A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
01.12.2012 - 06:57 | Björn Ingi Bjarnason

Vestfirska forlagið – Menningarbrú Vestfirðinga

Björn Ingi Bjarnason
Björn Ingi Bjarnason
« 1 af 3 »

Vestfirska forlagið á Brekku í Dýrafirði hefur starfað frá árinu 1994 en það var stofnað af Hallgrími Sveinssyni á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar. Vestfirska forlagið einbeitir sér að útgáfu á vestfirsku efni undir samheitinu Bækurnar að vestan og er fjöldi bóka frá upphafi orðinn um 300.

 

Vestfirska forlagið lætur ekki mikið yfir sér og hefur ekki úr miklu að spila. Yfirbygging er lítil sem engin og margir hafa komið að verkum fyrir forlagið af áhuga einum saman og í sjálfboðavinnu. Á það ekki síst við um höfunda margra þeirra vestfirsku bóka sem forlagið hefur gefið út, en margir þeirra hafa aldrei birt eftir sig staf áður. Nægir þar að nefna sumar ævisögurnar, en engu er líkara en þar haldi á penna menn sem hafa ekki gert annað en að skrifa bækur.

 

Í áhöfn Vestfirska forlagsins eru einnig reynslumiklir bókamenn sem starfað hafa með forlaginu árum saman. Nefnum þar fyrstan til Hlyn Þór Magnússon sem nú býr á Reykhólum og hefur verið ákveðin kjölfesta í starfi forlagsins. Einnig Finnboga Hermannsson, f.v. útvarpsmann í Hnífsdal, sem átt hefur fjölda bóka í heild sinni eða að hluta til og forlagið hefur gefið út. Alþýðufræðimaðurinn Ari Ívarsson frá Melanesi hefur skrifað geysilega  mikið um fæðingarsveit sína, Rauðasand og má telja allan þann fróðleik til fádæma. Þá nefnum við einng Bíldælinginn Hafliða Magnússon sem lést þann 25. júní 2011 en hann átti sérlega farsæla samleið með Vestfirska forlaginu alla tíð og bjó rúman síðasta áratuginn á Selfossi. Sama má segja um síra Ágúst heitinn Sigurðsson frá Möðruvöllum, en enginn hefur skrifað eins mikið um vestfirskar kirkjur, presta, fjölskyldur þeirra og leikmenn. Svo má ekki gleyma hinum sönnu vestfirsku lygasögum sem Gísli heitinn Hjartarson tók saman, en þær urðu rúmlega 800 talsins. Í bakvarðarsveitinni eru svo listamennirnir Nina Ivanova, ættuð frá Garðaríki, sem sér um umbrot fyrir forlagið og eiginmaður hennar, vestfirski Sunnlendingurinn Ómar Smári Kristinsson, sem stendur þétt við hlið hennar.  

 

Á líðnum árum hefur áhöfn Vestfirska forlagsins heima og heiman staðið fyrir veglegum útgáfuhátíðum svo sem í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi og veitingahúsinu Café Catalina í Kópavogi. Þessa samkomur hafa verið fjölmennar og sérlega vel heppnaðar og eru mikilvæg tenging samfélags heimabúandi Vestfirðinga og þeirra fjarbúandi. Um þetta samkomuhald og mannlíf hefur verið sagt að Vestfirska forlagið væri  Menningarbrú Vestfirðinga.

 

Bókakynningar í jólabókaflóðinu nú verða: þriðjudaginn 4. des. og fimmtudaginn 13. des. á Café Catalina í Kópavogi og í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi fimmtudaginn 6. desember og hefjast allar kl. 20.

 

Á fullveldisdeginum 1. desember 2012.                                                                    

 

Björn Ingi Bjarnason

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31