er sagt að kirkjan hafi verið flutt þaðan að Árnesi, en þar er komin kirkja um 1244. Einnig er talið að bænhús hafi verið í Bolungarvík og Kirkjubóli í Reykjarfirði, en að þau hafi lagst niður á 16 og 17 öld.“
Hér á eftir verður nánar greint frá þessum atburðum, og bréfin og skjölin birt í heild og látin segja söguna eins og framast er kostur. Jafnframt eru gefnar skýringar á setningum eða einstökum orðum, þar sem þurfa þykir. Stafsetning bréfanna og sérstaklega setningaskipunin er færð til nútíma horfs eftir því sem mögulegt er. Setningar og orð innan hornklofa eru mínar skýringar. Um bréf Jóns bónda Árnasonar er það að segja að frumrit þeirra hafa ekki fundist, en bréfin afritaði séra Jón Sveinsson prófastur á Stað í Steingrímsfirði, en þau voru honum send í upphafi. Gera má ráð fyrir því að lesendum þyki þau torskilin.
Rétt er að geta þess að þjóðsagan af Hallvarði Hallssyni hefir víða birst; verður að sjálfsögðu ekki við henni hróflað. Það sem hér á eftir er fjallað um er að heita má allt samkvæmt samtíma heimildum um það, sem gerðist í Skjaldabjarnarvík eftir að sögu Gísla Konráðssonar um Hallvarð líkur. Hér með eru Jóni Torfasyni skjalaverði á Þjóðskjalasafninu færðar þakkir fyrir einstaka lipurð og hjálpsemi við lestur torráðinna orða og bréfa. Líka þakka ég Guðmundi syni mínum fyrir lestur prófarka og margvíslega aðra liðveislu.