A A A
  • 1954 - Fríður Jónsdóttir
  • 1957 - Sigurður Rúnar Jónsson
06.10.2014 - 12:31 | Bergþóra Valsdóttir

Fréttabréf Dýrfirðingafélagsins september 2014



Árshátíð Dýrfirðingafélagsins 2014



Kæru félagar;

við hefjum 68. starfsár félagsins með árshátíðinni okkar sem haldin verður laugardaginn 11. október í Stangarhyl 4, 110 Reykjavík. Nokkrar sveiflur hafa verið í þátttöku undanfarin ár en þó er alveg ljóst að vilji félagsmanna stendur til þess að haldin sé árshátíð. Til þess að svo megi verða er nauðynlegt að félagsmenn fjölmenni og hvetji ennfremur vini og ættingja til þátttöku. Til þess að árshátíðin standi undir sér þurfa 80 manns að mæta. Fátt er betra en að eiga skemmtilega stund í hópi góðra vina, rifja upp gamla tíma og njóta lífsins. Oft erum við minnt á mikilvægi þess að njóta stundarinnar og er árshátíðin kjörinn vettvangur til þess.

 

Að venju hefur skemmtinefndin staðið afskaplega vel að undirbúningi árshátíðarinnar og fengið til liðs við sig mikið hæfileikafólk úr hópi Dýrfirðinga. Leiðarstefið í ár, eins og áður, er að ,,maður er manns gaman”. Eins og alltaf er það undir ykkur sjálfum komið, félagsmenn góðir, hvernig til tekst.

 

Við hlökkum til að sjá ykkur í hátíðarskapi á árshátíðinni!

f.h. stjórnar og skemmtinefndar,

Bergþóra Valsdóttir

Ósk Elísdóttir


Skýrsla stjórnar á aðalfundi 2014

Á starfsárinu fundaði stjórn átta sinnum auk tölvusamskipta þess á milli. Á tveimur þessara funda var fundað með skemmtinefnd í kjölfar árshátíðar en farið var yfir stöðuna og lagt á ráðin um hvernig mætti stuðla að aukinni þátttöku, jafnt yngri sem eldri. Í kjölfarið voru send út um 50 bréf til Dýrfirðinga á höfuðborgarsvæðinu, og víðar, þar sem félagið var kynnt og fólk hvatt til að ganga til liðs við okkur. Eftir er að fylgja málinu eftir við hvern og einn en enn sem komið er hefur átakið ekki skilað nema einum félaga.

 

Fulltrúar stjórnar funduðu einu sinni með kaffinefnd og tvisvar með fulltrúum félagsins í Spurningakeppni Átthagafélaganna.

Formaður, Jón Gíslason meðstjórnandi og Kristján Davíðsson sóttu fyrir hönd stjórnar upplýsingafund um skrásetningu fornminja á Vestfjörðum. Þann fund sóttu fulltrúar frá Súgfirðingum og Önfirðingum, auk okkar. Í kjölfarið var ákveðið, að frumkvæði Súgfirðinga, að bjóða, í samstarfi við Minjastofnun, upp á námskeið um skrásetningu fornminja sem haldið verður á Suðureyri við Súgandafjörð 13. og 14. júlí n.k.

 

Átthagi var opnaður um miðjan júní, hann þrifinn hátt og lágt og borið á bústaðinn. Ennfremur var flötin hirt og borið á hana og reynt að hafa hemil á lúpínunni sem breiðir hratt úr sér. Bústaðurinn var leigður út í 10 vikur og nokkra daga í lok maí. Lítill áhugi virðist vera á að leigja hann í maí og september þrátt fyrir ábendingar til félagsmanna þar um.

