A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir

Um Dýrfirðingafélagið

Starfsemi Dýrfirðingafélagsins

 

Í lok árs 1945 dreifðu nokkrir áhugamenn um stofnun Dýrfirðingafélagsins undirskriftalistum til að kanna vilja Dýrfirðinga á suðvesturhorninu þar um.  Svo fór að félagið var stofnað þann 3. mars 1946 og var fyrsti formaður félagsins Kristján Bergsson. Aðrir í stjórn voru Viggó Nathanaelsson varaformaður, Bjarni Jónsson gjaldkeri, Kristján Sig. Kristjánsson ritari og Sæmundur Jónsson meðstjórnandi. Árið 1946 greiddu 231 árgjald. Árið 1957 voru félagsmenn 257 og 2014 eru þeir um 270.

 

Áhugann fyrir stofnun slíks átthagafélags má rekja til sterkra tengsla, tryggðar og umhyggju fyrir heimahögunum. Í öllu starfi Dýrfirðingafélagsins hefur þetta skinið í gegn og mótað starfsemina. Fyrir marga þá sem fluttu á Suðvesturhornið um og eftir seinna stríð var flutningurinn tregablandinn. Áuginn á að halda sambandi við ættingja, vini og félaga að vestan og fyrir vestan var mikill og Dýrfirðingafélagið skóp vettvang fyrir þennan hóp að hittast og taka þátt í sameiginlegum verkefnum.

 

Guðmundur Ólafsson húsgagnameistari frá Hólum samdi 1947 ljóð við lagið ,,Ó, fögur er vor fósturjörð”. Hann hafði sér til mikillar ánægju sótt fundi félagsins og eitt sinn er verið var að syngja ,,Ó fögur er vor fósturjörð” sem allir virtust kunna datt honum í hug að kannski þætti félagsmönnum gaman að eiga eins og eina vísu sem minnti á  Dýrafjörð og sem hægt væri að syngja undir þessu lagi. Sendi hann formanninum Kristjáni Bergssyni ljóðið sem hann nefndi ,,Sveitin mín” og bauð honum að fjölrita þær svo félagsmenn ,,geti, ef þeir kæra sig um, sungið þær á fundum félagsins, eða þar sem meðlimir þess kunna að mætast”. Ljóðið lýsir vel væntumþykjunni en líka treganum sem flutningnum fylgdi.

 

Sveitin mín

Lag: ,,Ó fögur er vor fósturjörð”

 

Þú Dýrafjörður feðra byggð

með fjallasali háa,

þín hafa börnin tekið tryggð

við tinda þína bláa.

Og þegar sólin gyllir grund

og gára þinna strauma,

þá er vor sál í Edens lund

að yrkja vökudrauma.

 

Við elskum dögg á dalarós

og dreyra morgunsólu.

Vér þráum öll þau undraljós,

sem okkur rökkvann fólu.

Í þínum fagra fjallasal

við fáum áður lýkur,

að líta gamlan gróinn dal

og gull, sem ekki svíkur.

 

Og hamrabeltin halda vörð

um hjartans óskir mínar,

um þína byggð og búmannshjörð

og blómarósir sínar.

Við þráum öll að eiga skjól

við arin þinna sala,

og kvæðin vor í sumarsól

að syngja fram til dala.

                   Guðmundur Ólafsson frá Hólum

 

Í kjölfar ljóðs Guðmundar fylgdu fleiri ljóð félagsmanna um Dýrafjörð sem mörg hver hafa varðveist í gögnum félagsins.

 

Um 1950 var gerð breyting á lögum félagsins þess efnis að á aðalfundi ár hvert gengju tveir stjórnarmenn úr stjórn og nýjir kosnir í þeirra stað. Má leiða líkum að því að þetta hafi verið gert til að tryggja ákveðna samfellu í starfi stjórnarinnar og koma í veg fyrir að skipt yrði um alla stjórnarmenn í einu. Sami háttur er í dag hafður á kjöri í allar nefndir félagsins.

 

Nefndir félagsins endurspegla á ákveðinn hátt áherslur í starfi félagsins en líka samfélagsþróunina. Um 1950 var starfrækt skógræktarnefnd innan félagsins, ennfremur sögunefnd sem ætlað var að safna drögum að sögu Dýrafjarðar og skemmtinefnd. Einnig þótti eldri félögum nauðsynlegt að halda óformlega rabbfundi þar sem hægt væri að ræða stefnumál félagsins og önnur hugðarefni ,,þar sem áhugi unga fólksins beindist eingöngu að skemmtiatriðunum svo að ekki gæfist tóm til annars”.

