Vilhjálmur Bjarnason og sauðfjárræktin
Ef sauðkindarinnar hefði ekki notið við væri íslenska þjóðin löngu útdauð. Þetta vita nú flestir. En það breytir engu. Vilhjálmur og margir aðrir af sama sauðahúsi hafa lög að mæla. Sauðfjárræktin er vonlaus atvinnuvegur sem slíkur eins og hann er praktíseraður á Íslandi í dag. Og hefur raunar alltaf verið. Þetta veit Vilhjálmur, sem kann að vera hinn versti maður af því hann liggur ekkert á þeirri skoðun sinni. En hann hefur margt sér til ágætis. Vinur er sá er til vamms segir.
Nú er það svo að fleiri njóta góðs af sauðkindinni hjá okkur en sauðfjárbóndinn og hyski hans. Vilhjálmur þegir þunnu hljóði um það í skrifum sínum. Hann nefnir ekki allt fólkið í ýmsum sveitarfélögum landsins sem hefur framfæri af þjónustu við sauðfjárbændurna né alla milliliðina. Nokkur þúsund manns. Villi segir að eitt best varðveitta leyndarmálið í íslenskri hagfræði sé afkoma sauðfjárbúskapar. Jæja. Hann getur trútt um talað, háskólakennarinn. En skal nokkurs staðar í þeirri hagfræði vera talað um öll afleiddu störfin sem hér hafa verið nefnd í framhjáhlaupi?
Íslensk sauðfjárrækt hefur alltaf verið reist á tilfinningum að hluta til. Enginn hefur bent eins rækilega á það og Skáldið okkar. Margir hafa bæði lifað og dáið fyrir sauðkindina. Og öfugt. Sumir gamlir smalar og sauðfjárbændur voru búnir að vera þegar þeir hættu að umgangast þessa merkilegu skepnu. En þau fræði eru utan marka hagfræðinnar.
Matthías Johannessen skrifar í viðtali við Þorgeir í Gufunesi:
„Hann gekk til hestsins og ég í humátt á eftir: „Fol, fol, fol,“ sagði hann. Gnýfari þekkti húsbónda sinn og rétti honum snoppuna, svipmikill klár, einbeittur í andliti og þybbinn eins og eigandinn. Kindurnar góndu á mig, þennan ókunna gest, sumar færðu sig nær, nokkrar stukku upp á brjóstið á mér, þefuðu af mér, hnusuðu, andardráttur þeirra hlýr eins og sumarþeyr, og ég skildi allt í einu þetta fólk sem hefur unnað fénu sínu og látið sér líða vel í návist þess.“ (M Samtöl 4)
Auðvitað er ekkert vit í þessu. Og þó. Það styttist kannski í að mannskepnan verði nokkurs konar vélmenni. Með alvöruvélmenni í kringum sig. Ætli sumir vildu þá ekki bara vera smalar?
Hallgrímur Sveinsson
Höfundur er bókaútgefandi og léttadrengur á sauðfjárbúi eiginkonu sinnar.
Morgunblaðið 28. september 2017.