 

Þetta starfsárið voru Kaffinefnd og Skemmtinefnd fullmannaðar og gekk starf þeirra mjög vel. Árshátíðin var haldin 12. október og var Ragnar Gunnarsson veislustjóri og Bjarni Guðmundsson frá Kirkjubóli flutti minni Dýrafjarðar. Fremur fámennt var en það var mat þeirra sem mættu að allir hefðu skemmt sér afskaplega vel. Það voru þau Valgerður Tómasdóttir, Ósk Elísdóttir, Álfheiður Erla Sigurðardóttir, Sigurborg Þóra Helgadóttir, Þorbergur Steinn Leifsson og Ólafur Sigurðsson sem áttu heiðurinn af skipulagningu og framkvæmd árshátíðarinnar og eru þeim hér með þökkuð góð störf.

 

Ákveðið var að gera aðra tilraun á aðventunni með ,,Leitina að dýrfirska jólasveinum“ í reit félagsins í Heiðmörk. Mjög slæmt veðurútlit gerði það að verkum að ákveðið var að blása atburðinn af en reyna aftur að ári.

 

Stjórnin tók þá ákvörðun á starfsárinu að halda áfram þátttöku í Spurningakeppni átthagafélaganna, eins og árið áður. Keppnin gekk ekki eins vel og við var búist og mættu mun færri en í fyrra. Lið félagsins, skipað þeim Jóhanni Vilborgar- og Gíslasyni, Gyðu Hrönn Einarsdóttur og Torfa Sigurðssyni – en þau voru með þá Þorberg Stein Leifsson og Sigurð Bergsson á hliðarlínunni – þau stóðu sig með miklum sóma en það voru Skaftfellingar sem unnu keppnina eftir bráðabana við Húnvetninga. Við þökkum okkar frábæra liði fyrir þátttökuna.

 

Kaffidagurinn var haldinn 9. mars í Fella- og Hólakirkju en allur ágóði af kaffisölunni fer í sjóð sem veitt er úr til góðra málefna í Dýrafirði. Að venju hófst dagurinn á messu þar sem Sr. Svavar Stefánsson þjónaði fyrir altari en Aðalsteinn Eiríksson frá Núpi flutti mjög skemmtilegt erindi og fróðlegt. Guðbjörg Leifsdóttir lék á orgelið og kór Dýrfirðinga leiddi safnaðarsönginn. Kaffisalan gekk vel og svignuðu borðin undar glæsilegum kræsingum í boði kaffinefndar, stjórnar og skemmtinefndar. Kaffinefndina skipuðu þau Torfi Sigurðsson, Kristín Jóhanna Valsdóttir, Guðmundur Árnason, Vilborg Guðmundsdóttir, Þórunn Einarsdóttir, Kristján Ottósson og Ingibjörg Ottósdóttir. Er öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til að gera daginn mögulegan þakkað af heilum hug.

 

Fyrir hönd stjórnar vil ég að lokum þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg á starfsárinu fyrir þeirra framlag og ánægjulegt samstarf.
Bergþóra Valsdóttir


 

Helstu niðurstöður aðalfundar Dýrfirðingafélagsins 2014

Formaður, Bergþóra Valsdóttir, bauð gesti velkomna. Bergþóra var kosin fundarstjóri og Gyða Hrönn Einarsdóttir var kosin ritari.

Fundargerð síðasta aðalfundar var samþykkt einróma en formaður félagsins minntist síðan látinna félaga og vottuðu fundarmenn þeim virðingu sína með einnar mínútu þögn.

Því næst flutti formaður skýrslu stjórnar en hún er birt í heild sinni á öðrum stað í fréttabréfinu. Gerð var athugasemd við að gleymst hafði að geta Ólafíu Steinarsdóttur í skemmtinefnd og var það leiðrétt. Frekari athugasemdir komu ekki fram.

Að þessu loknu kynnti gjaldkeri rekstrarreikninga félagsins fyrir síðasta ár. Engar athugasemdir komu fram og voru þeir samþykktir einróma.

