A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
14.03.2015 - 09:25 | Aðsendar greinar - Afmælisrit Dýrfirðingafélagsins 2011 - Kristján Gunnarsson

Vélsmiðjan Guðmundur J. Sigurðsson & Co hf.

Kristján Gunnarsson.
Kristján Gunnarsson.
« 1 af 5 »

Kristján Gunnarsson vélvirkjameistari, frá Hofi í Dýrafirði

Vélsmiðjan Guðmundur J. Sigurðsson & Co hf. Var stofnuð 13. janúar 1913 af Guðmundi J. Sigurðssyni vélvirkjameistara. Guðmundur hafði áður starfað og lært í lítilli smiðju, hjá Bjarna Guðbrandi Jónssyni á Þingeyri. Guðmundur fór til framhaldsnáms til Danmerkur 1904. Kom hann heim aftur 1906 og hafði þá keypt fyrstu vélarnar til verkstæðisins sem voru handsnúin súluborvél og fótstiginn rennibekkur. Eru þær vélar enn í lagi. Þá var ekkert rafmagn komið og voru því notuð gasljós til lýsingar. Síðar, eða um 1918, voru fleiri vélar keyptar; stór rennibekkur, stór súluborvél, járnsög, fræsari, lítill rennibekkur og drifbúnaður fyrir vélarnar ásamt dísilvél.

 

Knúnar af einum rafmótor

Allar vélarnar eru nú knúnar af einum rafmótor (áður dísilvél) sem tengdur er einum löngum öxli og hver vél tengd með flatreimum á öxulinn. Allar þessar vélar voru framleiddar með þessum drifbúnaði á þessum árum. Var því hægt að nota vatnsafl, gufuvél, eða eins og hér á Þingeyri dísilvél til að knýja öxulinn. Þá voru tengdir við vélina rafalar til að framleiða rafmagn til ljósa fyrir verkstæðið og nokkur hús á Þingeyri. Var það 65 volta kerfi. Eru þessir rafalar til enn sem og rafmagnstaflan. Má til gamans geta þess að einn hnífrofinn á töflunni er merktur Vesturlína. Vélsmiðjan var fyrsta rafstöðin hér á Þingeyri. Um 1920 hefst málmsteypa Á þessum árum eru viðgerðir nær eingöngu framkvæmdar. Voru þá steyptir varahlutir ýmiss konar, t.d. glóðarhaushedd, stimplar, skrúfublöð, skrúfur og fleira. Síðar kemur framleiðsla á spilum; dragnótaspil, línuspil, togspil, keðjustýrisvélar, sjódælur, olíudrifkerfi (glussakerfi), netaskífur, línuskífur, tóggluss, festipollar og fleira.

Um 1930 fara bresku togararnir að sækja á miðin út af Vestfjörðum og koma þá í viðgerðir til Þingeyrar. Það berst góður rómur af vélsmiðjunni og aukast komur togaranna stöðugt. Á stríðsárunum var mikið um varahlutasmíði í þær vélar sem þá voru í íslensku bátunum.Ekkert var hægt að fá erlendis frá á þeim tíma.

 

Allt upp í 150 skip

Eftir stríðið komu bresku togararnir aftur á miðin og þá var mikið að gera í viðgerðum á þeim. Það voru allt upp í 150 skip sem komu hingað árlega. Gríðarlega mikið var að gera í þessu, allt þar til landhelgin var færð út í 200 mílur. Á þessu tímabili tel ég að hafi verið mest um 15-16 manns í vinnu í vélsmiðju G.J.S. ásamt lærlingum. Enn þá hélt framleiðsla á spilum og fleira áfram en seig svo smátt og smátt niður þegar innflutningur fór að aukast. Þá fækkaði allt niður í tvo starfsmenn á tímabili. Málmsteypan dróst nær alveg saman en stöðvaðist þó ekki alveg en viðgerðir á landbúnaðartækjum og bifreiðum bættust við.

 

50 nemar hér á þessum árum

En eftir því sem ég hef komist næst lærðu um 50 nemar hér á þessum árum. Eins og sést á ofanrituðu er vélsmiðjan, þ.e.a.s. hús, vélar og tæki, orðin um 98 ára, fáein tæki eru yngri. Eru margir furðu lostnir að þetta skuli vera nothæft enn og ekki löngu búið að henda þessum vélum. En það er vegna þess að þetta eru sterkbyggðar vélar og einnig að farið hefur verið mjög vel með þær. Því eru þær vel gagnlegar í dag til þeirra verka sem þær eru ætlaðar.

 

Safngripir í flestra augum

En í flestra augum eru þetta safngripir og reyndar smiðjan öll, og sýnir vel hvað hægt var að gera á árum áður. En smiðjan varð sjálfkrafa að safni, munurinn er sá frá öðrum söfnum sem sett hafa verið upp að þetta er ekta smiðja og allt eins og var frá upphafi, lifandi og engar sérstakar uppstillingar. Það koma margir ferðamenn, innlendir og erlendir, að skoða smiðjuna og hafa á orði að þetta sé alveg einstakt og þótt út um heim sé leitað. Hér gefst ungu fólki vitneskja um hvað hægt var að gera í þessari gömlu vélsmiðju, þar sem Þetta eru minningar um þrautseigju og kunnáttu þeirra manna sem gerðu við og björguðu oft miklu meira en við getum nokkurn tíma gert okkur grein fyrir .

 

Verið velkomin að skoða Vélsmiðjuna Guðmund J. Sigurðsson & Co.

 

Kristján Gunnarsson vélvirkjameistari, frá Hofi í Dýrafirði

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31