Úr viðtali við Guðmund Sören Magnússon: - Markús og Mikael í Móum
Markús Arnbjörnsson og Mikael Þorláksson bjuggu um svipað leyti í Móum í Keldudal. Þeir áttu þar sitt timburhúsið hvor, sem var þurrabúðarkot. Þeir áttu fáeinar kindur, en aldrei heyrði ég um að þeir hefðu átt kú. Þeir voru báðir á skútum á sínum yngri árum.
Markús var stýrimaður lengi á skútum og ég held hann hafi verið hjá Ólafi Guðbjarti í Haukadal. Ef menn vildu vita meira um Markús í Móum, þá er að leita í sögunum hans Guðmundar Hagalíns, því hann kemur þar víða fyrir, bæði sem fyrirmynd sögupersóna og beinar frásagnir um hann.
Markús Arnbjörnsson í Móum var mikill sagnaþulur og hafsjór af fornum fróðleik. Hann var með lágvaxnari mönnum sem ég man eftir að hafa séð, en þrekinn. Markús var listasmiður á járn og kopar. Koparhlutir eftir hann voru alveg eftirsóttir. Hann smíðaði beislismél og koparhringjur í reiðtygi. Lýsislampa til skrauts smíðaði hann á seinni árum sínum og yfirleitt allt sem viðkom járni smíðaði hann, skeifur og venjuleg búsáhöld og fleira og fleira. Við sátum stundum við fótskör hans, strákarnir í Keldudal. Við komum stundum í smiðjuna til hans á Skálará og ef við vorum ekkert að flýta okkur, fékk hann okkur stundum til að blása í eldsmiðjuna og fengum við þá stundum mergjaðar rímur í vinnulaun. Hann hafði mikið dálæti á Andrarímum. Hann kunni heilu rímnaflokkana utanbókar og hefðu þær fyllt heilar bækur.
Þetta var venjuleg heimasmíðuð smiðja sem Markús átti, með tilbúnum fýsibelg. Efri hluti belgsins var fastur, en hinn seig niður. Svo toguðum við í spotta til að blása. Þetta var gamla aðferðin til að fá meiri hita í kolin.
Markús var kvæntur maður, en hans kona var löngu dáin áður en við komum til. Hann var í skjóli dóttur sinnar, Ólafíu, en hún var vinnukona á Skálará. Hún var gift Einari Gestssyni, syni Gests sem lengi bjó á Skálará og bjó þar þegar ég man fyrst eftir. Hún missti Einar eftir stutta sambúð. Hann var einn af þeim sem drukknuðu á Valtýr, ásamt bróður sínum, Andrési.
Mikael Þorláksson var aftur á móti matsveinn á skútunum, sérstaklega þrifinn karl og fór snyrtilega með matvæli öll. Hann var giftur Unni, systur Markúsar. Dóttir þeirra var Sigríður, kona Þórarins í Hrauni. Unnur hafði átt son áður en hún giftist Mikael. Sá hét Kristján og var Jóhannesson. Hann var skipstjóri á Síldinni þegar hún fórst 1912 í Dýrafirði. Hann var aftur kvæntur Guðmundu Guðmundsdóttur sem var ættuð frá Arnarnúpi, systur Bjarna Magnúsar á Kirkjubóli, föður þeirra Ásdísar og Knúts.
Ég heyrði þá sögu að Mikael hefði verið borinn í skinnskjóðu yfir Glámuheiði, eitthvað innan við þriggja sólarhringa gamall. Mig grunar að foreldrar hans hafi verið fátækir og þeir í Ögurhrepp hafi viljað losna við hann þess vegna, að hann yrði ekki til sveitarþyngsla, en þá var það víst talið að börn yrðu orðin sveitföst ef þau væru meir en þrjá sólarhringa í hreppnum. Faðir hans var ættaður héðan úr Dýrafirði, Þorlákur Narfason að nafni og mun hann hafa verið frá Kirkjubóli. Móðir hans hét Þórunn og var Hafliðadóttir og er sögð hafa verið frá Borg í Skötufirði og þar mun hann hafa verið fæddur.
(Mannlíf og saga fyrir vestan 8. hefti)