Val á staðsetningu flugvallar í millilandaflugi fyrir alla Vestfirði
Fyrirhuguð er gerð jarðgangna á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar sem hefur þann tilgang að tryggja samgöngur allt árið á Vestfjarðakjálkanum. Þar með er staðsetning millilandaflugvallar ekki einkamál íbúanna sem búa norðan Arnarfjarðar, heldur verður að horfa á hagsmuni Vestfjarðakjálkans í heild. Því er mikilvægt að staðsetning millilandaflugvallarins verði miðsvæðis á svæðinu, þar sem flugvöllurinn á Þingeyri er.
Hlutverk millilandaflugvallar á Vestfjörðum er að opna greiðari og ódýrari leið fyrir ferðamenn til að koma beint frá útlöndum til Vestfjarða. Hér er meðal annars horft til þeirra þúsunda ferðamanna sem koma þangað á sumrin til að sækja sjóstangaveiði. Þessi iðnaður er í sókn um alla Vestfirði og því er mikilvægt að flugvöllurinn sé miðsvæðis þannig að þeir sem stunda þessa þjónustu á Vestfjarðakjálkanum sitji allir við sama borð.
Hlutverk millilandaflugvallar á Vestfjörðum er jafnframt að auka möguleika til útflutnings á ferskum fiskafurðum. Því er mikilvægt að flugvöllurinn sé miðsvæðis þannig að allir fiskútflytjendur á Vestfjarðakjálkanum sitji við sama borð.
Ef af byggingu olíuhreinsunarstöðvar verður Í Arnarfirði er æskilegt að millilandaflugvöllur verði sem næst stöðinni til að þjónusta hana. Með tilkomu jarðgangnanna væri Þingeyri mun betri valkostur en Ísafjörður í því sambandi.
Þegar rýnt er í flugöryggi er flestum ljóst að aðstæður á Þingeyrarflugvelli hljóti að teljast öruggari en á Ísafirði, þar sem fjöllin þrengja mun meira að flugvellinum á Ísafirði en í Þingeyri.
Varðandi kostnað, ber að horfa til þess að þegar jarðgangagerðin á milli Dýrafarðar og Arnarfjarðar hefst, er vafalaust hagkvæmt að losa þau jarðefni sem koma úr gangnagerðinni til uppfyllingar og lengingar á flugbrautinni á Þingeyri. Mér skilst að lengja þurfi flugbrautina á Þingeyri um ca. 300 metra til að völlurinn uppfylli kröfur fyrir þotur sem taki um 150 farþega.
Ég vona að þessi skrif verði til þess að opna umræðu manna á Vestfjörðum í heild sinni fyrir þeim sameiginlegu hagsmunum sem við verðum að standa vörð um.
Þórhallur Arason, Þingeyri.