A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
30.12.2019 - 12:32 |

Gústi guðsmaður

Gústi - alþýðuhetjan, fiskimaðurinn og kristniboðinn er heiti bókar eftir Sigurð Ægisson, guðfræðing og þjóðfræðing, sem
út kom í byrjun nóvember en bókin er gefin út af bókaútgáfunni Hólum. Eins og titillinn ber með sér er þar á ferðinni ævisaga Gústa guðsmanns, sem Gylfi Ægisson gerði ódauðlegan í samnefndu lagi sem kom út sumarið 1985.

Gústi var fæddur í Dýrafirði 29. ágúst árið 1897 og hét fullu nafni Guðmundar Ágúst Gíslason. Hann er að líkindum nafntogaðasti
íslenski sjómaður 20. aldar, að öðrum ólöstuðum, eins og segir á bókarkápu, „var orðinn hálfgerð þjóðsagnapersóna meðan
hann enn lifði, hvað þá eftir að hann lést. Hann þekkti hafið eins og fingurna á sér, var klár á öllu veðri. Það var sama
hversu tryllt náttúruöflin gerðust, alltaf náði hann landi. Og ótti var ekki til í honum. Af því að hann, að eigin sögn, var aldrei einn. Guð var þar líka.“

Gústi ólst að mestu upp í Hnífsdal og á Ísafirði en bjó 
lengstum á Siglufirði eða í rúma hálfa öld, var þar með lögheimili frá 1929 til dánardags 12. mars 1985. Áður en hann flutti þangað var hann búinn að vera í millilandasiglingum, fara m.a. til Afríku, Asíu og Suður-Ameríku, e.t.v. Ástralíu segja heimildarmenn, og kynnast neyðinni sem fyrir augu bar víða. Þetta mótaði hann fyrir lífstíð og gerði að mannvininum, sem heimurinn fékk að kynnast upp frá því.
  Gústi var kjarnyrtur, bölvaði út í eitt og ragnaði en betra hjarta var ekki til. Hann studdi fátæk börn úti í heimi til náms
og gaf til þess nánast allt sem hann aflaði á litlu trillunni sinni, frá 1949 og þar til hún var búin á því, um 30 árum síðar.
 
Á einum stað í bókinni er eftirfarandi texta að finna:

Ef ekki var um það að ræða að geta notast við seglbúnaðinn, t.d. í hvítalogni, lagðist Gústi oftar en ekki á árar til að koma
sér á miðin og jafnvel þannig heim líka. „Af hverju ertu alltaf róandi, Gústi?“ var hann spurður einhvern tíma. „Það er ódýrara,“ var svarið. Ólafur Guðmundsson: „Að hugsa sér, orðinn þetta fullorðinn maður og róandi stanslaust. Hann reri og reri og reri. Þetta var þungur bátur.“ Kristinn Konráðsson, fyrrverandi sjómaður, bætir við: „Að taka hann héðan frá bryggjunni og róa út á Nes [...] Það var bara verst að hafa hann af stað. Svo eftir að hann var kominn á skriðinn, þá var allt í lagi,“ sagði Gústi.Og bróðir hans, Sigurður Konráðsson, fyrrverandi sjómaður og húsa- og bátasmiður, segir: „Þetta var járnkarl. Það er bara eitt orð yfir það.“„Þetta var náttúrulega alveg hörkumaður eins og allir Vestfirðingar,“ tekur Sveinn Björnsson undir, „þetta var alið
upp þarna við sjóinn. Það er eins og ég segi, það þurfti tvo venjulega menn á móti einum Vestfirðingi, þegar þeir voru upp á
sitt besta. Karlinn hefur verið duglegur og góður sjómaður.“

Gústi minnti óneitanlega töluvert á aðra kempu og þjóðsagnapersónu, Símon á Dynjanda, langafa sinn í móðurætt,
sem fór ungur utan, dvaldi í Höfn og víðar samfleytt í 15 ár, nam siglingafræði bæði í Danmörku og Þýskalandi, að sagt er, tók
þar skipstjórapróf með bestu einkunn og mun hafa verið fyrsti íslenski skipstjórinn á vestfirskum þilskipum og jafnframt fyrstur
Íslendinga sem vitað er um með vissu til að stýra fleyi á milli landa á seinni öldum.
 
Gils Guðmundsson ritar í Skútuöldinni, eftirfarandi:

„Í gömlum bréfabókum tilheyrandi Neðstakaupstaðnum á Ísafirði er oftar en einu sinni talað um, að Símon skipstjóri hafi komið
með bréf til Kaupmannahafnar eða sé beðinn fyrir þau til Íslands. Virðist hann hafa siglt eina ferð á ári hverju um nokkurt skeið, og þá jafnan að haustinu. Kemur fyrir, að hann er ekki ferðbúinn frá Kaupmannahöfn fyrr en í októbermánuði og hefur þá hin litla fleyta hans orðið að kljúfa haustsjóana heim til Íslands [...].“

Símon var kjarkmaður með afbrigðum, skapmikill, rammur að afli, annálaður sjósóknari og brást naumast veiði. „Vel þótti hann
íþróttum búinn, og var einkum til þess tekið hvílíkur selaskutlari hann var. Er um hann sögð sú saga, að einhverju sinni
var hann á selveiðum og hitti fyrir menn í sömu erindum. Spurðu hvorir aðra eftir afla og öðrum tíðindum og var spölur á milli
bátanna. Allt í einu snarast Símon upp af þóttu sinni og grípur skutulinn. Í sömu andrá heyra aðkomumenn skutulinn þjóta yfir
höfði sér og sjá hann nema staðar í sel, sem stungið hafði upp trjónunni handan báts þeirra. Slík voru handtök Símonar í flestum
greinum. Símon var lengi skipstjóri og þótti æ því meiri maður sem hann lifði lengur [...]. Er mikið skipstjóra- og sægarpakyn
komið af Símoni á Dynjanda.

Ein saga af Gústa kemur hér til enn frekara sannindamerkis. Hún er á þá leið, að einhvern tíma í kolbrjáluðu veðri fyllti
Sigurvin í höfninni og maraði hann þar í hálfu kafi. Þetta var í myrkasta skammdeginu og úti hörkufrost. Gústi, hafandi séð þetta,
rauk niður á bryggju og stökk þaðan ofan í og fór að ausa, með sjóinn upp á læri, til að reyna að bjarga málum. Ólafur og Pétur
Guðmundssynir og einhverjir fleiri sáu hvað var að gerast og þutu líka til aðstoðar. Þegar búið var að tæma fleyið löngu síðar
og koma því í betra skjól, verður eigandanum, rennandi blautum eftir volkið, að orði: „Nú held ég að mér fari að verða
kalt.“ Já, Gústa kippti án nokkurs vafa í kynið.

Sigurður vann að gerð þessarar sjöundu og nýjustu ritsmíðar sinnar í næstum 20 ár og leitaði víða fanga, skrifaðist m.a. á
við fjölda manns erlendis. Bókin, sem er um 480 blaðsíður að stærð, er byggð á rúmlega 550 heimildum, jafnt munnlegum sem rituðum/prentuðum. Bókin hefur allan desembermánuð verið á Topp 10 á Bóksölulista Félags
íslenskra bókaútgefenda yfir mest seldu ævisögurnar, oftast í fjórða sæti.
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31