Stjórn félagsins lagði fram breytingartillögu að 5. gr. laga félagsins: ,,Til aðalfundar skal stjórnin boða skriflega og með sannanlegum hætti með minnst 14 daga fyrirvara. Í fundarboði skal greina fundartíma, fundarstað og dagskrá”. Tillagan var samþykkt einróma. Auk þess lagði stjórn fram tillögu, sem eftir umræður var samþykkt í eftirfarandi mynd: ,,Nefndirnar velji sér formann á fyrsta nefndarfundi eftir aðalfund sem formaður stjórnar boðar”.

 

Tillaga stjórnar um breytingu á úthlutunarreglum Átthaga í samræmi við breytingar sem samþykktar voru á aðalfundi 2013 um að umsóknarfrestur um Átthaga verði 15. mars í stað 1. maí og úthlutun verði tilkynnt í síðasta lagi 1. apríl í stað 15. maí var samþykkt án athugasemda

 

Stjórn lagði til breytingar á Í 5. grein úthlutunarreglna Átthaga sem voru samþykktar í þessari mynd eftir umræður: ,,Utanfélagsmenn geta leigt lausar vikur í Átthaga þegar hefðbundinni úthlutun til félagsmanna er lokið. Utanfélagsmen greiða auk leigu upphæð sem samsvarar félagsgjaldi”.

 

Því næst voru nýir félagar teknir inn en að því loknu var samþykkt tillaga stjórnar um að árgjaldið verði óbreytt, kr. 3100,-

Þegar kom að kosningum stjórnarmanna gerði fundarstjóri grein fyrir því að formaður hefði verið kjörin til tveggja ára 2013 og því færi formannskjör ekki fram á þessum fundi. Ennfremur voru Gyða Hrönn Einarsdóttir og Þuríður Steinarsdóttir kosnar til tveggja ára 2013 og sitja því áfram í stjórn. Guðmundur Hermannsson og Jón Gíslason gáfu ekki kost á sér áfram í stjórn félagsins. Ragnar Gunnarsson og Hanna Jóna Ástvaldsdóttir gáfu kost á sér í þeirra stað og voru þau kosin einróma.

 

Fundarstjóri greindi frá því að Hanna Laufey Elísdóttir hefði verið kosin varamaður í stjórn á síðasta aðalfundi og sitji því áfram. Í stað Hönnu Jónu var Matthías Ottósson tilnefndur sem varamaður og kosinn einróma.

 

Að þessu loknu var komið að kosningu tveggja skoðunarmanna reikninga. Anna Torfadóttir gaf áfram kost á sér en í stað Dýra Guðmundssonar, sem gaf ekki kost á sér, var Þorbergur Steinn Leifsson kosinn.

 

Kosning í skemmtinefnd var næst á dagskrá. Áfram í eitt ár sitja Álfheiður Erla Sigurðardóttir, Ósk Elísdóttir, Valgerður Tómasdóttir, Ólafía Steinarsdóttir, Þorbergur Steinn Leifsson, Sigurborg Þóra Helgadóttir og Ólafur Sigurðsson. Sigurborg Þóra og Ólafur báðust lausnar af persónulegum ástæðum og voru Ragnar Kjaran Elísson og Barði Kristjánsson kosnir í þeirra stað.

 

Í kaffinefnd voru kosnir 2013 til tveggja ára þau Guðmundur Árnason, Vilborg Guðmundsdóttir, Þórunn Einarsdóttir, Kristján Ottósson og Ingibjörg Ottósdóttir. Kristján Ottósson baðst lausnar á fundinum og vantaði því þrjá í kaffinefnd. Hermann Sigurðsson og Eyþór Guðmundsson voru kosnir og stjórn falið að finna þriðja aðilann.