 

Sögunefnd og skógræktarnefnd eru ekki starfandi lengur. Skemmtinefndin hafði það hlutverk, í samráði og samstarfi við stjórn félagsins, að skipuleggja og sjá um framkvæmd á ýmsum skemmtunum félagsins. Þá var ekki slíkt úrval af afþreyingu sem við búum við í dag. Uppákomur á vegum félagsins voru þó fyrst og fremst tækifæri fyrir brottflutta Dýrfirðinga að halda hópinn og hittast.

 

Í upphafi var lögð áhersla á kvöldvökur eða skemmtikvöld, spilakvöld, árshátíð og jólatrésskemmtun. Á skemmtikvöldum sem í upphafi gengu undir nafninu ,,kvöldvökur” var, eins og nafnið ber með sér, lögð áhersla á ýmis skemmtiatriði. Voru þau ýmist aðkeypt eða flutt af félagsmönnum. Má þar nefna upplestur, söng, leikatriði, spurningakeppnir og dans. Voru þau oft haldin nokkrum sinnum á ári.

 

Á spilakvöldunum, sem voru með nokkurs konar mótafyrirkomulagi, var keppt til verðlauna. Oft voru það peningaverðlaun en dæmi eru um að verðlaunin hafi verið skemmtisigling á Ms. Gullfossi. Á tímabili var starfrækt bridsnefnd í félaginu.

Kosið var í Leiknefnd árið 1953 og einnig í nefnd sem ætlað var að koma á söngflokki. Um 1959 má fullyrða að fullvaxinn kór hafi starfað í félaginu. Söng hann t.d. á árshátíð félagsins 12. mars 1964 en lognaðist út af nokkru seinna.

 

Mörgum eru eflaust minnistæðar jólatrésskemmtanir sem Dýrfirðingafélagið stóð fyrir upp úr 1960. Þegar tímar liðu var aukið framboð af jólatrésskemmtunum í fyrirtækjum og stofnunum þess m.a. valdandi að ákveðið var að leggja þær af.

 

Einn allra veigamesti þátturinn í starfi félagsins frá upphafi og allt til um 1990 voru ferðalögin. Voru þau upphaflega að mestu leyti í höndum stjórnarmanna en síðar meira í samstarfi við skemmtinefndina. Á þessum tímum var almenn bílaeign landsmanna lítil og vegakerfið mun frumstæðara en nú er.  Var það sjálfsagt ein ástæða þess að ferðir félagsins voru vinsælar og yfirleitt mjög vel sóttar.

 

Hefð skapaðist fljótt fyrir því að fara árlega í helgarferðir frá laugardegi til sunnudags og á fimm ára fresti til Dýrafjarðar.  Má nefna ferðir á Kirkjubæjarklaustur, á Strandir, í Dalina, Þórsmörk og í  Þjórsárdalinn. Þann 27. og 28. júní 1956 fóru t.d. rúmlega 100 manns með félaginu í Borgarfjörð og á Snæfellsnes. Ferðirnar í Dýrafjörðinn voru yfirleitt örlítið lengri, lagt af stað á föstudegi og komið til baka á mánudegi. Þessar ferðir voru ákaflega vinsælar og má geta þess að 24. - 29. júní 1960 fóru 4 fullar rútur með 111 manns á vegum félagsins í Dýrafjörðinn.

 

Í slíkum ferðum var yfirleitt gist í svefnpokaplássum, t.d. í Grunnskólanum á Þingeyri, en líka í tjöldum eins og t.d. í Þórsmörk. Margir minnast ferða þessara með mikilli ánægju. Eftir því sem bílaeign landsmanna jókst minnkaði áhuginn á að fara í sameiginlegar ferðir og hefur félagið ekki skipulagt slíkar síðan upp úr 1990.

 

Í dag er starfsemi félagsins með svipuðu sniði og fyrir rúmum 60 árum þó umfangið sé minna. Árviss verkefni félagsins eru árshátíð og Kaffidagur og einnig sér félagið um rekstur og viðhald Átthaga, sumarhúss félagsins í landi Hvamms í Dýrafirði. Ágóðinn af sölu veitinga á Kaffidegi rennur í sjóð en úr honum er veitt til góðra málefna heima í Dýrafirði.

 

 

 

 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31