 

Miklar og góðar umræður urðu um tillögu stjórnar að ályktun vegna stöðu atvinnumála á Þingeyri. Þorbergi Steini Leifssyni, Aðalsteini Eiríkssyni og Dýra Guðmundssyni var falið að lagfæra tillöguna til samræmis við ákvörðun fundarins og hljóðar hún þannig: ,,Aðalfundur Dýrfirðingafélagsins haldinn í Reykjavík 13. maí 2014  harmar þá stöðu sem upp er komin í atvinnumálum Dýrfirðinga og þann héraðsbrest sem vofir yfir. Skorað er á hlutaðeigendur, stjórnvöld og atvinnurekendur, að bregðast tafarlaust við og leita allra leiða til þess að tryggja áframhaldandi atvinnu og búsetu á Þingeyri. Aðgerðaleysi stefnir efnahag og mannlífi fjarðarins í hættu.

 

Fundurinn hvetur einnig stjórnvöld til þess að snúa vörn í sókn  með markvissum og samræmdum aðgerðum í samgöngumálum fjórðungsins. Tafalaus ákvörðun um tengingu fjarðanna og byggðanna um Dýrfjarðargöng er mikilvægur liður í slíkum aðgerðum. Þannig yrði einangrun rofin og stærra atvinnu-, menningar- og félagssvæði myndaðist. 

Í viðhaldi lifandi samfélaga, með mikla sögu, í litlum byggðarlögum á landsbyggðinni kunna að leynast verðmæti í framtíðinni sem ekki eru öllum fyllilega ljós núna. Nú kann að vera ögurstund fyrir mörg slík samfélög og ekki víst að unnt verði að snúa til baka ef illa fer. Framtíð þjóðarinnar, og möguleikar hennar, yrði þannig mun fátæklegri en ella.” 

Formaður kynnti þá undirbúning námskeiðs um skráningu fornminja á Vestfjörðum og sagði frá því að nú hefur stjórn félagsins aðgang að vefsvæði Þingeyrarvefsins og á það að auðvelda birtingu efnis á vegum félagsins.

 

Jón Gíslason þakkaði því næst ánægjulegt og farsælt 17 ára samstarf í stjórn félagsins. Dýri Guðmundsson og Guðmundur Hermannsson þökkuðu fyrir sig með nokkrum orðum. Að lokum var þeim öllum þakkað þeirra starf og ómetanlegt framlag til félagsins á undanförnum árum.

 

 

 

 

Sala aðgöngumiða á árshátíðina

 

Miðar verða seldir í forsölu í Stangarhyl 4 miðvikudag 8. október kl. 16:30-18:30 og fimmtudag 9. október á sama tíma. Þá er einnig hægt að panta miða hjá Ósk í síma 867 1007.

Miðaverð á dansleikinn eingöngu, eftir klukkan 22.00, er aðeins 1000 kr.

 

 

   

 

Líkt og undanfarin ár verður opinn bar þar sem áfengi verður selt á vægu verði. Ekki verður þó amast við því kjósi einhverjir frekar að taka með sér brjóstbirtu að heiman.





Árshátíð Dýrfirðingafélagsins

11. október 2014 í Stangarhyl 4



Dagskrá

Húsið opnar kl. 18:00

Borðhald hefst stundvíslega kl. 19:00

Maturinn er frá Gunnari Björnssyni eins og í fyrra

Skelfisksalat á íslenskum pönnukökum

Kjúklingabringur og/eða lambaprime með salati og tilheyrandi

Kaffi og konfekt í eftirrétt

 

Hljómsveitin Hafrót leikur létta dinnertónlist

Veislustjóri: Guðbjörg Leifsdóttir

Minni Dýrafjarðar flytur Kristín Auður Elíasdóttir

Óvænt skemmtiatriði að heiman :-)

Fjöldasöngur undir borðum og dregið í hinu sívinsæla og gjöfula happdrætti þar sem úrval vinninga hefur aldrei verið glæsilegra

Hljómsveitin Hafrót heldur svo uppi fjörinu á dansleiknum eins og þeim er einum lagið. Muna að koma í dansskónum :-)

Miðaverð á herlegheitin er mjög hófstillt eða 6.500 kr. á mann



 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31